Spurning sem búin er að hljóma af vörum margra sl. tæp tvö ár og er þar auðvitað átt við Covid-19 faraldurinn. Í fyrstu var samstaðan alger, vart sáust bílar á götum borgar og bæja, enginn á ferli og allir tileinkuðu sér ráðleggingar og fyrirmæli sóttvarnayfirvalda varðandi varnir vegna heimsfaraldurs Covid-19. Nú ber hins vegar svo við að þreytu er farið að gæta hjá ansi mörgum sem gerir að verkum að ráðleggingum er ekki hlýtt. Frábært verk var unnið þegar bóluefni voru fundin upp og framleidd á methraða en svo hefur komið í ljós að virkni þeirra er ekki eins mikil og gert var ráð fyrir í upphafi. Samt sem áður hefur verið unnið mjög gott verk varðandi það að halda faraldrinum nokkuð í skefjum.
Mikið hefur mætt á öllu heilbrigðiskerfinu þennan tíma og var nú kannski ekki á bætandi í fjársveltan rekstur þess. Samt sem áður verður ekki annað sagt en; þökk sé öllu starfsfólki þess, öllu hjúkrunarfólki, læknum og öðrum þeim er að koma.
Félagsstarf og aðrar almennar samkomur hafa meira og minna farið út um þúfur. Svo hefur einnig verið hjá okkur, fundir, samkomur og annarskonar hittingur sem ákveðið hafði verið að halda hefur þurft að blása af. Við höfum nú í tvö skipti ekki getað haldið árlega minningarmessu um þá er fallið hafa fyrir HIV en minning þeirra og hlýhugur til aðstandenda varir samt sem áður. Eins er útlit fyrir að við getum ekki haldið upp á alþjóða alnæmisdaginn 1. des. annað árið í röð.
Samt sem áður er starfsemi félagsins á fullu og haldið uppi af framkvæmdastjóra að mestu. Samskipti innanlands sem og við vini okkar á hinum norðurlöndunum og annars staðar í heiminum hefur farið mikið fram með hjálp tækninnar og menn hist á fjarfundum.
Einum slíkum fundi tók ég þátt í þar sem rætt var um fordóma og mismunun. Afar áhugaverð og nauðsynleg umræða sem er verkefni framtíðar. Það er jú staðreynd að fordómar geta verið mjög særandi og mannskemmandi og byggjast að mestu á þekkingarskorti.
Það eru ekki bara framfarir í covid lyfjamálum heldur berast ánægjulegar fréttir fyrir HIV jákvæða um einföldun á lyfjagjöf til þeirra. Svo er barátta okkar fyrir aðgengi að hraðprófum vegna HIV alltaf uppi á borðinu.
Það var árið 2011 sem ég endaði formannspistil minn á að segja; „HIV veiran fer ekki…“ Í ljósi aðstæðna í heiminum núna breyti ég upphafinu og segi; Veirur fara ekki í manngreiningarálit þegar þær stinga sér niður, allir eru jafnir fyrir þeim, við skulum í baráttunni haga okkur eins, hætta að draga fólk í flokka sem stuðlar að fordómum heldur standa saman því við erum jú öll að berjast að sama marki.
Svavar G. Jónsson,
formaður HIV Ísland.