Atli Þór Fanndal hitti Önnu Tómasdóttur, hjúkrunarfræðing á göngudeild smitsjúkdóma, og tók hraðgreiningarpróf fyrir HIV og lifrarbólgu C hjá henni uppi á Landspítala. Hann fræddist um þetta átak hjá henni.
– Hvernig hefur reynslan verið af þessu verkefni og hvernig hafið þið gert þetta?
Hraðprófin hafa bara verið aðgengileg í eina vitundarvakningarviku sem var í september og þá buðum við upp á hraðgreiningarpróf á göngudeild smitsjúkdóma, göngudeild meltingar á Hringbraut, á Vogi og í Frú Ragnheiði. Þetta var líka auglýst vel í blöðunum. Við fengum fólk utan úr bæ sem gat mætt á dagvinnutíma án þess að bóka og fengið skimun. Í þeim tilfellum er yfirleitt einhver áhættuþáttur hjá fólki, saga um blóðgjöf fyrir 1992, saga um vímuefnanotkun í æð, ef fólk hefur farið í meiri háttar aðgerð fyrir 1992 og svo eru húðflúr líka áhættuþáttur. Karlmenn sem sofa hjá öðrum karlmönnum voru líka tilgreindir sérstaklega sem áhættuhópur. Lifrarbólga C er almennt ekki skilgreindur sem kynsjúkdómur í gegnum árin en samt hafa kynferðisleg smit af lifrarbólgu C verið að aukast síðustu ár. Það þarf nefnilega alltaf blóð í blóð svo að það þarf að vera þess eðlis að það verði blóðblöndun í kynlífi til að það geti smitast. Það mætti gjarnan vera mun greiðari aðgangur að hraðgreiningarprófum fyrir lifrarbólgu C, HIV og svo sárasótt. Þessi próf hafa verið í notkun í Evrópu í um 20 ár, þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Við erum mjög aftarlega á merinni.
„Þessi próf hafa verið í notkun í Evrópu í um 20 ár, þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Við erum mjög aftarlega á merinni.“
– Ertu með tölur yfir því hversu margir tóku þetta próf?
Ég held að það hafi verið um 60- 80 sem komu í heildina. Það komu flestir til okkar og svo í Samtökin ’78. Maður hefur þó samt á tilfinningunni að maður sé ekki að ná til þeirra sem ættu helst að koma, til dæmis þegar við fórum í Samtökin ’78 þá voru ofboðslega margar samkynhneigðar konur sem komu. Kannski eru þetta einstaklingar sem eru almennt duglegir að koma í test en eru kannski ekki þessir sem maður er að reyna að ná til. HIV prófin eru rosalega mikilvæg. Það jákvæða við þessi próf er að þau ná aðallega til þeirra sem myndu ekki fara í próf. Það er að sjálfsögðu ekkert mál að koma upp á spítala og fara í próf en fólk veigrar sér við það að þurfa að koma og annað hvort opinbera kynhneigð eða kynhegðun eða einhverja áhættuþætti.
„Þetta hjálpar til með að ná til fólksins fyrr í ferlinu, greina það fyrr og stemma stigu við frekari smitum og koma fólki í meðferð“
– Ég reikna með því að 10% af vinnunni þinni fari í að ná til 90% og svo er 90% af vinnunni þinni að fara í að ná í 10% og þá hlýtur allt svona að hjálpa gríðarlega.
Algjörlega, svo er líka verið að segja að þetta séu ekki fullkomin próf og ekki fullkomnar aðstæður en þetta er betra en ekkert próf. Við erum með fullt af einstaklingum sem fara aldrei í próf og þá er þetta svo sannarlega betra en ekkert. Það er einmitt svo mikilvægt að þetta sé normalíserað. Ég er líka talsmaður þess að þeir sem framkvæmi þessi próf séu með þekkingu á bæði lifrarbólgu C og HIV því það ríkir mjög mikill misskilningur um þessa sjúkdóma. Varðandi HIV, margir halda að það sé dauðadómur og að þetta sé bráðsmitandi sem það er ekki. Svo með lifrarbólgu C, það er svo margt sem getur misskilist, til dæmis þá er mikilvægt að rugla ekki saman mótefnum og veirunni. Þetta eru tveir sitt hvorir hlutir sem þarf að mæla.
– Ef, eða þegar, það kemur check point kerfi hérna á Íslandi, hvað tæki svo við ef maður greinist?
Það er þannig í DK, þar sem ég skoðaði þetta, að það eru bara tilgreindir ákveðnir tímar á göngudeild daginn eftir sem fólk má þá bóka í. Þau fara bara á ákveðnum kvöldum í viku og prófa á jaðrinum og svo ef einhver reynist jákvæður þá er bara strax bókað í tíma daginn eftir og fólki fylgt eftir og jafnvel fylgt þangað. Við höfum séð þetta þannig fyrir okkur, eins og til dæmis með Frú Ragnheiði, að það yrði aldrei prófað á föstudagskvöldum vegna þess að þá er ekki hægt að fá tíma daginn eftir. Það er prófað aðra daga og væri þá tilgreindur ákveðinn tími sem fólk mætti koma til okkar og fylgja því eftir. Það er ekkert því til fyrirstöðu ef þeir sem greinast með alvarlega sjúkdóma eins og HIV eða lifrarbólgu C og vilja koma í eftirfylgni. Það þarf alltaf að staðfesta svona próf með öðru prófi, það skiptir ekki máli hvort þú ferð í blóðprufu hérna og greinist með HIV, þú þarft að fara í endurtekið próf til að staðfesta það. Það þarf alltaf tvö próf til að staðfesta.
– Hvenær er hægt að láta prófa sig, getur maður farið um leið og maður heldur að smit hafi orðið?
Maður vill að fólk sé meðvitað um að það getur komið neikvætt próf þótt að það sé mögulega smitað, því fólk getur verið jákvætt án þess að mælast ef fólk fer of snemma í próf því það er óvissutímabil. Það geta liðið þrír mánuðir frá því að fólk kann mögulega að hafa smitast þangað til það myndi mælast jákvætt í prófinu, bæði fyrir HIV og lifrarbólgu C. Það þýðir í raun aldrei að koma i HIV próf fyrr en fyrsta lagi fjórum vikum eftir grun um smit.
– Hvað tekur langan tíma að fá niðurstöður úr prófinu?
Það tekur 20 – 40 mínútur að lesa af prófinu, sem sagt ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir 20 mínútur og ekki seinna en 40 mínútur. Eftir 40 mínútur er ekki tryggt að það sé áreiðanlegt. En við höfum séð að ef próf koma jákvæð þá gerist það mjög fljótt.
– Hvernig sérð þú fyrir þér næstu skref? Eruð þið að vinna úr niðurstöðum vitundarvakningarvikunnar?
Ég held að það eigi að endurtaka þetta eftir áramót og svo reyna að sýna fram á að þetta hafi virkað vel og þeir sem hafi mælst jákvæðir hafi skilað sér í eftirfylgni og það hafi myndast góð jákvæð reynsla af þessu.
– Hvernig kemur það til að þú ferð að velta þessu fyrir þér og þá sérstaklega hraðprófum?
Það er í gegnum samnorrænt samstarf. Ég er hjúkrunarfræðingur á HIV göngudeild og við erum eina HIV göngudeildin á landinu. Ég er í samstarfi við göngudeildir í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og hitti reglulega hjúkrunarfræðinga og fylgist með hvað þær eru að gera erlendis. Mér fannst rosalega sniðugt að þær geti boðið þarna upp á hraðgreiningarpróf og eru á checkpointum og bílum út á jaðrinum. Það hefur komið faraldur á HIV hjá þeim sem nota vímuefni í æð og þetta eru einstaklingar sem stundum hafa verið að greinast seint, mörgum árum eftir smit og eru á lokastigi sjúkdómsins. Þetta hjálpar til með að ná til fólksins fyrr í ferlinu, greina það fyrr og stemma stigu við frekari smitum og koma fólki í meðferð. Þannig að ég hafði mikinn áhuga á að þetta yrði innleitt hérna heima. Það voru lokaðar dyr alveg þangað til að lifrarbólgu C átakið byrjaði og þá fórum við að þrýsta á að HIV próf fengju að fljóta með. Við höfum verið að fara í fangelsin að tékka á lifrarbólgu C þar og þá fyrir HIV í leiðinni.
-Hvernig myndir þú vilja halda áfram með þetta?
Ég myndi vilja að til dæmis Frú Ragnheiður, HIV Ísland, Samtökin 78 þeir sem hafa áhuga á að framkvæma þessi próf, að þau myndu þá tilnefna einhvern aðila, innan sinna vébanda, sem væri þá tilbúinn að gera þessi próf. Hann fengi þá fræðslu um hvernig á að gera prófin og hvernig á að veita pre-test og post-test fræðslu þannig að hann væri með einhvers konar skírteini upp á að hann gæti framkvæmt þessi próf. Ég held að það mynda hjálpa okkur við að fá leyfi fyrir þessu. Mér skilst að það þurfi lagabreytingu. Þetta er ekki á formlegum stað í kerfinu og við erum mjög snemma í þessu ferli.
Einfalt og fljótlegt
Prófið þarfnast eingöngu munnstroks eða blóðdropa og er sársaukalaust með öllu.
Blóðdropi úr fingri eða munnvatnssýni er notað til að athuga mótefnasvörun.
Við viljum að control línan sé jákvæð og ef það er engin test lína þá er prófið neikvætt.
Það er jákvætt að vera neikvæður í þessu prófi. Það tekur 20 – 40 mín að lesa af prófinu. Sem sagt ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir 20 mínútur og ekki seinna en eftir 40 mínútur. Eftir 40 mínútur er ekki tryggt að það sé áræðanlegt.
Ef þessi próf koma jákvæð þá gerist það mjög fljótt.
Birtist í Rauða Borðanum 1. des. 2017