Ferðalög eru mikil lífsgæði og þótt verulega hafi dregið úr ferðatakmörkunum HIV smitaðra á undanförnum árum eru enn lönd þar sem takmarkanir ríkja. Þá er að ýmsu að hyggja þegar ferðast er með lyf. HIV Ísland hefur tekið saman nokkrar handhægar upplýsingar um hvernig ganga má úr skugga um að sem minnstir erfileikar fylgi þeirri jákvæðu upplifun að ferðast.
Allt til ársins 2010 viðhöfðu Bandaríkin ferðahömlur gagnvart HIV jákvæðum. Ferðabannið hafði þá verið við lýði allt frá árinu 1987. Bannið var í raun táknmynd þeirrar smánar sem HIV jákvæðum er oft sýnd. Við afnám bannsins sagði Tom Coates, heilbrigðisérfræðingur hjá Kaliforníuháskóla, UCLA, að bannið hefði raunar aðeins haft þann tilgang að viðhalda fordómum og ætti lítið skylt við varnir gegn smiti.
Heimilt er að ferðast með lyf í millilandaflugi. Það á við um HIV lyf sem og önnur. Rétt er þó að gera ráðstafanir til að lágmarka vandræði. Heimilt er að taka lyf í vökvaformi merkt notanda í handfarangur sem dugir meðan á flugferð stendur. Öryggisverðir geta þó óskað eftir sönnun á innihaldi lyfja. Lyf í töfluformi má taka með í handfarangur svo lengi sem öryggisverðir telja enga ógn stafa af þeim. HIV jákvæðir þurfa almennt að hafa í huga að komið geta upp tilvik þar sem að þrátt fyrir að löggjöf setji engar hömlur getur þekking á reglum verið af skornum skammti. Það sakar því ekki að hafa sitt á hreinu og gott ef tími gefst til að kynna sér löggjöf viðkomustaðar. Ferðalangar geta þannig styrkt stöðu sína gagnvart starfsfólki sem þekkir tilteknar reglur ekki nægilega vel og ákveður þess í stað að framfylgja eigin hugboði.
Vert er að taka fram að ferðatakmarkanir og bönn gagnvart HIV jákvæðum eru á undanhaldi. Þó eru enn nokkur lönd sem viðhalda banni gagnvart ferðamönnum Þau eru Brúnei, Miðbaugs-Guinea, Íran, Írak, Jórdanía, Papúa Nýja Guinea, Katar, Rússland, Singapore, Sólómon-eyjar, Súdan, Hin Sameinuðu Arabísku furstadæmi og Jemen. Ekki er reglulega flogið beint til þessara landa frá Keflavík, utan St. Pétursborgar í Rússlandi, og því almennt um fátíða ferðastaði fyrir íslendinga að ræða.
Almennt hefur dregið verulega úr takmörkunum fyrir ferðalanga. Hins vegar eru enn um 30 ríki sem banna HIV jákvæðum lengri dvöl, atvinnuleyfi og búsetu. Þau eru Bahrain, Bangladesh, Brúnei, Egyptaland, Miðbaugs-Guinea, Ungverjaland, Irak, Jórdanía, Kazakstan, Norður-Kórea, Suður-Kórea, Kúveit, Líbanon, Malasía, Mongólía, Oman, Panama, Katar, Sádi-Arabía, Singapore, Sólómon-eyjar, Srilanka, Sýrland, Taivan, Túrkmenistan, Hin Sameinuðu Arabísku furstadæmi, Úsbekistan og Jemen.
Ungverjaland er hluti af Evrópska efnahagssvæðinu og verður því að hlíða fjórfrelsinu. HIV jákvæðir íslenskir ríkisborgarar eiga því tilkall til að búa þar, starfa og lifa. Óheimilt er að takmarka réttindi ESB/EES borgara með verulegum hætti umfram ríkisborgara Ungverjalands. Ungverjaland er meðlimur í Schengen og því þurfa íslenskir ríkisborgarar ekki að fara í gegnum viðamiklar athuganir þegar til landsins er komið. Þeir sem þar hyggjast búa verða þó að skrá sig inn í landið og tilkynna veikindi. Þeirri tilkynningu á samkvæmt lagabókstaf að fylgja ýmis réttindi. Ungverjaland er þó meðal þeirra landa sem vísa HIV smituðu fólki utan ESB/EES úr landi og skyldar fólk í HIV próf. Það er vert að hafa í huga að lög og reglur eru oft á tíðum mælikvarði á samfélagssýn og fordóma þótt slíkt sé ekki algilt.
Á vefsíðunni HIV travel ( hivtravel.org ) má finna ítarlegan gagnagrunn yfir lög og reglur flestra landa. Upplýsingar vantar frá örfáum löndum en gagnagrunnurinn er uppfærður reglulega og nýtur aðstoðar þýskrar utanríkisþjónustu við að tryggja að gögn og upplýsingar séu með bestamóti. Á vefsvæðinu má einnig finna ráðleggingar varðandi ferðalög og hvernig forðast má vandræði og tryggja sem öruggasta ferð. HIV travel ítreka að fordómar og skoðanir samfélaga á sjúkdóminum séu mismunandi og því sé mikilvægt að hafa varan á þótt þú komir frá samfélagi þar sem öruggt er að ræða sjúkdóminn. Áhersla er lögð á að ferðast með lyf í handfarangri til að tryggja aðgengi að lyfjum þótt farangur týnist. Erfitt getur verið í nýju landi að hafa upp á lyfjum ef lyfin misfarast og því hætt við að HIV smitaður einstaklingur fái ekki þá meðferð sem nauðsynleg er.
Sjúkrasaga þín og annarra er þeirra einkamál. HIV travel bendir á að það er réttur hvers og eins að takmarka upplýsingar um heilsu sína í samræmi við eigin væntingar til einkalífs. HIV smitaðir þurfa því ekki að tilkynna öðrum ferðalöngum né starfsfólki flugfélaga og flugvalla um stöðu sína.
Spurningar varðandi lyf og flugferðir
Get ég haft með mér lyf í vökvaformi?
Farþega er leyfilegt að hafa með sér lyf merkt notanda í magni sem dugir meðan á flugferð stendur. Farþegi gæti þurft að færa sönnur á innihald óski öryggisverðir eftir því.
Hvað með lyf í töfluformi?
Farþega er eftir sem áður heimilt að hafa með sér lyf í töfluformi svo lengi sem öryggisverðir telja enga ógn stafa af þeim.
Heilsufarsvottorð
Ágætt getur verið að óska eftir heilsufarsvottorði frá smitsjúkdómalækni áður en farið er í ferðalag.
Geymsla lyfja
Í flestum tilvikum er ekki þörf á sérstakri aðgát varðandi geymslu lyfa. Á því eru einhverjar undantekningar og því ávalt góð regla að lesa upplýsingamiða á lyfjaboxinu áður en lyfjum er pakkað í handfarangur.
Evrópska sjúkratryggingakortið (ES kortið)
Evrópska sjúkratryggingakortið (ES kortið) er notað ef korthafi veikist eða slasast í öðru EES landi og Sviss. Það staðfestir rétt til heilbrigðisþjónustu sem verður nauðsynleg meðan á tímabundinni dvöl stendur í EES landi og Sviss. Ríkisborgarar Íslands og annarra EES landa sem eru búsettir og sjúkratryggðir hér á landi eiga rétt á að fá evrópskt sjúkratryggingakort. Evrópska sjúkratryggingakortið gildir eingöngu hjá þjónustuaðilum innan hins opinbera sjúkratryggingakerfis. Evrópska sjúkratryggingakortið gildir að öllu jöfnu í þrjú ár en fimm ár hjá lífeyrisþegum og endurnýja þarf kortið að þeim tíma liðnum. Ef kort týnist er hægt að sækja um bráðabirgðakort í Réttindagátt á mínum síðum. Nokkra daga tekur að fá kortið og sækja um það á vef Sjúkratrygginga, https://rg.sjukra.is/eskort_is
Birtist í Rauða Borðanum 1. des. 2017