Einar Þór Jónsson framkvæmdastjóri samtakanna HIV Ísland og jafnframt formaður Geðhjálpar var í viðtali á Rás 2 20 mars 2020. Viðtalið má sjá í fullri lengd á vef RÚV hér: Upplifa áfallastreitu frá HIV-plágunni út af COVID-19
Einar segir að ástandið nú minni hann svo sannarlega á gamla tíma. “Kórónuveiran vekur upp slæmar minningar fyrir marga úr samfélagi samkynhneigðra sem muna HIV-pláguna þegar hún var upp á sitt versta á níunda og tíunda áratugnum. ”
„Við sem smituðumst af HIV-veirunni á níunda áratugnum og lifðum af, við upplifum endurupplifun, og þegar ástand skapast eins og núna fær maður áfallastreitu,“ segir Einar Þór í samtali við Morgunþátt Rásar 1 og 2. „Það er eitthvað sem við þurfum að hafa í huga þegar við tökumst á við ástandið, við erum öll í áfalli, við eigum eftir að minnast þessa tíma, að þetta var tráma sem við lentum í.“ Einar Þór hefur verið HIV-jákvæður í 35 ár og er nú á lyfjum sem halda veirunni algjörlega í skefjum. „En Þegar HIV-veiran var skilgreind var þetta drepsótt. Það að fá HIV var dauðadómur og engin undankomuleið með það.“
Eitt það sérstaka við HIV-faraldurinn er að þar voru jaðarhópar skilgreindir sem áhættuhópar. „Það fer alltaf dálítið um mig þegar ég heyri fólk flokkað,“ segir Einar. „Hver skyldi vera meira smitandi hvar og hvernig, hvaða hópar, ferðamenn, börn eða eldra fólk. Þetta rífur upp sár. Þegar sagt er að við lifum á fordæmalausum tímum þá er það auðvitað ekki þannig. Fyrir okkur sem stóðum í þessu á 9. áratugnum var þetta alveg skelfilegur tími.“ Ekki aðeins voru samkynhneigðir að kljást við sjúkdóminn heldur líka fordóma samfélagsins sem hafnaði þeim hvort sem þeir voru smitaðir eða ekki. „Það voru settar ferðahömlur á HIV-jákvætt fólk til Bandaríkjanna, Asíu og Rússlands. Það var á teikniborðinu í Svíþjóð og hér að það þyrfti að setja „þetta fólk“ í algjöra einangrun, það væri hægt að nota Flatey á Breiðafirði til dæmis.“ Þá hafi meira að segja komið til tals hvort rétt væri að tattúvera HIV-smitaða svo aðrir gætu varað sig á þeim.