Í ár eru 40 ár liðin frá því að fyrsta HIV smitið var greint á Íslandi og við þau tímamót er rétt að gera upp hvaða sár sitja eftir frá þeim tíma. Prestar lögðu sitt af mörkum í þjónustu við HIV jákvæða en sr. Jón Bjarman sjúkrahúsprestur var meðal þeirra sem unnu að stofnun HIV Ísland og sat jafnframt í fyrstu stjórn samtakanna. Þá hefur í nær 30 ár verið haldin í Fríkirkjunni í Reykjavík minningar- og vonarstund sem á alþjóðavísu nefnist HIV candlelight memorial service. Fyrstu stundirnar voru haldnar í öðrum kirkjum en frá árinu 1995 hefur þessi stund verið haldin í Fríkirkjunni í Reykjavík.
Kristin kirkja hefur margt á samviskunni í garð þessa hóps og það er mikilvægt að gera upp það trúarofbeldi sem HIV jákvæðir hafa þurft að þola í nafni kirkjunnar. Á heimasíðunni tímarit.is er að finna sársaukafullar greinar og ein slík, birt í Morgunblaðinu þann 14. apríl 1987, sýnir með sérlega skýrum hætti þá fordóma sem hinsegin fólk og HIV jákvæðir þurftu að þola hérlendis og þurfa enn á heimsvísu. Greinarhöfundur segir: „Alnæmi á það sameiginlegt með öðrum kynsjúkdómum að hann verður til vegna þess sem Biblían kallar forboðið kynlíf. […] Af þessu sést glöggt að ástæðan fyrir alnæmi er frjálst eða óeðlilegt kynlíf. Með öðrum orðum „synd“. Afleiðing syndar kallar alltaf á dauða.“
Röksemdafærsla þeirra sem ala á andúð í garð hinsegin fólks og skýla sér á bakvið guðstrú er alltaf á sömu leið: Guð elskar syndarann en hatar syndina, sem í þeirra augum eru hinsegin ástir. Ég hef bent á að Biblían bjóði með engum hætti upp á fordæmingu samkynhneigðar og jafnframt á mikilvægi þess að kalla þennan hatursboðskap réttum nöfnum, trúarofbeldi. Sá trúarleiðtogi á heimsvísu sem hefur með áhrifamestum hætti tengt saman fordæmingu á samkynhneigð og alnæmi er Billy Graham en hann sagði árið 1993: „Er alnæmi refsing Guðs? Ég get ekki verið viss, en ég trúi því.“ Hreyfing hans er í dag leidd af syni hans, Franklin Graham, en hann heimsótti Ísland árið 2013 á svokallaðri Hátíð Vonar og komu hans og aðkomu biskups Íslands var mótmælt af fjölmörgum, bæði innan kirkju og utan, að mér meðtöldum.
Sáttaferli felur annarsvegar í sér að misgjörðir séu kallaðar réttum nöfnum og hinsvegar að ofbeldi sé fordæmt. Fríkirkjan í Reykjavík getur ekki talað fyrir hönd kristninnar en hún hefur staðið með ástinni og HIV jákvæðum í hartnær 30 ár og mun gera það áfram. Mér ber jafnframt skylda sem prestur að játa að ástin er heilög í öllum þeim myndum sem hún birtist og að fordæma þá guðsmynd að Guð refsi þeim sem elska, með smitsjúkdómum. Nú þegar 40 ár eru liðin frá fyrsta HIV smitinu á Íslandi er samtímis hægt að syrgja það sem HIV jákvæðir hafa þurft að þola og fagna þeirri sálgæslu, samstöðu og fegurð sem finna má í sögu þeirra. Megi ástin að eilífu bera sigur af hólmi.
Sigurvin Lárus Jónsson
Höfundur er prestur við Fríkirkjuna í Reykjavík.