Sóttvarnalæknir lýsir yfir áhyggjum af fjölgun kynsjúkdóma meðal karla sem sofa hjá körlum
Eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur
Hátt í níutíu manns hafa greinst með HIV hér á landi á síðustu þremur árum. Jafnmargir fyrstu níu mánuði ársins og allt árið í fyrra, sem einnig var metár. Frá upphafi hafa tæplega 430 greinst með HIV hér á landi, þar af um fimmtungur á síðustu þremur árum.
„Fólk gætir sín ekki í kynlífi. Það er ekki að verja sig með því að nota smokka. Þetta er þróun sem sést hér sem í öðrum vestrænum löndum. Sama sagan alls staðar. Sennilega er þetta vegna þess að það hefur gengið mjög vel að meðhöndla HIV,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá Landlæknisembættinu. Hann lýsir yfir áhyggjum á fjölgun tilfella kynsjúkdóma meðal samkynhneigðra karlmanna, en þeir skipuðu yfir helming hópsins sem greindist með HIV í fyrra.
PrEP muni laga stöðuna
„Meðferð við HIV heldur sjúkdómnum niðri. Menn lifa eðlilegu lífi og hætta því að vera hræddir og passa sig, telja að þeir séu hólpnir þar sem þeir eru í góðri meðferð,“ segir hann.
Rétt eins og HIV smituðum fjölgar, fjölgar tilfellum lekanda og sárasóttar hér á landi. „Sömuleiðis er yfirgnæfandi meirihluti karlmenn sem stunda kynlíf með körlum sem hafa smitast. Ég er ekki með tölur um hvort þetta séu sömu einstaklingarnir með þessa þrjá sjúkdóma, en þessir karlar eru greinilegur áhættuhópur fyrir HIV, lekanda og sárasótt.“
Þórólfur telur að PrEP-verkefni stjórnvalda sé til bóta en í því fá áhættuhópar fyrir HIV forvarnarlyf greitt af ríkinu. „Það er hægt að slá margar flugur í einu höggi með þessu verkefni. Komið er í veg fyrir HIV smit með því að nota lyfið á réttan hátt. Rætt er við áhættuhópa um ábyrgt kynlíf og prófað hvort þeir greinist með aðra kynsjúkdóma. Ég bind vonir við að það leiði til fækkunar á kynsjúkdómum.“
Þórólfur segir ekki skoðað sérstaklega hvar menn smitist, hér eða ytra, eða hvort þeir hafi verið meðhöndlaðir í öðrum löndum þegar þeir eru nýskráðir með sjúkdóminn hér.
Allir með sama rétt á hjálp
Þegar tölur landlæknisembættisins eru skoðaðar vekur athygli að af þeim 28 sem greindust með HIV í fyrra voru 19 af erlendu bergi brotnir. Sex úr hópnum eru íslenskir karlmenn. Árið 2016 voru þrettán erlendir en fjórtán með íslenskan ríkisborgararétt. Þórólfur segir ekki skoðað sérstaklega hvar menn smitist, hér eða ytra, eða hvort þeir hafi verið meðhöndlaðir í öðrum löndum þegar þeir eru nýskráðir með sjúkdóminn hér.
„Við þyrftum mjög nákvæmar persónuupplýsingar og aukinn mannafla við skráningu til að ná í slíka tölfræði,“ segir hann. Spurður hvort hann telji menn koma gagngert hingað til lands til að fá meðferð við HIV veirunni svarar hann:
„Við erum ekki með neinar upplýsinar um það en þessi skrá er eins í öllum löndum. Við erum með ákveðið tilkynningakerfi til Evrópu. Það skrá þetta allir eins. Til dæmis ef Íslendingar sem búa hér og eru greindir hér, flytja til Danmerkur, þá eru þeir skráðir sem ný tilfelli þar,“ lýsir hann. „Við myndum ekki breyta nálgun okkar, fræðslu eða meðhöndlun væru upplýsingarnar greindar öðruvísi. Grunngildi heilbrigðisþjónustunnar ná til allra óháð því hvar og hvernig menn smitast.“
Nýsmit það sem af er ári
15. nóvember höfðu 35 einstaklingar komið nýir inn í þjónustu með HIV á göngudeild smitsjúkdóma, 15 nýgreindir og 20 með þekkt smit og á meðferð. Ef við skiptum niður eftir smitleið þá er niðurstaðan þessi:
Gagnkynhneigðir: 8 nýgreindir, 6 þekkt smit
MSM (Menn sem stunda kynlíf með mönnum): 4 nýgreindir, 11 þekkt smit
IDU (Sprautufíklar): 2 nýgreindir
Annað/óþekkt: 1 nýgreindur, 3 þekkt
Sjálfsprófanir fyrir HIV
Sóttvarnalæknir segir fyrsta skrefið í að einfalda greiningu á HIV séu skimunarpróf undir handleiðslu heilbrigðisstarfsmanna. „Þessi próf eru ekki 100% og því mikilvægt að prófanir séu réttar auk þess sem starfsmaðurinn getur gripið inn í ef einhver greinist jákvæður.“ Spurður hvort hann sjái fyrir sér að þau verði seld í apótekum svarar hann játandi.
„En það er eitthvað í það. Í gildi er ströng reglugerð um hraðgreiningarpróf. Fá þarf ákveðið leyfi fyrir svona prófum,“ segir hann. „Það þarf að taka þetta í skrefum að því langtímamarkmiði að menn prófi sig sjálfir,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hjá Landlæknisembættinu.
—
Mynd/gag Myndatexti: Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bindur vonir við forvarnarlyf gegn HIV og segir það fjölga í hópi þeirra sem sæki lyfið sem er greitt af ríkinu.
Birtist fyrst í Rauða Borðanum 1. des. 2018