HIV veiran og HPV eru vinkonur, segir Erna Milunka Kojic, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala. „Þessar veirur fara saman.“ Erna kom heim frá Bandaríkjunum fyrir rúmu ári en þar bjó hún í nærri þrjá áratugi. Hún hvetur til frekari skimana vegna aukinnar áhættu HIV jákvæðra á að fá krabbamein af völdum HPV veira. Hún segir hættulegt að horfa aðeins á HIV í áhættuhópum. Allir Íslendingar eigi að fá minnst eina prufu á lífsleiðinni. Erna var yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Mount-Sinai West/Morningside sjúkrahússins í New York. Hún stundaði vísindi og rannsakaði meðal annars áhrif HIV á konur.
„Það er afar mikilvægt að við hættum að tala um áhættuhópa þegar kemur að HIV,“ segir Erna Milunka Kojic smitsjúkdómalæknir. Hún telur að með því geti læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk misst af því að greina HIV tilfelli tilheyri einstaklingurinn ekki merktum áhættuhópi. „Það á enginn Íslendingur að deyja án þess að hafa fengið í það minnsta eitt HIV próf á lífsleiðinni,“ segir hún.
„Ef þú ert samkynhneigður karlmaður kemur HIV fljótar upp í kollinn á heilbrigðisstarfsfólki en vegna kvenna með einkenni því þær tikka ekki í boxin. Við þurfum að hætta að tala um áhættu fyrir HIV. Það er engin áhætta og hver sem er getur fengið veiruna hvenær sem er,“ segir hún og leggur áherslu á að það þurfi ekki marga rekkjunauta til.
Erna talaði á fundi HIV jákvæðra á Hverfisgötu í byrjun október. Fundurinn var vel sóttur; þá sérstaklega af fólki sem hefur haft HIV í tugi ára. Þar voru einnig komnar Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir og hjúkrunarfræðingarnir Anna Tómasdóttir, Bjartey Ingibergsdóttir og Helena Aagestad.
Farið var yfir nýjungar í lyfjum, áskoranir að eldast með HIV og samband HIV og HPV-veira. Hún benti þar á að skima þyrfti reglulega fyrir ristilkrabbameini.
Bólusetja gegn HPV
„Menn með HIV sem sofa hjá mönnum eru margfalt líklegri til að fá ristilkrabbamein,“ segir Erna og segir stöðuna eins hjá konum með HPV veirusýkingu. „Einn áhættuþáttur fyrir endaþarms-HPV sýkingu er ef konur hafa HPV í leghálsi. Þá ætti líka að taka stroku úr endaþarmi.“
Erna lagði á fundinum áherslu á að bólusetja gegn HPV-veirunni. Mælt væri með því að það væri gert að 45 ára aldri. Þá skipti ekki máli hvort einstaklingurinn hefði smitast af HPV veiru. Þær væru margar og bólusetning gripi þá einhverjar þeirra.
„Já, bóluefni hefur núna 9 týpur. Það er enginn með allar níu týpurnar svo einstaklingurinn fær alltaf einhverja vörn,“ segir hún við Rauða borðann. Erna gagnrýnir hversu mikil áhersla er í íslensku heilbrigðiskerfi á kostnað þegar kemur að þjónustu sem þessari.
„Forvarnir borga sig alltaf og það hefur sýnt sig. Ísland er ekki undanskilið þar. HPV eru krabbameinsvaldandi veirur og meðhöndlun á krabbameini kostar mjög mikið.“
Erna fór yfir það að þótt fólk með HIV sé ekki smitandi á meðferð leiki sjúkdómurinn enn sitt hlutverk í verri heilsu einstaklinganna. HIV hafi áhrif á beinþéttni, kólesteról og hjarta. Þá auki breytingaskeiðið álag á konur með HIV.
„Þess vegna opnaði ég fyrstu breytingaskeiðsklíníkina fyrir konur með HIV á Rhode Island við Brown háskólann árið 2005,“ segir hún en Erna fékk viðurkenningu fyrir framtakið.
„Þessi klíník virkað ekki því konunum var slétt sama. Þær sögðu: Breytingaskeið, komdu fagnandi,“ segir Erna glettilega og lýsir því að fyrirfram hafi verið áhugi fyrir klíníkinni. „En svo mættu þær ekki,“ segir hún. „Þær höfðu einfaldlega lifað skelfilegri tíma og þótti breytingaskeiðið ekkert til að kippa sér upp við; heldur fögnuðu því að vera á lífi.“
Þekkingin eykst stöðugt
Erna segir þekkinguna á HIV alltaf að aukast. „Við lærum meira og meira,“ segir hún og bendir á að nú séu tæp 30 ár síðan lyf sem leyfðu fólki að lifa buðust. „Þetta er ekki langur tími,“ segir hún.
„Ef við horfum á mannsævi erum við fyrst núna að eiga við fólk sem er orðið gamalt með veiruna. Það skiptir sköpum hvort þú ert sjötugur með nýgreinda veiru eða 70 og hefur lifað 40 ár með veiruna. Allt aðrar spurningar,“ bendir Erna á.
„Aðalfréttin í sumar var þessi stúdía sem sýndi fram á það að þrátt fyrir að halda veirunni í skefjum og vera vel meðhöndlaður er einstaklingurinn samt í meiri hættu á að fá bólgur sem valda hjartasjúkdómum. Þess vegna eigum við ekki eingöngu að einblína á að meðhöndla veiruna heldur einnig að setja fólk með aðra áhættuþætti á lyf sem hindra bólgu, kólesteróllyf.“
Þekkt séu HPV tengd krabbamein, hjarta- og æðasjúkdómsjúkdómum og beinþynningu hjá þeim sem hafi HIV. Tími sé til kominn að skoða stöðuna hjá hverjum og einum greindum með HIV hér á landi. Þetta er lítill hópur. Við erum með 360 manns með HIV,“ segir hún og að eftirfylgni með þeim sem séu að eldast með veiruna þurfi að vera ríkari en almennt.
Erna hefur nú verið yfirlæknir smitsjúkdóma á Landspítala í eitt ár og því vert að spyrja hvort það hafi verið menningarsjokk að koma heim eftir allan þennan tíma í Bandaríkjunum? „Reykjavík er allt önnur borg og Ísland allt annað land en fyrir 30 árum, árið 1996.“ Einsleitnin sé horfin og hingað sæki nú ferðamenn.
„Það er margt gott sem hefur gerst. Það eru ekki bara túristarnir heldur líka að Íslendingar eru út um allan heim. Það er meiri hreyfanleiki á öllu,“ segir Erna sem hvetur lækna til að vera vakandi á vaktinni þegar kemur að einstaklingum með HIV.
„Ef gripið er inn í nógu snemma má alltaf meðhöndla,“ segir hún og og hvetur HIV jákvæða áfram: „Ekki láta veiruna stjórna lífi þínu, stjórna þú veirunni.“
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir