Í september birtust drög að breytingu á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV. Stærsta breytingin sem drögin innibera er sú að blóðgjöfum sé ekki mismunað á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, s.s. kyns, kynhneigðar, uppruna eða stöðu að öðru leyti. Með öðrum orðum, að hið forneskjulega bann sem í gildi er, þ.e. að karlmenn sem hafa stundað mök með öðrum karlmanni, verði aflétt og að frekar verði litið til annarra þátta, svo sem áhættusamt kynlíf en ekki einungis kynlíf ákveðinna hópa. Breytingin er gríðarlega mikil réttarbót og í raun sáraeinföld, en þarna hefur ráðherra tekið stórt skref til að afnema þá brennimerkingu sem hommar, og aðrir karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum körlum, hafa að allt þeirra kynlíf sé á einhvern hátt skítugt og þar með talið blóð þeirra.
Þessi reglugerðarbreyting tók langan tíma í vinnslu og hafa fulltrúar Samtakanna ’78 átt reglulega fundi á síðustu árum með heilbrigðisráðherra, starfsfólki ráðuneytisins, sóttvarnarlækni, yfirlækni Blóðbankans og eins ráðgjafanefnd um fagleg málefni í blóðbankaþjónustu. Hafa margir þessara funda verið afar góðir og sjónarmiðum Samtakanna ’78 almennt verið tekið vel.
Það má þó sjá á umsögnum við reglugerðarbreytinguna að skiptar skoðanir er á henni. Yfirlæknir Blóðbankans fer í gamalkunnar skotgrafir og óskar eftir „áhættugreiningu“. Þessi krafa um áhættugreiningu hefur áður komið upp í samtali við yfirlækni Blóðbankans, gengið var svo langt á vissum tímapunkti að skoða átti og kanna hve margir karlmenn á Íslandi stunda mök með öðrum karlmönnum, eða hafa stundað mök með öðrum karlmönnum. Það er ótrúlegt að ætla að kanna með mikilli vissu kynlíf einstaklinga, þar sem við vitum vel að sumir karlmenn skilgreina sig ekki endilega sem homma eða tvíkynhneigða þó þeir hafi sofið hjá öðrum karlmanni, eða karlmönnum, eða gera svo reglulega. Hvar á að flokka þá einstaklinga?
Blóðbankinn segir sjálfur að blóðgjöf snýst um traust, en ætlar þó greinilega ekki að treysta öllum.
Eins og segir í umsögn Samtakanna ’78: „Með nýjustu þekkingu og þeirri framþróun sem átt hefur sér stað, t.d. í Bretlandi, Ísrael og Hollandi, væntum við að hægt verði að vinna að breytingum á verklagi Blóðbankans hratt og örugglega. Blóðbankinn getur þannig nýtt reynslu annarra þjóða sem hafa aflétt sambærilegu banni við undirbúning þessara breytinga.“ Þetta ætti því ekki að vera eins flókið mál og andstæðingar breytingarinnar gera ráð fyrir.
Reglugerðarbreytingin sem tæpt er á hér að ofan er þó enn í samráðsgátt þegar þetta er skrifað og vonum við vissulega öll að nýr ráðherra heilbrigðismála muni klára mál forvera síns hratt og örugglega svo að breytingin muni taka gildi þann 1. janúar 2022. Með breytingunni er áratugalangri baráttu lokið þar sem hommar, tvíkynhneigðir karlar og aðrir karlar sem stunda mök með körlum, eru ekki lengur settir undir einn hatt og allt þeirra kynlíf dæmt áhættusamt, heldur verður kynlíf almennt metið og dæmt áhættusamt ef þurfa þykir samkvæmt nýju reglunum.
Daníel E. Arnarsson,
framkvæmdastjóri Samtakanna 78.