Fjögur og hálft ár eru frá því undirrituð greindist Hiv jákvæð. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort og þá hvaða áhrif þessi greining hefur haft á mig. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að mér finnst ég þekkja sjálfa mig enn betur en áður. Engin manneskja veit fyrirfram hvernig hún bregst við áföllum eða alvarlegum tíðindum og það veitir óneitanlega dálítið öryggi að finna að maður getur staðið uppi sem heil manneskja við slíkar aðstæður. Það sem mér finnst ég hafa lært um sjálfa mig er, að ég hef mitt eðlislæga, jákvæða hugarfar og þá sannfæringu að í mótlæti hafi maður bara eitt val og það er að takast á við hlutina með bjartsýni og yfirvegun og vera trú sjálfri sér. Ég er nokkuð stolt af sjálfri mér. Ekki vegna þess að þetta hafi verið mér erfitt og ég hafi unnið einhver þrekvirki, heldur vegna þess að ég veit að það er ekki sjálfgefið að geta tekið hlutunum á þennan hátt.
Ég man að þegar ég fór út frá lækninum með þá vitneskju að ég væri Hiv jákvæð þá fylltist ég eiginlega bæði þakklætis- og hamingjutilfinningu. Í rauninni fannst mér ég hafa fengið annað tækifæri í lífinu. Mér fannst ég hafa lifað góðu lífi fram til þessa, en kannski tók ég því sem sjálfsögðum hlut. Þetta var áminning. Ég var ekki að fara að deyja, allavega ekki vegna Hiv. Ég hlýt að vera klikkuð. Hver fer hoppandi af hamingju út frá lækni sem var að segja að þú værir Hiv jákvæð? En þetta er ég – klikk eða ekki klikk. Kannski vorum við Polýanna systur.
Fljótlega eftir að ég greindist fór ég að taka þátt í hópfundum með Sillu, félagsráðgjafa samtakanna. Mér fannst áhugavert að heyra reynslusögur annarra, fólks á öllum aldri og með mislangan Hiv feril. Fólk var einlægt og opinskátt. Fullt trúnaðartraust ríkti og ég held að við höfum öll grætt á þessu og lært hvert af öðru. Þarna áttaði ég mig almennilega á því hvað við tökumst ólíkt á við þennan sjúkdóm – hvað Hiv hefur haft mikil og alvarleg áhrif á marga og hvað óttinn við höfnun vegna vanþekkingar og fordóma almennings er ennþá ríkjandi.
Eftir að hafa setið í stjórn félagsins um tíma tók ég við formannsstarfinu fyrir tæplega ári. Stjórnin hefur unnið ötullega að málefnum félagsins og lagt áherslu á fræðslu og kynningu til almennings um breytta stöðu Hiv jákvæðra, sem vegna tilkomu nýrra lyfja eru nú ósmitandi. Það er meginmarkmið okkar hjá félaginu að auka þekkingu almennings á Hiv og vinna þannig gegn fordómum. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að greiða götu þeirra sem eru Hiv jákvæð og líður illa, vegna þess að þeim finnst þau verði að halda því leyndu fyrir öðrum. Við viljum hvetja áhugasama til að líta við hjá okkur til að spjalla, fá upplýsingar eða stuðning, koma með nýjar hugmyndir eða bara til að drekka saman gott kaffi og vera dálítið klikk saman.
Sigrún Grendal Magnúsdóttir
formaður HIV-Ísland
Birtist í Rauða Borðanum 1. des. 2016