Úr einni pillu í tvær
Flestir sem taka lyf við HIV hér á landi taka nú þrjú lyf í einni töflu daglega til að halda veirunni fullbældri. Spítalinn hefur þó verið að endurskoða notkun HIV lyfja síðastliðið ár til að halda kostnaði í lágmarki.
„Það áttu sér stað ákveðnar breytingar á áherslum þegar kostnaður vegna HIV lyfja færðist frá Sjúkratryggingum Íslands yfir á Landspítalann,“ segja þær Anna og Bjartey. „Hér á göngudeildinni höfðum við undanfarin 5-10 ár verið svo lánsöm að geta boðið HIV jákvæðum upp á nýjustu og bestu lyfin, en þau eru ólíklegri til að valda aukaverkunum tengdum nýrnastarfsemi og beinþéttni,“ segja þær.
„Nú hefur hins vegar skapast ákveðinn þrýstingur að nota samheitalyf eldri lyfja í sparnaðarskyni.“ Megin þorri þeirra sem komi nýir í þjónustu fái samheitalyfið sem er þá tekið með þriðja lyfinu í annarri töflu.
Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland, segir það ákveðið réttlætismál að HIV jákvæðir fái aðgang að lyfjum með sem minnstum aukaverkunum. Þótt ljóst sé að lyfin séu jafngóð gegn veirunni séu aukaverkanir af nýju lyfjunum minni.
„En þetta er eins og með aðra sjúkdóma og við sem höfum haft HIV í yfir 30 ár þekkjum að það er ekki vinsælt að tala um aukaverkanir,“ segir hann. „Þessi afturför er mikil vonbrigði fyrir okkur öll.“
Trans og kynsegin fá PrEP
Ákveðið hefur verið að bjóða trans og kynsegin fólki að taka PrEP. Alls hafa hátt í 360 verið á PrEP frá því að Landspítalann bauð lyfið fyrst árið 2018. PrEP er forvarnarlyf gegn HIV veirunni sem veitir 99% vernd.
„Við erum mjög glaðar með þetta skref,“ segir Bjartey Ingibergsdóttir, hjúkrunarfræðingur á göngudeild smitsjúkdóma. Hingað til hafi aðeins karlmenn sem sofa hjá karlmönnum fengið lyfið. Anna Tómasdóttir, sem einnig er hjúkrunarfræðingur á deildinni, kallar eftir breytingum. Nú þurfi fólk að vera sjúkratryggt til að fá aðgang að PrEP hér á landi.
„Hér eru margir til skemmri tíma sem ættu að hafa aðgang að lyfinu,“ segir hún. Báðar eru sammála um mikilvægi PrEP og segja allt fólk sem stundi kynlíf eigi að hafa kost á því að taka fyrirbyggjandi lyf sé áhætta til staðar. „HIV fer ekki í manngreiningarálit.“
Bæði er hægt að vera á PrEPi daglega, taka yfir ákveðið tímabil eða í tengslum við ákveðið tilefni. Þær lýsa því hvernig Covid-19 hafi haft áhrif á það hvernig menn kusu að nýta lyfið. „Margir sem áður tóku það daglega svissuðu yfir í on-demand,” segir Bjartey. Anna tekur undir það.
„Já, það hefur þróast í þá átt. Menn hafa fundið þægindaramma sinn þegar kemur að þessu forvarnarlyfi við HIV og haga notkun sinni eftir þörfum.“
Hafa sprautað 315 við apabólu
Alls 315 hafa verið sprautaðir við apabólu hér á landi. „Ég tel að samkynhneigðir karlmenn sinni kynheilbrigði sínu betur en margir,“ segir Bjartey. Þeir séu ábyrgir. Anna tekur undir. „Þeir eru vel upplýstir.“ Hingað til hafa þeir fengið bóluefnið sem hafa farið í grunnviðtal fyrir PrEP eða eru HIV jákvæðir. 600 hafi í heildina fengið boð um bólusetningu.
„Við þurfum í samráði við sóttvarnaryfivöld að forgangsraða hverjir fá bólusetningu því bóluefnið er af skornum skammti og við fáum ekki meira fyrr en næsta haust,“ segir Bjartey. Um sex þúsund skammtar séu þó til. Hver fari tvívegis í bólusetningu og 160 hafa farið tvisvar.
Kveðjur og þakkir
Þórólfur Guðnason fráfarandi sóttvarnarlæknir var kvaddur við hátíðlega athöfn í Íslenskri erfðagreiningu þann 23. september síðastliðinn. Það er alveg óhætt að segja að Þórólfs og hans verka í þágu þjóðarinnar verði minnst um ókomna tíð.
Norrænt samstarf
Samnorrænn fundur var haldinn í Reykjavík í september. HIV Norden er samstarfsvettvangur HIV-jákvæðra á Norðurlöndum og hefur skrifstofu í Helsinki. Formaður sambandsins er Nonni Mäkikärki frá Finnlandi. Norrænt samstarf
Fundir eru haldnir tvisvar á ári (einn þeirra aðalfundur) þar sem rætt er um ástandið í hverju landi og reynt að móta sameiginlega stefnu. Áherslan í samstarfi HIVNorden snýr að mannréttindum HIV jákvæðra, forvörnum og upplýsingum almennt út í samfélagið.
Hópavinna með HIV-jákvæðum
Yfir vetrarmánuðina geta HIV-jákvæðir hist í hópastarfi í húsnæði HIV – Íslands. Markmið þess eru félagslegs og tilfinningalegs eðlis, að geta hitt aðra í sömu stöðu, ræða hjartans mál og læra af reynslu hvers annars. Áhersla er lögð á einlægni og trúnað. Umsjón með starfinu hefur Sigurlaug Hauksdóttir félagsráðgjafi. Nánari upplýsingar má fá hjá HIV Íslandi í síma 552 8586 og með netpósti sem er sillahauks@gmail.com .
Alþjóðlegi alnæmisdagurinn
Dagur Rauða borðans fimmtudaginn 1. desember. Slagorð dagsins í ár „Jöfnun“ er ákall til aðgerða. Það er hvatning fyrir okkur öll að vinna að sannreyndum raunhæfum aðgerðum sem þarf til að taka á ójöfnuði og hjálpa til við að binda enda á alnæmi. Má þar nefna: Auka framboð, gæði og aðgengi allra að þjónustu, til HIV meðferðar, prófana og forvarna. 1. desember er ákall eftir samstöðu með þeim 38 milljónum sem lifa með HIV um allan heim og um leið minnumst við þeirra milljóna sem hafa látið lífið af völdum alnæmis.
Alþjóðlegur dagur alnæmis er haldinn hátíðlegur þann 1. desember um allan heim. Dagurinn er tileinkaður minningu þeirra sem látist hafa af völdum alnæmis og baráttunni gegn fordómum og mismunun gagnvart fólki sem er HIV smitað.
Í tilefni dagsins verður opið hús að Hverfisgötu 69. Stríðstertuhlaðborð frá kl. 16 til 19. Kvennakór mætir og Bjarni Snæbjörnsson leikari les úr bókinni Berskjaldaður. Merki félagsins Rauði borðinn er til sölu.
Rauði borðinn
Að bera Rauða borðann er táknmynd samúðar og stuðnings við HIV-jákvæða og alnæmissjúka.
Rauði borðinn er ekki einungis stuðningsyfirlýsing, heldur krafa um umræðu og forvarnir, ósk um framfarir í rannsóknum og von um lækningu.
Rauði borðinn er einnig leið til þess að draga HIV-smit og alnæmi fram í dagsljósið.
Upphaf Rauða borðans má rekja til listamannahópsins Visual AIDS í Bandaríkjunum, samtaka listamanna, listfræðinga og forstöðumanna listasafna. Inntakið er: HIV og alnæmi kemur okkur öllum við!