Föstudagur í nóvember. Það er rólegt fyrir á göngudeild smitsjúkdóma á Landspítala þegar Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Íslands, sest niður með Önnu Tómasdóttur og Bjarteyju Ingibergsdóttur hjúkrunarfræðingum á deildinni. Þau ræða stöðuna, þjónustuna, apabólu og bráðasálfræðiþjónustu sem skorti sárlega að hafa aðgang að þegar einstaklingar greinast með HIV.
Tuttugu falla í hóp nýgreindra HIV-jákvæðra á Landspítala það sem af er ári. Fjórtán koma einnig nýir að en með fyrri HIV greiningu. Þessir 34 einstaklingar bætast í hóp þeirra sem sækja reglulega þjónustu á göngudeild smitsjúkdóma á Landspítala Fossvogi. Alls gera það 332 HIV jákvæðra eða 99,3% allra greindra. „Árangurinn er frábær,“ segir Bjartey Ingibergsdóttir sem hefur starfað við deildina í þrjú ár.
Flestar nýgreiningar á þessu ári eru hjá karlmönnum sem sofa hjá öðrum karlmönnum, sex nýgreiningar eru meðal gagnkynhneigðra og uppruni fimm smita er óþekktur. Tólf af þeim tuttugu sem greindust HIV jákvæðir á árinu greindust við heilbrigðisskoðun við komu til landsins. Meðal einstaklinga með fyrri HIV greiningu er aðeins einn talinn hafa smitast með menguðum sprautubúnaði.
Alls er 53% þeirra sem eru í eftirliti deildarinnar fædd erlendis, en hópurinn samanstendur af einstaklingum af 51 þjóðernum. „Þetta er svakalega fjölbreyttur hópur.“Anna segir að síðustu ár hafi fólki í þjónustu fjölgað meira en þær voru vanar.
„Við gátum veitt persónulega þjónustu hér áður og höfðum nægan tíma. Áður voru þetta 10-15 einstaklingar á ári en núna 30-35 nýir þótt ekki séu allir nýgreindir. Fólk er með mismunandi bakgrunn, frá mismunandi landsvæðum, iðkar ólík trúarbrögð og er af mismunandi kynhneigð. Það hefur einnig orðið aukning á öðrum verkefnum göngudeildar þannig að það hefur verið áskorun að mæta þörfum allra eins og við viljum gjarnan gera.“
Vilja meiri tíma með hverjum
Þær myndu vilja meiri tíma með hverjum. Anna hefur lagt áherslu á að formfesta stuðning við nýgreinda. „Við þurfum ramma til að missa ekki af neinum,“ segir Anna og talar af reynslu enda með 10 ára starfsferil á deildinni sem sinnir einnig berklum, sýklalyfjagjöfum í heimahúsi, lifrarbólgu C, fyrsta viðtali vegna fyrirbyggjandi HIV lyfjameðferðar eða PrEP, bólusetningum og lágþröskuldamóttöku fyrir einstaklinga sem nota vímuefni í æð.
„Við viljum veita ákveðna grunnþjónustu við HIV jákvæða sem hefur verið ábótavant. Við höfum reynt að innleiða ákveðið verklag, til að mynda að teknar séu blóðprufur á 6-12 mánaða fresti, skimað fyrir þunglyndi og farið yfir þætti tengdum kynheilbrigði. En innleiðing á verklagi hefur því miður mætt afgangi, aðallega vegna þess að öðrum verkefnum göngudeildar hefur fjölgað og COVID haft sín áhrif, en einnig vegna þess að ekki hefur alltaf náðst samstaða um verklagið. Hver og einn er með ábyrgan lækni og þeir vinna ólíkt,“ segir Anna. Á sama tíma vilji þær eins og ávallt mæta einstaklingum þar sem þeir séu staddir hverju sinni.
„Hér skiptir öllu að fara ekki í manngreinarálit,“ segir Anna og Bjartey tekur undir: „Hér reynum við að vinna gegn fordómum. Hér tölum við fallega og mætum fólki af skilningi. Það hefur einkennt þjónustuna, meira en víða annars staðar í heilbrigðiskerfinu,“ segir hún. Nýr veruleiki blasir við göngudeildinni. „Með aukinni móttöku flóttafólks síðastliðið ár hefur sviðsmyndin breyst töluvert frá því sem áður var. Bæði hvað varðar uppýsingaöflun og þjónustu við nýgreinda. Aldrei hafa fleiri verið skráðir með óþekktan uppruna HIV-smits.“- Ástæðuna segja þær líklega ótta við að upplýsingarnar hafi áhrif á stöðu umsóknar þeirra um vernd eða dvalarleyfi.
„Nú hjálpum við einstaklingum sem sækja um alþjóðlega vernd í nýju framandi landi. Þeir hitta meðferðaraðila i fyrsta skipti og þurfa að gera upp við sig hvort þeim sé treystandi fyrir ástæðum smitsins,“ segir Bjartey. Það sé skiljanlegt í þeirri viðkvæmu stöðu sem fólk sé í. „Það er kannski ekki alveg tilbúið að treysta eftir allar hörmungarnar sem það hefur lent í.“
Bráðasálfræðiþjónustu skortir
„Nærri 90 sálfræðingar starfa innan Landspítalans en þó er mjög erfitt að fá bráðasálfræðiþjónustu,“ segir Bjartey Ingibergsdóttir á göngudeild smitsjúkdóma. Það sé þó afar mikilvægt og benda þær Anna Tómasdóttir á að það geti hreinlega verið lífsspursmál.
„Við höfum lent í því að ná ekki að koma nýgreindum einstaklingi sem við töldum þurfa hjálp og óskaði eftir hjálp að á bráðageðssviðinu. Það mál endaði því miður mjög illa,“ segir Anna og að einstaklingurinn hafi tekið eigið líf. „Greitt aðgengi að bráðaþjónustu verður að vera til staðar.“
Anna segir umhugsunarvert hversu mikil félagsleg stimplun, eða stigma, geti fylgt því aðgreinast HIV-jákvæður nú til dags og á sama tíma og auðvelt sé að meðhöndla sjúkdóminn. „Fólk greinist, fer fljótt á lyf,hefur sambærilegar lífslíkur og aðrir og er ekki smitandi. Þrátt fyrir þessa miklu framfarir í meðhöndlun sjúkdómsins má enn greina sambærilegar sálfélagslegar áskoranir, rétt eins og árið væri 1988 í kjölfar HIV greiningar.“
Anna segir stimplunina sem HIV jákvæðir upplifi megi skipta í tvo flokka, ytra HIV tengt stigma sem geti haft samfélagslega og kerfisbundna birtingamynd.
„Svo erum við með einstaklinginn sjálfan sem burðast með allt sitt innra HIV tengda stigma. Sjálfsásökun, skömm, félagslega einangrun o.s.frv. Við reynum að vinna gegn HIV tengdu stigma, skoðum áhrifaþætti þess, birtingamyndir og bjargráð í okkar stuðningsviðtölum með nýgreindum“ segir hún.
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir.