Skjótt skipast veður í lofti og eins og gerist verður að bregðast við því. Fljótlega eftir síðasta aðalfund komu upp þær aðstæður hjá nýendurkjörnum formanni, Sigrúnu Grendal, að af persónulegum ástæðum gat hún ekki sinnt starfinu og sagði sig frá því. Undirritaður sem gegnt hafði varaformennsku í nokkur ár tók við formannsstarfinu. Vil ég nota þetta tækifæri til að þakka Sigrúnu, hennar óeigingjarna framlag til félagsins og baráttunnar fyrir fordómalausu HIV-lífi.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti því yfir fyrir nokkrum árum að hennar markmið, sem kallað var „Getting to Zero“, næðist árið 2015. Segja má að markmiðið hafi náðst og núna er það að fullu viðurkennt af heilbrigðisyfirvöldum og þar á meðal hér á landi að HIV jákvæðir sem sinna sinni meðferð að fullu séu ekki lengur smitandi. Viðurkenningin hefur mikla þýðingu fyrir HIV jákvæða og gjörbreytir lífi þeirra.
Á árinu urðu vendingar í forvörnum gegn HIV, þegar aðgengi að svokölluðum „PREP“ lyfjum varð að veruleika. Félagið hafði lengi barist fyrir því að heilbrigðisyfirvöld opnuðu fyrir aðgengi að lyfjunum. Miklar umræður og samræður hafa átt sér stað við smitsjúkdómadeild embættis landlæknis varðandi aðgengi hér á landi að „hraðgreiningarprófum“ til greiningar á HIV. Félagið telur að þetta sé næsta skref í forvörnum og greiningu á HIV sem gæti farið fram utan sjúkrastofnana.
Sú ágæta heimildarmynd Hrafnhildar Gunnarsdóttur, „Svona fólk“ hefur vakið marga til um umhugsunar um baráttu liðins tíma fyrir mannréttindum. Þar kom kaflinn „Plágan“ ansi sterkt við marga og minningar rifjuðust upp varðandi þann tíma þegar HIV jákvæðir voru útskúfaðir úr samfélaginu og yfirgáfu þetta líf í einsemd og skömm. Skömm sem öll var sprottin af vanþekkingu og fordómum.
Einhver kann að spyrja af hverju er nauðsynlegt að vera með félag eins og HIV Ísland? Svarið er afar einfalt og sést best þegar litið er yfir starfsemi félagsins. Barátta fyrir réttindum félaganna bæði hvað varðar aðgengi að nýjustu lyfjunum og þjónustu heilbrigðiskerfisins svo og fræðslustarf er stór þáttur í starfsemi félagsins.
Ingi Hans Ágústsson, formaður.
Birtist fyrst í Rauða borðanum 1. des. 2019