Ferðahömlur. Svipt frelsi og einangruð. Þannig vildu margir hafa það þegar HIV fór að herja á fólk, fyrst og fremst homma. Lögum var víða breytt til að við sem smituð vorum gætum ekki lifað eðlilegu lífi. Sérstaklega var tiltekið í Svíþjóð að svipta mætti þá frelsi sem þóttu óábyrgir í hegðun.
Fjarlægja átti okkur smituðu svo aðrir gætu lifað lífi sínu án allrar hættu af HIV. Skilja átti okkur frá hjörðinni. Hugmyndir voru uppi um að koma okkur fyrir á eyjum þar sem við værum ekki almenningi hættuleg. Þessi umræða leiddi ekki til neins nema sundrungar. Við og hinir.
Við smituðu urðum annars flokks þjóðfélagsþegnar, ef ekki þriðja flokks, því flestir smituðu voru hommar og staðan bágborin fyrir. Á þessum tíma hefðum við HIV-smituðu þurft valdeflingu. Stuðning en fyrst og fremst virðingu. En flest fúnkeruðum við ekki. Náðum okkur ekki á strik í samfélagi sem óttaðist okkur.
HIV smituðum var til að mynda bannað að koma til Bandaríkjanna árið 1987. Banninu var ekki aflétt fyrr en 22 árum síðar, löngu eftir að þekkt var að HIV smitaðist ekki af kaffibollanum sem við drukkum úr, handklæðinu sem við þurrkuðum okkur með eða andadrætti heldur við óvarin kynmök.
Um fjörutíu féllu fyrir alnæmisveirunni hér á landi. Margir glímdu við miklar aukaverkanir af fyrstu HIV-lyfjunum. Skammtarnir voru stórir og lyfin á tilraunastigi. Margir díla enn við afleiðingarnar.
Ég sagði frá því að ég væri með HIV og notaði smokk. Samt þótti mörgum það ekki nóg og spurðu hvort það væri frelsi okkar smituðu að fá að lifa kynlífi? Hættið því, var viðkvæðið.
Ótti kviknar í óvissu. Ótti veldur kvíða og hann elur af sér fordóma. Við grípum til varnarviðbragða. Það verða átök. Barist er um hugmyndir og gildi. Ótti er notaður til valdbeitingar enda stjórnast margir af honum. Óttinn er því hættulegur.
Yfirskrift alþjóðlega alnæmisdagsins 1. desember í ár er: „Endum HIV faraldurinn“ Þá er vert að minnast allra þeirra sem hafa látið lífið vegna alnæmisveirunnar. Líf margra þeirra hefði verið bærilegra ef óttinn hefði ekki stýrt viðbrögðum við veikindum þeirra.
Á degi sem þessum er gott að staldra við. Hugsa hvort við hefðum getað gert betur? Hvort við getum lært af sögunni? Hvort við séum nú um stundir að jaðarsetja hópa sem kjósa að lifa lífinu öðruvísi en meirihlutinn?
Ekki hefur enn verið fundið bóluefni gegn HIV eða lækning gegn sjúkdómnum og bættust 34 í hóp HIV smitaðra á Íslandi á liðnu ári.
HIV jákvæðir á lyfjum sem halda veirunni í skefjum smita ekki.
Einar Þór Jónsson,
Framkvæmdastjóri HIV Ísland