Félag um fötlunarrannsóknir tilkynnir um 16. ráðstefnu Nordic Network on Disability Research (NNDR) sem verður haldin á Grand hotel Reykjavík 10.-12. maí næstkomandi. Auk aðalfyrirlestra verða um 500 kynningar á rannsóknum í málstofum um viðfangsefni sem tengjast ýmsum sviðum í lífi fatlaðs fólks, svo sem menntun, atvinnu, sjálfstæðri búsetu, réttindagæslu, fjölskyldulífi, sjálfræði, birtingarmyndir fötlunar í samfélaginu, o.fl.
ÖBÍ mun styrkja fulltrúa aðildarfélaga til þátttöku í ráðstefnunni. Mikilvægt er að áhugasamir sendi beiðni um þátttökustyrk á netfangið thorny@obi.is fyrir 6. apríl. Vinsamlega látið fylgja nafn, netfang og aðildarfélag.
Takmarkaður fjöldi styrkja er í boði.
Sjá nánar um ráðstefnuna hér fyrir neðan:
Alþjóðlegir sérfræðingar í fötlunarfræði halda þar fyrirlestra. Þar á meðal Theresia Degener, prófessor í fötlunarfræði við Bochum Center for Disability Studies í Þýskalandi, en hún hefur um árabil verið formaður eftirlitsnefndar við samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Aðrir aðalfyrirlesarar eru Lydia X. Z. Brown, aktívisti og adjúnkt í fötlunarfræði við Georgetown University í Bandaríkjunum og Rannveig Traustadóttir, prófessor emerita við Háskóla Íslands.
Nánari upplýsingar um aðalfyrirlesara má finna á nndr2023.is. Auk aðalfyrirlestra verða um 500 kynningar á rannsóknum í málstofum um viðfangsefni sem tengjast ýmsum sviðum í lífi fatlaðs fólks.
Þetta er í fyrsta sinn í sögu NNDR-ráðstefnunnar sem Félag um fötlunarrannsóknir leggur sérstaka áherslu á þátttöku fræðafólks og annarra aðila á sviði rannsókna um döff og heyrnarlaust fólk. Einn aðalfyrirlesaranna er Hilde Haualand en hún er fyrsti döff einstaklingurinn til að gegna stöðu prófessors í Noregi. Auk þess verður fjöldi erinda í málstofum sem fjalla um rannsóknir á þessu sviði.
Ráðstefnan verður stærsta fötlunarfræðiráðstefna á Norðurlöndum frá upphafi fræðigreinarinnar og mögulega sú stærsta í heiminum. Hún er vettvangur fræðslu og samskipta á milli fræðafólks, aðila úr hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, fagfólks, aðila í þjónustu og hjá yfirvöldum og fleira fólks. Þátttakendur koma frá Norðurlöndunum en einnig frá Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og víða að úr heiminum.
Eins og önnur ríki stendur Ísland frammi fyrir margþættum áskorunum í framkvæmd réttindasáttmála fatlaðs fólks. Nú þegar ráðstefnan er haldin á Íslandi býðst öllum þeim sem koma að málefnum fatlaðs fólks tækifæri til að kynna sér nýjustu rannsóknir, nálganir og aðferðir á sviði fötlunarfræði á Norðurlöndum og á alþjóðavísu.