Unnur Guðrún Þórarinsdóttir, varð tvítug í nóvember og var að gefa út sína fyrstu bók.
Allur ágóði bókarinnar rennur til styrktar HIV samtakanna og Laufs félags flogaveikra.
„Ástæða þess að ég valdi þessi tvö félög er vegna þess að ég var greind ung með góðkynja barnaflogaveiki og er ég heppin að vera laus við sjúkdóminn í dag, mig langar að sýna Lauf samtök flogaveikra þakklæt mitt og styrkja þau eins og ég get. HIV Ísland áður Alnæmissamtökin eiga stóran part af hjarta mínu og fjölskyldu minnar. Ingi Gests, móðurbróðir minn heitinn, greindist ungur með alnæmi, hann lést aðeins 22 ára gamall og hefði hann orðið 53 ára í ár. Mér þykir virkilega vænt um félagið og eru þau að gera virkilega góða hluti, mig langar að vekja athygli á þessum félögum og styrkja þau eins og ég get með ykkar hjálp.
Ég er nýútskrifuð af listabraut á leiklistasviði frá Fjölbraut í Garðabæ. Þar hef ég farið í 11 listaáfanga, verið í stjórn leikfélagsins Verðandi og verið aðstoðarleikstjóri hans Karls Ágústs og sýningarstjóri leiksýningarinnar REIMT eftir Karl Ágúst og Þorvald Bjarna. FG setti upp sýninguna áður en covid skall á.
Ásamt því er ég í stjórn Áhugaleikfélags Grindavíkur og er ég að skrifa þar handrit upp úr bókinni „Ef ég væri ofurhetja“ eftir hina mögnuðu Katrínu Ósk Jóhannsdóttur og stefnum við á að setja það upp og verð ég leikstjóri barnaleikritsins.
Annars hef ég gaman að skrifa og hef nýtt 2020 vel í skrif og listina sjálfa. 16 mánuðum síðar er listin orðin að bók“
Þessi kraftmikla unga kona vill að lokum hvetja alla að fylgja draumum sínum og ekkert minna en það. Hún segir allt hægt ef vilji sé fyrir hendi og mikilvægt að muna að sýna fólkinu sínu þakklæti.
Erfiðleikarnir sem við göngum í gegnum gera okkur að þeim manneskjunum sem við erum í dag og hún hvetur fólk til að sýna því skilning og læra á jákvæðan hátt hvernig hægt er að nýta okkar skilning með því að miðla honum til annarra. Frábært framtak, bókin fæst á „Til þeirra“-facebooksíðunni og þar er hægt að gera góð kaup, lesa falleg ljóð og í leiðinni styrkja gott málefni.