Ég fór á frumsýninguna á Plágu þætti Hrafnhildar Gunnarsdóttur í seríunni Svona fólk í Bíó Paradís. Orkan þetta kvöld, opnunin, tengingin var svo kyngimögnuð. Ég var svo slegin yfir því hvað ég vissi lítið um þetta og skildi loksins bilið milli kynslóðanna innan raða hinsegin fólks. Vissi að ég vildi gera leikhús um þetta. Ég vildi frá upphafi gera blöndu af heimilda- og þátttökuleikhúsi. Vissi að ég vildi að áhorfandinn yrði virkur, að það yrði nánd með áhorfandanum.
Ég lagðist í gífurlega mikla rannsóknarvinnu í marga mánuði. Samt finnst mér eins og ég hafi aðeins dýpt tánni ofan í þessa sögu. En mér fannst ég skilja einhverja heildarmynd og eftir á sátu í mér vissir þræðir. Ég upplifði þessa tíma ekki sjálf. Þetta er ekki mín saga. Mig langaði að taka viðtöl við fólk sem upplifði þessa tíma frá mismunandi sjónarhornum. Hafa þetta margradda persónulegar frásagnir sem áhorfendur myndu upplifa á afar persónulegan hátt, heima hjá sér í einrúmi. Svo vildi ég skapa heilagleika með því að áhorfendur hittust eftir á svartklædd, búin að ganga í gegnum sömu upplifunina heima. Ég vissi svo að það þyrfti að enda verkið á sögum úr samtímanum. Tengja kynslóðirnar saman, skoða hvernig útskúfunin, skömmin og fordómarnir birtast í dag. Og á sama tíma fagna hinseginleikanum. Láta hann taka fyrir leikhúsið.
Verkið vakti gífurlega mikil viðbrögð. Allskonar viðbrögð, eins og við er að búast. Það hreyfði við ótal mörgum. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið allt þetta ótrúlega fólk í samstarf með mér. Við fengum sviðið, míkrafóninn. Hlustunina. Þakklát öllu fólkinu sem deildi með mér gömlum sárum og nýjum. Ég vil hvetja fólk til að fjalla meira um alnæmisfaraldurinn. Það er tími kominn til að við hlustum, lærum og finnum til með þessum sögum. Auðvitað þurfum við svo miklu, miklu fleiri sviðsverk um raunveruleika hinseginfólks. Allan okkar gamla sársauka, nýja sársauka, áhyggjur af mögulegum sársauka framtíðarinnar sem og ástir, gleði og hversdagsleika. Alla heildina flækindum sínum.
Eva Rún Snorradóttir.