Í sumar var alþjóðlega AIDS ráðstefnan haldin í 22. sinn og að þessu sinni í Amsterdam. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár en síðast fór hún fram í Suður-Afríku.
Ráðstefnan var ótrúlega vel sótt, nú sem endranær. Meira en 16.000 manns sóttu ráðstefnuna og kom fólk frá rúmlega 160 löndum. Við Einar Þór vorum fulltrúar Íslands og nutum þess í botn að vera þarna innan um allan þennan hóp aktivista, rannsakenda, HIV jákvæðra og fjölbreyttra baráttuhópa. Krafturinn og baráttuviljinn leyndi sér ekki.
Yfirskrift ráðstefnunnar var „Breaking Barriers Building Bridges“
Fjöldinn allur af áhugaverðum erindum voru í boði og erfitt að velja hvað maður hlustaði á af hræðslu við að missa af einhverju enn betra.
Það setur ráðstefnuna óneitanlega á sérstakan stall að sjá hve mikið af þekktu fólki sækir hana heim og leggur krafta sína í að styrkja samtökin á sinn rausnarlega hátt. Eins og svo oft áður voru þeir sir Elton John og prins Harry meðal þátttakenda ásamt Bill Clinton, Bill Gates, syni Nelsons Mandela og mörgu öðru mætu fólki.
Virkjum unga fólkið
Að þessu sinni var hlutverk og þátttaka ungs fólks veigameiri á ráðstefnunni og fengu þau veitta fleiri og veglegri styrki til sinna verkefna en áður. Ríkir eining um það viðhorf að sýnileiki og þátttaka unga fólksins í baráttunni við HIV sé grundvöllur að því að markmiðum sé náð.
Forvarnir-forvarnir-forvarnir
„Eitt gramm af forvörnum er sama og eitt kíló af árangri“ sagði háttsettur embættismaður hjá Alþjóðlegu heilbrigðisnefndinni, WHO. Mikilvægi forvarna var eitt af lykil viðfangsefnum ráðstefnunnar og nefndist eitt af opnunarerindum hennar „Forvarnarbyltingin“.
Rannsóknir
Þær nýju rannsóknir sem gerðar hafa verið styðja enn frekar við niðurstöður eldri rannsókna sem sýna að sé HIV veiran ómælanleg þá er hún jafnframt ósmitandi. HIV jákvæðir á lyfjum með ómælanlega HIV veiru eru ósmitandi. Nýjar rannsóknir á PrEP (forvarnarlyfi gegn HIV) staðfesta enn frekar eldri niðurstöður varðandi það að vera örugg leið til að fyrirbyggja HIV smit.
Heildstæð þjónusta
Fram hefur komið að heildstæð meðferð sem miðar að því að meðhöndla HIV samhliða öðrum heilsutengdum vandamálum svo sem lifrabólgu C, háum blóðþrýstingi, sykursýki og þunglyndi skilar árangri bæði fyrr og betur en meðferð þar sem eingöngu er horft á eitt heilsuvandamál í einu. Kostnaður við heildstæða þjónustu hefur reynst mun lægri en ella. Eins og við vorum minnt á frá WHO „við höfum ekki hjálpað barni ef við meðhöndlum það við HIV en sprautum það ekki gegn mislingum.“
Markmiðin okkar – of langt í land
Það gengur of hægt að ná þeim markmiðum sem við settum okkur um fækkun HIV smita. Við þurfum að hafa hraðann á. Árið 2017 greindust tæplega 2 milljónir ný HIV tilfelli og árlega deyr um ein milljón manns af völdum HIV – algjörlega ástæðulaust. Í Austur-Evrópu og Mið-Asíu löndunum hefur HIV jákvæðum fjölgað um helming undanfarið á sama tíma sem fordómar eru þar hryllilegir og lögin óvægin jafnvel þó hægt sé að sýna fram á að smithætta sé engin.
Þurfum meiri styrki
Því miður hefur dregið verulega úr styrkveitingum til baráttunnar við HIV. Nýjar tölur sýna að stórt bil er á milli þess fjár sem fæst í styrkjum nú 2018 og þess sem talið er að þurfi til að ná settum markmiðum UNAID 2020. „The Trump effect“ hefur haft stórkostlega neikvæð áhrif á fjárframlög til AIDS á heimsvísu.
Bjartsýn
Við horfum auðvitað bjartsýn fram á veginn og höldum áfram baráttu okkar við útbreiðslu HIV veirunnar. Við höfum þekkinguna og baráttuviljann en þurfum hjálp stjórnvalda og áhrifafólks um heim allan.
PS: Ekki væri verra að losna við þennan „Trump“
Sigrún Grendal Magnúsdóttir, formaður HIV-Ísland.
Mynd efst: Sigrún Grendal Magnúsdóttir og Einar Þór Jónsson
Birtist fyrst í Rauða Borðanum 1. des. 2018