Minning:
Hólmfríður Gísladóttir
Fædd 3. nóvember 1938. Dáin. 7. mars 2023
Hólmfríður, starfsmaður Rauða krossins til fjölda fjölda ára, stóð ásamt fleirum að stofnun Alnæmissamtakanna. Hún sat í stjórn þeirra þegar staðan var skelfileg. Það var mjög gott að eiga hana að. Hún var kraft- og kjarkmikil, einstaklega kærleiksrík kona. Hún brosti, var hláturmild og glaðvær. Við þurftum á henni að halda.
Við Hólmfríður fórum saman á alheimsráðstefnu árið 1992 í Amsterdam. Þá voru settar ferðahömlur á HIV jákvæða og við mótmæltum því saman. Okkur í félaginu þótti vænt um hana og varð hún fyrsti heiðursfélagi HIV samtakanna. Nú þegar hún er farin yfir móðuna miklu hugsa ég til þess að ég hafði ekki hitt hana síðustu árin en mér skilst að hún hafi verið hvíldinni fegin.
Hólmfríður er farin. Fólkið sem stóð í eldlínunni líka. Auður Matthíasdóttir, fyrsti formaður, Guðni Baldursson, fyrsti formaður samtakanna ‘78 og stjórnarmaður hjá okkur. Systurnar Hulda Waddell og Guðrún Ögmundsdóttir. Séra Jón Bjarmann. Stella Hauksdóttir. Áslaug Blöndal. Mörg þeirra fóru fyrir aldur fram rétt eins og svo mörg okkar sem dóu alltof ung úr alnæmi. Öll sem voru í kjarnanum og hjálpuðu okkur með HIV eru dáin.
Ég minnist þeirra allra með þakklæti og hennar fyrir sitt óeigingjarna starf. Hún lagði allt í það og mörg okkar hugsa nú með hlýju til hennar. Hólmfríður var stolt af afkomendum sínum og ég votta þeim fyrir hönd HIV samtakanna samúð með djúpu þakklæti og virðingu fyrir störfum móður og ömmu.
Einar Þór Jónsson