Hugleiðingar í kjölfar gleðigöngunnar
Það er svo skrýtið hvað lífið getur fleytt manni á milli ólíkra viðkomustaða. Allt í einu finnur maður sig á stað sem fyrir ekki svo löngu síðan var manni algjörlega ókunnur. Að þessu sinni var ég stödd í gleðigöngunni, haldandi á spjaldi þar sem á stóð „HIV jákvæðir á lyfjum eru ósmitandi“. Eitt andartak staldraði hugur minn við þetta og ég horfði á sjálfa mig úr fjarlægð. Ég hafði farið í flotta kjólinn minn sem var skósíður og hárauður. Það myndu örugglega allir taka eftir mér sem á annað borð litu í áttina að gleðigöngunni. Ég var með hvíta derhúfu með áprentuðum rauðum borða sem við í HIV-Ísland létum gera í tilefni dagsins. Ég skreytti mig litríkum fjöðrum og hélt auk þess á rauðum gasblöðrum sem tróndu í loftinu eins og til að hjálpa mér að ná athygli sem flestra. Brosið mitt náði allan hringinn enda þvílíkur gleðidagur og þvílíkur merkisdagur. Það hlutu allir þarna úti að taka eftir mér og glæsilega hópnum sem með mér var og vonandi lesa á skiltin okkar með skilaboðunum sem okkur eru svo mikilvæg.
Fyrir nokkrum árum vissi ég lítið sem ekkert um það málefni sem ég er nú að vekja athygli á. Ég hafði þessar gömlu hugmyndir um „aids“ eins og svo margir aðrir. Hér þurfti ég greinilega að uppfæra vitneskju mína. Maður getur jú ekki vitað allt og eðlilegt að spurningar vakni oft ekki fyrr en málefnið verður manni tengt á einhvern hátt. Ég greindist HIV jákvæð fyrir 5 árum. Ég man að ég ákvað strax að hleypa engum neikvæðum tilfinningum að fyrr en ég væri búin að fá nauðsynlegar upplýsingar um sjúkdóminn og framtíðarhorfur mínar. Ég hlustaði athugul á lækninn útskýra málið fyrir mér og hvaða áhrif HIV veiran gæti haft á líf mitt. Hann sagði mér frá lyfjunum sem myndu fljótt halda veirunni niðri þannig að hún yrði ómælanleg og þar af leiðandi ósmitandi. Ég myndi geta lifað eðlilegu lífi í alla staði, kysst og knúsað barnabörnin sem aldrei fyrr og kúrt hjá kallinum mínum án þess að vera hrædd um að smita hann. Mér var létt. Ég sá að það var engin ástæða til að örvænta og lífið blasti við mér sem aldrei fyrr. Ég ákvað að tala opinskátt um HIV greininguna mína. Ég hef aldrei orðið vör við fordóma í minn garð og ég skil alls ekki af hverju fordómar ættu að fylgja með í „HIV pakkanum“. Ef það er einhver í heiminum í dag sem ekki smitar aðra af HIV þá er það einmitt sá sem veit að hann er HIV jákvæður og er á lyfjum.
Þrátt fyrir breyttar aðstæður HIV jákvæðra með tilkomu lyfja sem halda veirunni niðri þannig að hún verður ómælanleg og þar af leiðandi ósmitandi þá ríkja enn fordómar í kringum okkur. Margir HIV jákvæðir verða varir við þessa fordóma sem hafa um leið verulega neikvæð áhrif á líf þeirra og líðan. Fordómar byggja oftast á vanþekkingu og misskilningi. Nú er svo sannarlega kominn tími til að uppfæra þekkingu og blása á fordóma. Ekki vera gamaldags – fordómar eru úreldir og spegla aðeins vanþekkingu viðkomandi.Ég horfði yfir hópinn sem gekk fyrir aftan mig í gleðigöngunni góðu. Mér fannst ég aldrei hafa séð eins fallegan hóp. Ég var svo stolt. Ég vissi að í hópnum var HIV jákvætt fólk sem aldrei hafði komið opinberlega fram með það áður og ég vissi að í hópnum var HIV neikvætt fólk sem sýndi okkur skilyrðislausan stuðning með því að ganga þarna með okkur. Bara það að vera með í gleðigöngunni í ár var stór sigur fyrir alla HIV jákvæða á Íslandi, já og reyndar toppurinn á hetjulegri baráttu fólks sem aldrei gafst upp.
Sigrún Grendal Magnúsdóttir,talmeinafræðingur, afródanskennari og formaður HIV-Ísland
Birtist í Rauða Borðanum 1. des. 2017