Mynd: Bianca Del Rio, Sherry Vine, Steven og Donni 2019
Minning:
Steven Þór Grygelko / Heklina
Fæddur 17. júní 1967. Dáinn 3. apríl 2023
Steven var sonur Bandaríkjamannsins Stanleys og Kristínar Grygelko sem er íslensk. Hann lést óvænt í London 3. apríl síðastliðinn eftir að hafa dvalið á Íslandi um stundarsakir. Andlát hans var vinum hans mikið áfall. Hann varð aðeins 55 ára.
Ég kynntist honum þegar hann 17 ára gamall kom til Íslands til að tengja aftur íslensku rætur sínar.
Hann var fallegur ungur maður, lífsglaður og mikill gleðigjafi. Hann small beint inn í gleðskap borgarinnar og við hommarnir tókum honum opnum örmum.
Hann fékkst við ýmislegt þau ár sem hann dvaldi hér. Hann var um tíma módel í Myndlista- og handíðaskólanum, hann vann sem þjónn á kínversku veitingahúsi á Laugaveginum, hann söng um tíma með okkur hommunum í karlakórnum Vormönnum Íslands.
Hann flutti aftur til BNA og kom sér fyrir í San Fransiskó. Þar skapaði hann dragdrottninguna Heklínu en nafnið var tenging hans við hið magnþrungna eldfjall Heklu og ættlandið. 1996 fékk hann aðstöðu á hinum fræga hommabar The Stud á þriðjudögum til að skapa dragsenu sem átti eftir að slá rækilega í gegn. Hann fékk til sín hóp af fólki og til varð Trannyshack. Hróður Trannyshack átti eftir að berast langt út fyrir SF svæðið, langt út fyrir hinsegin samfélagið og raunar á landsvísu, þannig að dragdrottningar, kóngar og ýmist frægðarfólk slóst um að komast inn og að kjötkötlunum, troða upp, láta sjá sig og sjá aðra.
Meðal frægðarfólks sem mættu í klúbbinn voru voru Lady Gaga og John Waters.
Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að verða vitni að þessu æði sem var í uppsiglingu þegar ég dvaldi hjá honum um mánaðarskeið 1997. Þarna var ég og Steven, ásamt mörgum öðrum, að fagna lífinu þar sem vonarglæta hafði vaknað um framhaldslíf með nýju HIV lyfjunum sem nýlega voru komin til bjargar okkur „syndugu“ hommunum.
Steven lét mikið til sín taka í hinsegin samfélaginu. Hann tróð upp á ótal góðgerðarsamkomum og var áberandi í gleðigöngum Ameríku. Hann skapaði ótal tækifæri fyrir ungar og upprennandi dragdrottningar og annað draglistafólk.
Allt var leyfilegt. Pank og anarkí var mottóið. Sýningarnar voru eitthvað mikið meira en bara strákar í kjólum mæmandi poppballöður. Hinar vikulegu sýningar voru í raun einstaklega hinsegin gjörningar sem snertu á málefnum stjórnmála-, félags-, kynþátta- og kynjadeilum samtímans.
Með því henti Heklina út reglubókinni um hvað það þýddi að vera dragflytjandi. Heklina bauð ekki bara dragdrottningum á sviðið, hún bauð einnig kvenkyns flytjendum og dragkóngum að deila með sér sviðinu.
Síðan snemma á tíunda áratugnum, hafði Heklina verið máttarstólpi í hinsegin næturlífi Bay Area.”
(Tilvitnun í Bay Area Reporter, San Francisco, frá árinu 2008.)
Steven kom margsinnis til Íslands á síðari árum. Fyrst til að hvíla sig á sviðsljósinu og stórborgarlífinu en seinna kom hann einnig til að troða upp á Hinsegin dögum og rækta vinatengslin.
Það er mikið áfall að missa góðan vin. Ég vil minnast hans sem gleðigjafa, kláran, fallegan og litríkan vin, hans óendanlega svarta húmors og endalaus hlátrasköll, gefandi samvera og gleði.
Síðustu orðaskipti okkar í síma voru, “How could you! You bitch! What about me? eftir að ég sagði að ég væri að flytja úr Vesturbænum, þar sem hann gisti reglulega, í Árbæinn. Svo hlógum við okkar vanalega tröllahlátri yfir þessu.
Nú mun hann hvorki dvelja í Vesturbænum né Árbæ. Í stað þess mun hann dvelja í hjörtum okkar sem elskuðum hann.
Blessuð sé minning þín elsku Steven / Heklina.
Donni