Stuðningur MAC og Landlæknisembættis undanfarin ár hefur verið grundvöllur þess að HIV Ísland hefur tekist að halda úti fræðslu um HIV og alnæmi til allra 9. og 10. bekkinga í grunnskólum landsins undanfarin 15 ár. Verkefni sem þetta er brýnt og þarf stöðugt að vinna að því. Markmið fræðslunnar er annars vegar að unglingar sýni sjálfum sér og öðrum fulla virðingu, bæði í kynlífsathöfnum sem og öðrum athöfnum. Hitt meginmarkmiðið er að vinna gegn fordómum, fordómum gegn ákveðnum sjúkdómum, fordómum sem byggjast á fáfræði. Fræðslan er skólunum að kostnaðarlausu. Félagið hefur auk skólafræðslunnar getað staðið fyrir fræðsluerindum um HIV við deildir háskóla , í fangelsum, meðferðastofnunum og fjölda fyrirtækja. Framlag MAC á Íslandi hefur verið eyrnamerkt fræðsluverkefni HIV Ísland. Alltaf koma nýir nemendur sem betur fer og því þarf stöðug skipulögð fræðsla að eiga sér stað. Síðustu yfirferð lauk vorið 2016. Einar Þór Jónsson lýðheilsu- og kennslufræðingur er skipuleggjandi þessa verkefnis.
Bankareikningur fyrir verkefnið er á nafni HIV Íslands. Reikningsnúmer: 513-26-603485. Kt.: 541288-1129.
Alnæmissjóður MAC var stofnaður árið 1994 af Frank Angelo og Frank Toskan, stofnendum MAC Cosmetics. Sjóðurinn er hjartað og sálin í MAC. Tilgangur hans er að styðja menn, konur og börn um allan heim sem sem smitast af HIV/Alnæmi. Sjóðurinn styrkir einnig fræðslu- og forvarnarverkefni sem beinast að því fólki á hverjum stað sem eru í mestri hættu að smitast af HIV.
Alnæmissjóður MAC hefur frumkvæðið að fræðslu og forvörnum á svæðum sem hafa til þessa notið lítils stuðnings. Sjóðurinn styður mörg ólík samtök um allan heim sem bjóða upp á margs konar þjónustu til þeirra sem eru HIV smitaðir. Með þessu er reynt að brúa bil fátæktar og sjálfsagðra mannréttinda.
Styrktarsjóður MAC er þriðji stærsti sjóðurinn í heiminum sem leggur þessum málaflokki liðsinni sitt. Tveir stærstu sjóðirnir eru á vegum lyfjafyrirtækja.
Allt söluandvirði Viva Glam varalita og glossa rennur til sjóðsins. Hingað til hafa verið framleiddar 4 tegundir varalita og 2 tegundir glossa. Hver ný Viva Glam herferð byggir á stuðningi fræga fólksins úr heimi lista- og tónlistarfólks sem leika lykilhlutverk í að fræða almenning um HIV smit og Alnæmi.
Einar Þór Jónsson
Birtist fyrst í Rauða borðanum 1. desember 2017.