„Ég trúi því að við gætum gert sambærilega hluti og á Norðurlöndunum þegar kemur að hraðprófunum við HIV-veirunni,“ svarar Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir spurð í húsakynnum HIV Ísland við Hverfisgötu. „Það eru til próf sem eru nógu góð til að nota við réttar aðstæður og ég tel að með því myndum við greina fleiri.“
Guðrún, ásamt Önnu Margréti Guðmundsdóttur, yfirlækni á sóttvarnasviði, settist yfir kaffibolla með Einari Þór Jónssyni framkvæmdastjóra eitt síðdegi í nóvember. Hraðprófin voru rædd; kostir og gallar þeirra. Þá var samband félagsins við sóttvarnalækni styrkt.
„Það er hugsanlegt að fólk sé tilbúnara að nota slík próf nú eftir COVID; bæði almenningur og heilbrigðisstarfsfólk,“ segir Guðrún og að sóttvarnalæknir myndi leggja sitt að mörkum með að skoða að koma slíku kerfi á laggirnar.
Guðrún tók við sem sóttvarnalæknir í september í fyrra eftir krefjandi COVID-heimsfaraldur. Hún starfaði þá á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis. Hún hefur sérfræðimenntun í bæði almennum skurðlækningum og barnaskurðlækningum og var lektor og barnaskurðlæknir við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum á árunum 2007 til 2017. Hún hefur víðtæka þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði og segir veirusýkingu eins og COVID-19 geta komið upp aftur.
„Já, það er vel mögulegt. COVID var ný veirusýking í öndunarfærum, MPX veirusýkingin (áður apabóla) var ekki nýr sjúkdómur en fór að breiðast út á nýjum svæðum. Við getum því fengið nýja sjúkdóma, sem og þekkta sjúkdóma á nýjum svæðum. Þetta er allt mögulegt,“ segir hún.
Einar lagði áherslu á að tíminn þegar HIV veiran herjaði án lyfja á menn megi ekki gleymast. „Þessi tími þarf að fá það ljós á sig sem hann á skilið og að það sé viðurkennt hvernig þetta ástand var.“ Hömluleysi hafi verið í óttanum og viðbrögð yfirvalda samkvæmt því.
Anna Margrét sagði frá fundi um HIV sem hún sótti nýlega hjá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins. „Það er mjög mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk viti að fólk á HIV meðferð er ekki smitandi. Þar er bæði ótti og fordómar,“ segir hún og að nú sé verið að kanna þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á þessu. „Þessi vitneskja þarf að vera uppi á borðum.“
En verður bólusett í framtíðinni gegn HIV-veirunni? „Ég vona það,“ svarar Guðrún. „Rannsóknir hafa staðið yfir lengi. Þessi mRNA-bóluefni, sem voru mest notuð í COVID, höfðu verið í rannsóknum í sambandi við HIV en ekki tekist að ná fram virkni. Fólk eflist örugglega í þessum rannsóknum núna.“ – gag
Mynd:
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir, Einar Þór Jónsson formaður HIV Íslands og Anna Margrét Guðmundsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnasviði hittust á óformlegum fundi í húsakynnum samtakanna. Mynd/gag