Alþjóðlega alnæmisdeginum 1. desember er fagnað um allan heim ár hvert.
Yfirskrift alþjóðlega dagsins í ár er „Communities make the difference“ sem felur í sér áminningu um hvernig baklandið í samfélaginu skiptir sköpum um hvernig baráttan gegn HIV tekst til.
38 einstaklingar voru skráðir með HIV árið 2018 og eru í þjónustu á göngudeild smitsjúkdóma LSH í Fossvogi. Íslendingar eiga því miður háar tölur HIV og annarra kynsjúkdóma. Sprenging hefur orðið meðal HIV skráðra síðustu þrjú árin og að stórum hluta eru tilfellin eldri smit einstaklinga sem hafa flutt til landsins. Fjöldi HIV smitaðra einstaklinga á Íslandi frá upphafi eru um 500. Margir telja að það skekki myndina að þeir sem koma erlendis frá og eru með svo nefnd eldri smit flokkist sem nýgreindir á Íslandi en um helmingur allra í ár eru með „þekkt eldra smit“. Eða um 11 einstaklingar af 21 skráðu tilfelli það sem af er ári.
Gott aðgengi að prófum er lykillinn að viðurkenningu á því að sjúkdómarnir eru til staðar og eru jafnframt verkfæri til að stemma stigu við HIV. Það er nauðsynlegt að geta komist í hraðgreiningarpróf á óháðum stað í borginni og megi það verða sem fyrst. Hraðgreiningarprófin gera skimanir auðveldari í öllu samfélaginu, ekki bara meðal lykilhópa. Greiningarstöðvar sem þessar gera fólk ábyrgara og því líður eins og það hafi val. Þessi kostur virkar hvetjandi á fólk til að mæta reglubundið í skoðun og er gríðarlegur sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið.
Það voru vatnaskil í forvörnum gegn HIV á síðasta ári þegar yfirvöld hófu að greiða að fullu fyrir samheitalyf Truvada til að fyrirbyggja ný HIV-smit meðal karla sem stunda kynlíf sín á milli. Hátt í 200 hafa farið í gegnum áhættumat á Landspítala og fengið forvarnarlyf gegn HIV í hendur.
Störf HIV samtakanna eru sérstök, viðkvæm og frábrugðin öðrum félögum að því leyti að stór hópur félagsmanna vill ekki láta aðra í samfélaginu vita af sér. Þessi hópur kemur ekki fram nema undir algjörum trúnaði og ekki á opinberum viðburðum sem félagið stendur fyrir. Umræðuhópar meðal grasrótarinnar eru starfandi og félagar og almenningur getur gengið að ráðgjöf og upplýsingum um allt það sem málefnið HIV stendur fyrir.
Við skulum ekki gleyma hvers vegna HIV jákvæðir um veröld alla hafa búið við ótta, mismunun, fordóma og útskúfun í gegnum árin. Gæti það verið vegna þess hve dugleg við vorum og erum að skilgreina og flokka HIV jákvæða í áhættuhópa og eftir áhættuhegðun, hommana, sprautufíklana, innflytjendurna og vændisfólkið. Það er tími til kominn að afglæpavæða HIV sjúkdóminn um víða veröld og skila skömm HIV smitaðra.
Við sem höfum lifað af sjúkdóminn höfum svo margt að þakka fyrir og ekki síst við Íslendingar fyrir að hafa notið heilbrigðisþjónustu af bestu gerð. Hér er hugað að mannréttindum. Þessir þættir hafa líklega átt sinn þátt í því að lífsskilyrði HIV jákvæðra er með besta móti hér á landi og eftirsótt að flytja hingað. Áfallasaga, fíknivandi og félagslegir erfiðleikar er miklar hindranir í tilveru margra og styttir líf þeirra.
Þrátt fyrir erfiðleika við að ná endum saman í rekstri HIV Ísland, en félagið byggir afkomu sína á styrkjum, hefur fræðslu- og forvarnarstarf átt sér stað í grunnskólum landsins líkt og fyrri ár. Einnig hjá meðferðarstofnunum, góðgerðarsamtökum, Samtökunum 78, fangelsi og læknadeild svo eitthvað sé nefnt. Dreift er smokkum í miklum mæli til einstaklinga og hópa um allt land sem þess þurfa.
Á alþjóðlega alnæmisdeginum horfum við fram á veginn. Við erum þakklát fyrir allan stuðninginn og minnumst fallinna félaga með virðingu. Við gleðjumst yfir því að veruleiki og framtíðarhorfur HIVjákvæðra eru allt aðrar og betri í dag en á árum alnæmis.
Hugrekki, samstaða og virðing er svo augljós og tímans tákn þegar félagsmenn og stuðningsfólk HIV Ísland ganga stolt í litadýrð, gleði og sýnileika á Hinsegin dögum síðustu árin.
HIV-jákvæðir á lyfjum smita ekki!
Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland.
Birtist fyrst í Rauða borðanum 1. des. 2019