Árleg minningarguðsþjónusta vegna þeirra sem látist hafa úr alnæmi hér á landi var að þessu sinni haldin, sunnudaginn 28. maí 2017. Kveikt var á kertum til að minnast þeirra er látist hafa, einu kerti fyrir hvern einstakling sem við minnumst. Minningarstund þessi er alþjóðleg og heitir á ensku Candlelight Memorial Day.
Að vanda fór athöfnin fram í Fríkirkjunni í Reykjavík. Sr. Hjörtur Magni Jóhannesson, leiddi guðsþjónustuna. Formaður Hiv- Ísland, Sigrún Grendal, flutti ávarp og Matthías Matthíasson, sálfræðingur fór með hugleiðingu. Ritningarlestur var í höndum félagsmanna.
Margrét J Pálmadóttir mætti með sína fögru söngfugla og söngkonan Berglind Björk Jónasdóttir flutti nokkur lög. Organisti í athöfninni var Gunnar Gunnarsson. Baba og félagar fluttu magnaða trommutónlist og að vanda var boðið upp á veitingar í Safnaðarheimili Fríkirkjunnar að lokinni messu.
Minningarstundin okkar hefur þróast í að verða notaleg samverustund fyrir alla fjölskylduna þar sem ungir og gamlir geta notið hlýlegs andrúmslofts og frábærrar tónlistar. Auk þess að minnast þeirra sem látnir eru fögnum við lífinu og þeim tækifærum sem HIV jákvæðir hafa til eðlilegs lífs í dag.
Vill stjórn HIV Ísland þakka öllum þeim sem komu og nutu þessarar stundar með félagsfólki
Myndir: Pressphotos.biz
Birtist í Rauða Borðanum 1. des. 2017