Fæddur 13. september 1947 í Stokkhólmi – Dáinn 14. apríl 2018 í Reykjavík
Félags- og stjórnarmaður í HIV Ísland til fjölda ára
Ég vil í fáeinum orðum minnast góðs vinar.
Kynni mín af Percy hófust á erfiðum tímum í lífi okkar beggja. Alnæmisfaraldurinn var yfirvofandi í litlu samfélagi okkar hommanna hér uppi á Íslandi. Við sem greinst höfðum HIV jákvæðir fórum fljótlega að leita skjóls hvor hjá öðrum. Jákvæði hópurinn var stofnaður en þar gat fólk komið saman til að átta sig á hvað þetta þýddi, hvert leiðin lægi, hvað var til ráða í stöðunni og ekki síst til að vera til staðar fyrir hvert annað.
Percy hafði ætíð látið sig samfélagsleg mál varða. Hann nýtti krafta sína bæði í baráttumálefnum samkynhneigðra og HIV jákvæðra. Hann var ósérhlífinn og ráðagóður og var ávallt til staðar fyrir þau okkar sem leituðu ráða hans misbrotin og buguð.
Hann var einn af stofnendum VG, hann hélt úti stjórmálaumræðu á bloggsvæði sínu á mbl.is undir nafninu Percival en þar má enn rýna í öll hans hjartans hugðarefni. Hann vann ýmiss störf um ævina en ég vil meina að hann hafi notið sín einna best í ráðgjafastörfum sem hann sinnti síðustu misserin. Hann hafði gott lag á því að vinna með fólki á persónulegan hátt og var skjótur að ávinna sér traust þeirra.
Hann hafði gott innsæi, var athugull og beitti virkri hlustun í samskiptum við samferðafólk sitt og var fljótur að koma auga á kjarna málsins. Á sama tíma eftir því sem á leið á vináttu okkar þá varð ég þess var að hann var spar á eigin líðan og hélt hugarangri sínu til hlés.
Hann kunni að gefa af sér en átti erfitt með að þiggja.
Meðan ég skrifa þessar hugleiðingar velti ég því fyrir mér hversu vel ég í raun þekkti Percy þrátt fyrir áratuga vináttu?
Hann var margræður og margbrotinn persónuleiki. Kannski var það einmitt það sem var svo áhugavert við hann? Hversu mikið þekkjum við í raun hvert annað? Nú eða sjálf okkur yfirleitt?
Það er þó óumdeilt að hann hafði hlýja og stóíska nærveru sem fólk leitaði í.
En að þessum hugrenningum slepptum þá áttum við Percy oft góðar og skemmtilegar stundir saman. Utanlandsferðir, mótmæli á Austurvelli, kaffihúsahittingar, innihaldsríkar samræður um lífið og tilveruna og háskaferð að vetri til með Herjólfi til Vestmannaeyja svo fátt eitt sé nefnt.
Það kom þó fyrir að fley okkar steyttu á skeri eins og gengur og gerist í vináttusamböndum í langvarandi nánd.
Báðir vorum við vængbrotnir á stundum, þá er lífið og tilveran tók okkur föstum tökum og skók.
Báðir vorum við vængbrotnir á stundum, þá er lífið og tilveran tók okkur föstum tökum og skók.
Andleg heilsa okkar var á köflum eins og rispuð plata sem hjakkar í sama farinu þrátt fyrir áratuga sjálfsvinnu hvors okkar.
Sáttin og samkenndin var þó aldrei langt undan og við söngluðum í kór „Við stefnum að framförum en ekki fullkomnun“ og enn lifir í glæðunum. Ljóstýra sem kviknar þegar góð vináttubönd verða til slokknar aldrei.
Gagnkvæm væntumþykja var uppgjöfinni ávallt yfirsterkari.
Ég er afar þakklátur fyrir þann tíma sem við fengum að vera samferða.
Hvíl í friði elsku vinur
Donni