Ég elska PrEP. Byrjaði að taka það daglega í júní 2018 og geri enn. Ég hafði heyrt útundan mér að lyfið væri að koma til Íslands, en ég var eins og margir aðrir með hausinn fullann af kjaftasögum og mítum um hvað PrEP raunverulega væri. Ég hélt að PrEP væri galdrapilla sem myndi drepa hiv vírusinn ef ég væri óþekkur einhversstaðar á hommaklúbbi í Berlín.
Ég komst í samband við Önnu Tómasdóttur á lyflækningadeild A3 og mælti mér mót við hana strax. Eftir öll möguleg próf til að kanna hvort ég væri ekki örugglega hiv neikvæður, sem og skriflegt próf til að kanna áhættuhegðun mína í kynlífi (og hvort PrEP ætti eitthvað erindi inn í líf mitt) þá einfaldlega byrjaði ég að taka lyfið strax í kjölfarið.
Mér skilst að ég sé fyrsti íslenski homminn sem byrja að nota PrEP í gegnum íslenska heilbrigðiskerfið. Ég hafði heyrt að öðrum strákum sem höfðu keypt sér PrEP á netinu, algerlega eftirlitslaust. Þú færð PrEP ókeypis á Íslandi, en snilldin er að þú mátt ekki taka lyfið eftirlitslaust. Ég fer í kynsjúkdómapróf og stöðutékk á ÖLLUM hugsanlegum kynsjúkdómum (ekki bara HIV, heldur líka sýfillis, gónóreu, klamedíu o.s.frv) á þriggja mánaða fresti, alltaf þegar ég næ í næsta skammt af PrEP.
Ég hef aldrei vitað jafn mikið og lifað í jafn mikilli fullvissu um kynheilbrigði mitt. Ég hef aldrei verið svo fullviss að ég sé ekki að smita bólfélaga mína af einu eða neinu. Hversu oft fór maður í kynsjúkdómatékk af eigin frumkvæði áður en maður byrjaði á PrEP? Fór maður kannski einu sinni á ári – eða loksins þegar einkenni voru að brjótast fram? Það er mun betra að ég fari í tékk á þriggja mánaða fresti, þótt ég sé einkennalaus eða hafi verið svakalega góður strákur síðustu þrjá mánuði. Mér er sama, ég fer bara í tékk. Ef ég skyldi komast í kontakt við sýfillis á þessum þrem mánuðum sem líða milli prófa, þá er mun auðveldara að meðhöndla það á fyrstu stigum sjúkdómsins en annars.
Ég sökkti mér í allt sem ég fann á netinu um PrEP (ég mæli með mjög góðu YouTube videói sem heitir „10 things you need to know about PrEP“). Svo beið ég spenntur eftir aukaverkunum sem áttu að koma fyrstu tvær vikurnar, höfuðverkinum og ógleðinni. Ekkert slíkt gerðist hjá mér. Aukaverkunin reyndist vera andlegs eðlis. Ég fann helvítis óttann bókstaflega leka úr líkama mínum, huga og hjarta. Óttinn, sem hafði svifið yfir hausmótunum á mér síðan ég fór að stunda kynlíf með karlmönnum árið 1987. Óttinn við HIV, óttinn við AIDS, óttinn við verða veikur og deyja. Ég hafði lifað með þessum ótta öll þessi ár og núna loksins er hann ástæðulaus.
Að ótti við HIV sé núna ástæðulaus er ekkert minna en bylting. Byltingin verður ekki bara líkamlegs eðlis, að kynheilbrigði okkar verði betra en nokkru sinni fyrr. Byltingin er líka félagslegs eðlis, því stóri ósýnilegi veggurinn milli „hreinu“ negatívu hommana og „óhreinu“ smituðu HIV hommana á eftir að molna í sundur og hverfa með árunum. Nú þegar eru sprungur komnar í þennan helvítis vegg. Eftir því sem við vitum meira um hvernig PrEP og HIV lyfin virka á þá sem nota þau, þeim mun meira brotnar veggurinn niður. Óttinn er ástæðulaus.
Síðan ég byrjaði að taka PrEP hef ég hreinlega slakað betur í kynlífi og orðinn mun opnari fyrir sjálfum mér sem kynveru. Ég hef ALDREI verið lokaður fyrir kynlífi fyrir það fyrsta, svo mér líður eins og skilningur minn á því sé einfaldlega að dýpka. Það er svo hrikalega fokking gott að geta verið sultuslakur og fullkomlega áhyggjulaus í kynlífi. Það vita þeir sem prófað hafa.
Ég vil taka Prep einfaldlega til að verja MIG. Ég er búinn að fleygja út gamla hugsunarhættinum um að HANN eigi að passa sig, HANN á að vita hvort hann sé með sjúkdóma, HANN á vera með smokka, HANN á að bera ábyrgðina. Fokk it. Nú sný ég þessu við og ég tek loksins ábyrgð á sjálfum mér og engum öðrum. Ég hef ekki spádómsgáfu, kynsjúkdómar gera ekki boð á undan sér og ég veit ekki klukkan hvað þeir gætu kíkt í heimsókn. Þess vegna kýs ég að taka Prep á hverjum degi og fer í tékk á þriggja mánaða fresti. Mæli með að allir sem elska kynlíf og stunda mikið af því með mörgum bólfélögum geri slíkt hið sama.
Birtist fyrst í Rauða borðanum 1. des. 2019