Berþóra, hér til vinstri á myndinni, segir fordóma enn finnast gagnvart HIV, bæði í samfélaginu og meðal heilbrigðisstarfsfólks. Stöðugt þurfi að fræða. Mynd/gag
„Ég hugsaði. Ég kem aldrei til með að sjá neinn með alnæmi,“ segir Bergþóra Karlsdóttir sem kom inn í HIV-teymi hjúkrunarfræðinga árið 2004. Á sama tíma hafi hún hitt marga sem báru merki eftir lyfjainntökuna í gegnum árin. Menn hafi verið með skrýtna fitudreifingu, svokallaða Buffalo Hump sem er fitusöfnun á baki neðan háls, og taugaskaða í fótleggjum. „Þetta eru afleiðingar gömlu lyfjanna.“
En ólíkt því sem hún hélt hafi hún átt eftir að sjá alnæmið hjá gagnkynhneigðum einstaklingum sem engum datt í hug að væru smitaðir af HIV. „Það var fólk á aldrinum 60-70 ára. Margir þessara einstaklinga eru látnir. Fólkið var orðið svo veikt þegar smitið uppgötvaðist,“ segir hún. Það hafi legið á ýmsum deildum vegna augnsýkinga, lungnabólgu og annarra kvilla.
Svo hafi komið upp faraldur í fíkniefnahópi. „Það var áskorun en við höfum haft víðsýna lækna hérna og meðhöndluðum þá sýktu. Svíar gáfu fíklum lengi vel ekki HIV-lyf, hugsuðu að þeir tækju þau hvort eð er ekki,“ segir hún.
Veruleiki HIV smitaðra í dag sé allt annar en áður var. Lífslíkurnar ekki minni en ósmitaðra og litlar sem engar aukaverkanir af lyfjunum sem verði stöðugt betri og betri. Enn séu fordómarnir þó til staðar. Fólk hafi enn áhyggjur af því að segja frá stöðu sinni.
„Ennþá segir fólk: Ég get ekki sagt mömmu frá þessu en rannsóknir hafa sýnt að þeim vegnar best sem eru opnir. Margir lýsa því að þeir myndu enn þann dag í dag ekki geta sagt frá þessu á vinnustað sínum. Það myndi hindra þá í starfsframa. Það er sorglegt,” segir Bergþóra. Þá megi enn greina fordóma heilbrigðisstarfsmanna.
„Það er ekki nema þrjú ár síðan ég var hundskömmuð af heilbrigðisstarfsmanni sem átti að setja upp miðlægan æðarlegg hjá HIV-smituðum. Viðkomandi var hins vegar veirufrír og því þurfti ekki að segja frá því.“
Mikil fræðsla hafi verið á kvennasviðinu þar sem HIV-smitaðar konur hafi upplifað fordóma við fæðingu barna sinna. „Við þurfum stöðugt að fræða,“ segir hún.
Birtist fyrst í Rauða borðanum 1. des. 2019