Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hvernig síðustu tvö ár hafa verið, það er öllum kunnugt. Enginn hefði hinsvegar getað gert sér í hugarlund hve miklar breytingar á samskiptum fólks og öðrum högum fylgdi í kjölfarið en nú virðist vera að birta verulega til. Fólk getur komið saman að nýju og er daglegt líf að færast í eðlilegt horf.
Reynsla hefur t.d. fengist af svokölluðum heimaprófum þar sem fólk prófaði sjálft sig fyrir Covid-smiti. Sú reynsla er með ágætum. Við höfum lengi talað fyrir hraðprófum til greiningar HIV en það fyrir daufum eyrum og þá helst verið sagt til andmæla að ef til vill skili þeir aðilar sér ekki inn í heilbrigðiskerfið sem greinist jákvæðir heldur haldi því leyndu. Sjálfsagt getur það gerst en þá verður aukin fræðsla að koma til svo öllum sé það ljóst að greinast HIV jákvæður er í dag ekki sá dauðadómur sem var í upphafi faraldursins.
Um þessar mundir eru liðin 40 ár síðan fyrsti einstaklingurinn á Íslandi greindist með alnæmi og lést hann fáum árum síðar. Gríðarleg rannsóknarvinna hefur farið fram um allan heim á þessu veiru-„kvikindi“ sem veldur HIV. Líkt og aðrar veirur er skepnan nánast óútreiknanleg, tekur ýmsum stökkbreytingum. Það var svo fyrir um 25 árum sem á markað komu fyrstu lyfin í baráttunni sem virkuðu og með því var lífi fjölda HIV jákvæðra bjargað og hefur svo verið síðan. Stórtækar framfarir hafa síðan orðið hvað varðar lyf, hilla var farið undir bólusetningarlyf gegn HIV en líklega hefur heimsfaraldur Covid-19 eitthvað seinkað því. Sá sem er HIV jákvæður, tekur sín lyf reglulega og hugar að heilsu sinni lifir bara sínu dagleg lífi eins og hver annar. Mikilvægt er að komi fram að sá einstaklingur er heldur ekki smitandi við náin samskipti.
Aldrei er of oft minnst á fræðslu til samfélagsins varðandi HIV og þá sérstaklega ungs fólks en það hefur verið megin verkefni HIV Íslands í gegnum tíðina. Síðustu tvö ár hefur ekki verið hægt að halda uppi jafn öflugu fræðslustarfi og við hefðum viljað en nú þegar tímar eru að breytast verður farið að nýju í að huga að þeim málum. Fræða þarf um smitleiðir, kynhegðun og ekki síður að berjast gegn fordómum og stigma sem virðist vera nokkuð ríkjandi um allan heim.
Við höfum ekki farið varhluta af því ástandi upplausnar og stríðsátaka sem nú sækja á heimsbyggðina. Því miður lítur út fyrir fjölda skráðra HIV tilfella þetta árið sé allt að 40 manns. Skýrist það að hluta vegna ástands í Evrópu og auknum fjölda fólks til landsins í leit að alþjóðlegri vernd. Líkt og fyrr eru minnihlutahópar, og aðrir í viðkvæmri stöðu, fletir meðal greindra, eitthvað sem hefur skýrt sérstöðu og gert HIV óvenjulegan smitsjúkdóm eða líklega meira eftirtektarverðan.
Yfirskrift 1. desember, alþjóða alnæmisdagsins í ár er “Equalize” – „Jöfnun“ er það ákall til enn frekari aðgerða, hvatning til okkar allra að vinna að raunhæfum aðgerðum sem þarf til að hindra ójöfnuð og með því binda endi á útbreiðslu HIV og þar með endi á alnæmi.
Um leið og við minnumst þeirra milljóna sem látið hafa lífið af völdum alnæmis köllum við eftir samstöðu með þeim um 38 milljónum manna sem lifa með HIV um allan heim. Aukið framboð, gæði og hæfi þjónustu til HIV-meðferðar við fátækari lönd verður að aukast.
Störf HIV-Íslands eru sérstök, viðkvæm og frábrugðin öðrum félögum að því leyti að stór hópur félagsmanna fer leynt með sjúkdóm sinn. Félagið er að sjálfsögðu opið öllum óháð hvort viðkomandi er HIV jákvæður eða ekki enda margir aðstandendur og vinir verið félagsmenn í gegnum tíðina. Námsmenn og ungt fólk leitar til samtakanna eftir ráðgjöf, stuðningi, fræðslu og upplýsingum. Ávallt er gætt fyllsta trúnaðar í samskiptum við einstaklinga.
Var það ekki í pistli mínum í síðasta blaði sem ég sagði að „veirur fara ekki í manngreiningaálit þegar þær stinga sér niður…..“ Munum því að við getum farið eins að í samskiptum hvert við annað. Sýnum virðingu og kurteisi við náungann en það er besta leiðin til að bæta samfélag okkar.
Svavar G. Jónsson, formaður HIV Ísland.