„Ég greindist HIV jákvæður 22 ára gamall,“ lýsir Andrew McComb sem nú, níu árum síðar, býr hér á landi. Hann hefur alltaf sótt læknisþjónustuna heim sem breyttist nú í heimsfaraldri COVID-19.
„Ég tek tvær pillur á kvöldi og viðurkenni að ég fæ alltaf smá vott af samviskubiti, því 38 milljónir manna hafa dáið úr alnæmi. Þeir fengu ekki eins og ég tækifæri til að taka lyf og halda þannig veirunni niðri.“ Lyfið hvetji hann til að gera sitt til að breyta lífi annarra til hins betra. Láta til sín taka. „Það er svo mikilvægt að fólk skilji að hægt er að lifa með HIV og smita ekki.“
Hann situr við borðstofuborðið í HIV húsinu við Hverfisgötu og fer yfir sögu sína. Ekki í fyrsta sinn, því hann hefur opnað sig um veirusmitið á samfélagsmiðlum í von um að hjálpa öðrum í sömu stöðu. „Fyrsti kærastinn minn braut á mér,“ segir hann rólegur. „Því miður varð ég fyrir kynferðisbroti.“ Hann hafi með hjálp unnið úr reynslu sinni en hann greindist fjórum mánuðum eftir brotið þá nýkominn í nýtt samband.
„Við ákváðum í þessu nýja sambandi að fara í heilsufarsskoðun. Það þótti okkur báðum ábyrgt að gera,“ segir hann. „Í kjölfarið komst ég að því að ég væri HIV jákvæður,“ segir Andrew þar sem hann situr við borðsendann. Vatnið síður í katlinum fyrir te-ið sem Andrew bíður eftir. Blaðamaður með kaffi í bolla.
Freddie Mercury sá eini
„Ég man enn eftir andliti heilbrigðisstarfsmannsins þegar hún færði mér fregnirnar. Hún bað mig að setjast áður en hún sagði mér að ég væri jákvæður. Það hefði ekki átt að vera áfall miðað við það sem ég hafði farið í gegnum, en ég fékk áfall.“
Andrew var á þessum tíma að útskrifast úr lögfræði í háskóla. „Ég reyndi að setja fingurinn á hvað hafði gerst og hvaða áhrif bæði brotið og veiran hefðu á líf mitt, hver framtíð mín yrði? Ég þekkti engan sem hafði HIV. Eina manneskjan sem ég vissi að hefði haft þessa veiru var söngvarinn Freddie Mercury. Ég vissi að hann hafði dáið úr alnæmi og það var eina þekking mín á veirunni og áhrifum hennar,“ lýsir hann. Mercury hafi látist þann 24. nóvember 1991.
„Síðasta yfirlýsing hans í fjölmiðlum sem birt var fyrir andlát hans var: „Ég vona að allir taki þátt með mér, læknum mínum og öllum þeim um allan heim í baráttunni við þennan hræðilega sjúkdóm“. Hann hefði verið 71 árs núna,“ segir Andrew.
„Ég vona að ákvörðun mín að tjá mig svona opinskátt verði metið sem tákn um að þeir sem dóu úr alnæmi hafi ekki látist fyrir ekki neitt. Ég lifi í dag vegna þeirra sem dóu á undan mér og ég vil gera mitt svo kynslóð morgundagsins eigi framtíð fyrir sér vegna aðgerða okkar í dag – aðgerða til að binda enda á alnæmisfaraldurinn árið 2030,“ segir hann og hugsar aftur til óttans sem hann fann í fyrstu.
„Ég var svo áhyggjufullur og hræddur og treysti mér ekki til þess að segja neinum frá stöðu minni.“ Nýi kærastinn fékk fyrstur allra að heyra tíðindin. Andrew ákvað síðan að treysta einnig vinnuveitanda sínum fyrir því að hann væri með veiruna. Hann vissi að hann þyrfti frí til að mæta í alla þá læknatíma sem fylgja nýgreiningu. Hann sagði þeim það tveimur dögum eftir að honum hafði verið tjáð að hann fengi fastráðningu.
Missti vinnu og var hótað
„Ég vissi ekki þá að ég þyrfti ekki að segja þeim hvers vegna ég yrði að fara til læknis en daginn eftir læknisheimsóknina ráku þeir mig,“ segir hann yfirvegaðri röddu. Vinnuveitandi hans hafi svo ráðlagt honum að greina ekki aftur frá því að hann væri HIV jákvæður.
„Hann sagði að ef ég segði einhverjum þetta á skrifstofunni yrði ég örugglega kýldur í andlitið. Þetta voru fyrstu viðbrögðin utan fjölskyldunnar sem ég upplifði eftir að ég upplýsti um ástand mitt,“ segir hann.
„Ég hafði ekki upplifað önnur eins viðbrögð, ekki einu sinni þegar ég kom út úr skápnum. Ég var sleginn.“ Hann stóð eftir án vinnu. Í sömu vikunni lýsir hann því hvernig kærastinn sagði honum upp í smáskilaboðum. „Hann treysti sér ekki til þess að vera með mér lengur. Ég hef hvorki séð hann né heyrt frá honum síðan.“ Staðan hafi haft mikil áhrif á hann.
„Ég eyddi örugglega ári eða einu og hálfu niðurbrotinn. Þetta var dimmur tími í lífi mínu,“ segir Andrew og að hann hafi ákveðið að þaðan í frá myndi hann ekki segja sálu frá. „Ég ákvað að þetta yrði leyndarmál sem ég tæki með mér í gröfina,“ segir hann og einnig hvernig hann hafi átt erfitt með að þiggja ást eftir að hafa smitast. „Ég hélt að fólk myndi ekki elska mig út af þessum sjúkdómi. Nú sé ég hvað það var kjánalegt,“ segir hann.
Fékk hjálp og stóð upp
Andrew er yngstur fjögurra bræðra og bjó fjölskyldan í Birmingham. Þeir bræður eru fæddir í tveimur hollum. Hann á bróður sem er 32 ára, ári eldri en hann, og aðra 35 og 36 ára gamla. Móðir hans er hjúkrunarfræðingur. „Það hjálpaði mikið þegar ég greindist.“
Andrew fékk hjálp í gegnum breska heilbrigðiskerfið þegar ljóst varð hvernig hann smitaðist. „Ég hafði aðeins verið með þessum eina manni,“ segir hann og að hann hafi ákveðið að fara ekki með málið lengra. Hann hafi staðið frammi fyrir siðferðislegri spurningu. Hafi óttast að þessum fyrrum kærasti myndi endurtaka verknaðinn gagnvart öðrum en þótt erfitt að vita af honum í fangelsi.
„Læknarnir sögðu mér að þetta væri ákvörðun mín. Eins mikið og ég hata það sem hann gerði mér og skil ekki gjörðir hans vildi ég ekki vita af honum í fangelsi,“ segir Andrew. „Við komumst seinna að því að hann hafði smitað fleira fólk. Hann hafði verið á lyfjum en ákveðið að taka þau ekki. Það í sjálfu sér er glæpsamlegt, en ég treysti mér ekki á þessum tímapunkti að kæra hann.“
Andrew leitaði til Terrence Higgins Trust samtakanna sem hefur hjálparlínur á netinu.
„Mér fannst gott að tala við ókunnuga og náði mér á strik. Ég fann að ég gat talað án þess að vera dæmdur. Ég kynntist fólki sem skipar núna vinahópinn minn,“ segir Andrew sem hefur hjálpað til við að safna fé fyrir samtökin sem berjist fyrir heilbrigðri kynheilsu. Hugarfar hans hafi smátt og smátt breyst til hins betra.
Ég vissi að með því að flytja til Íslands gæti ég dregið línu í sandinn, sagt fullum fetum: Ég er HIV jákvæður. Ég get kynnt mig með stolti og öryggi. Það geri ég.
Fann sjálfan sig hér á landi
„Ég ákvað að standa með sjálfum mér og segja sögu mína og hjálpa fólki í sömu sporum. Það gerði ég,“ segir hann.
„Nú þegar ég lít til baka finnst mér magnað að ég hafi tekið það skref að segja öllum frá,“ segir þessi ungi Breti sem hefur kollvarpað lífi sínu. Hann lagði áralangt lögfræðinám sitt á hilluna. „Það gaf mér ekki þá lífsfyllingu sem ég vildi,“ segir hann og að hann hafi komist að því eftir að hann fór í frí með tveimur bestu vinum sínum.
„Ég vildi fara í sólina en þeir hingað til Íslands – Ísland, eins og Bretland bara blautara!“ Nú býr hann í miðbænum og vinnur alþjóðlega fyrir fyrirtæki sem vinnur með Aloe Vera. „Ég gjörsamlega féll fyrir landinu. Lífið fór að meika sens. Ég fann að ég hafði fundið það sem ég leitaði að án þess að vita að ég var að leita.“ Hann hafi komið árlega í fjögur ár áður en hann flutti alfarið hingað til lands í febrúar fyrir tæpum tveimur árum.
„Ég vissi að með því að flytja til Íslands gæti ég dregið línu í sandinn, sagt fullum fetum: Ég er HIV jákvæður. Ég get kynnt mig með stolti og öryggi. Það geri ég.“ Hann finni hvernig hann hafi áunnið sér traust með hreinskilni sinni um stöðu sína á samfélagsmiðlum.
Saga sem hjálpar öðrum
„Fólk fór að hafa samband við mig og leitaði ráða eftir að ég hóf að streyma á Facebook. Það er ekki fyrir alla að stíga svona fram en fyrir mig var það frábært skref. Nýtt upphaf,“ segir Andrew. Hann hafi breyst mikið, fundið tilgang. Hann hjálpi til við fjáröflun góðgerðasamtaka.
„Ég finn að framlag mitt skiptir máli. Ég er stoltur af því að ákveða að láta veiruna ekki eyðileggja líf mitt heldur gefa mér tækifæri til að hjálpa öðrum,“ segir Andrew sem er með Facebook-síðu sína opna. Hann finnur að saga hans snertir marga. „Núna fæ ég jákvæð viðbrögð. Ekki neikvæð,“ segir hann.
Andrew segir afar mikilvægt að þegar fólk fái að heyra að það sé HIV jákvætt fái það strax að vita að veiran hafi ekki áhrif á líf þeirra sem séu á lyfjum. „Það skiptir öllu máli hvernig maður segir frá smitinu, hvaða upplýsingar maður gefur,“ segir hann. „En þetta vissi ég ekki í upphafi. Ég hélt að ég myndi deyja. Bróðir minn spurði hvort fjölskyldan þyrfti að skipuleggja jarðarför. Þekkingin er enn takmörkuð og ég vil breyta því.“
Andrew segir að hann hafi upplifað sigurtilfinningu þegar hann áttaði sig á því að fólk skilgreindi hann ekki út frá smitinu. „Það er gott að nú þegar fólk hugsar til mín gerir það fyrir eiginleikana sem ég hef en ekki veiruna sem ég smitaðist af fyrir níu árum. Ég held ótrauður áfram á þeirri braut sem ég er á.“
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir