Viðtal við Hugrúnu Ríkarðsdóttur smitsjúkdómalækni
Ég heiti Sigríður Hugrún Ríkarðsdóttir en ég þekki ekki Sigríði.
Þannig hófst viðtalið sem ég tók við hana Hugrúnu lækni sem ég kynntist fyrir tæpum 30 árum og gekk í gegnum súrt og sætt með eins og ég sagði sjálfur frá í viðtali sem var tekið við mig í Rauða borðanum fyrir ári. Hugrún sem hefur starfað sem smitsjúkdómalæknir á Borgarspítalanum tók vel í það þegar við í ritnefnd Rauða borðans fórum þess á leit við hana að spjalla við okkur.
Vignir: Hvað varð til þess að þú ákvaðst að fara í læknanám?
Hugrún: Ég þori varla að segja það. Það var þáttur í sjónvarpinu sem hét Líf og fjör í læknadeild sem mér fannst svo skemmtilegur að ég hugsaði með mér að þetta ætlaði ég að gera, og ég gerði það. Í upphafi ætlaði ég að verða krabbameinslæknir. Þegar ég kom út til Ameríku í sérnám þá var fyrsti sjúklingurinn sem ég legg þar inn karlmaður sem hafði greinst með sortuæxli. Hann átti skammt eftir ólifað þar sem lifrin og heilinn voru full af meinvörpum. Mér fannst þetta erfitt og ákvað að þetta gæti ég ekki. Í framhaldinu ákvað ég að fara í einhverja sérgrein þar sem ég gæti læknað sjúklingana. Það voru smitsjúkdómar. Þú læknaðir alla sjúklinga sem voru smitaðir. Þeir fengu sín sýklalyf og svo var þetta fljótlega yfirstaðið. Síðan kemur HIV til sögunnar og þá kynntist maður sjúklingunum yfir lengri tíma og hitti þá oft á ári. Maður myndaði í rauninni sérstakt samband við þessa sjúklinga þar sem allt var rætt. Maður varð eins konar heimilislæknir þeirra.
Strax í upphafi ákveð ég að gefa HIV sjúklingunum greiðan aðgang að þjónustu minni og hvatti þá til að hringja í mig ef eitthvað kæmi upp á sama á hvaða tíma sólarhrings það væri. Ég gat ekki hugsað mér að þeir næðu aldrei í lækninn sinn eins og gerist stundum.
Vignir: Hvernig voru svo árin í Bandaríkjunum, hvað varstu lengi þar og hvenær flytur þú svo heim aftur til Íslands?
Hugrún: Það var gott að búa í Ameríku. Ég var þar í 6 ár í Madison Wisconsin. Meðan ég tók grunnnámið mitt sem voru lyflækningar var ég svo heppin að ég fékk að vera þar áfram í svokölluðu fellowship eða undirsérgrein sem voru þá smitsjúkdómar. Þannig tók ég bæði lyflækningar og smitsjúkdóma og flutti svo heim til Íslands 1992.
Vignir: Hvernig var svo að koma heim eftir 6 ár í Bandaríkjunum?
Hugrún: Það var svolítið skrýtið vegna þess að þegar ég var úti þá greindist ég með sjúkdóminn MS. Ég var búin að hugsa mér að setjast að í Bandaríkjunum og var búin að fá tvær stöður þar. Þá kom í ljós að ég hafði ekki heilbrigðistryggingu og því varð ég að fara heim. Ég ætlaði að setjast að í Bandaríkjunum ásamt barnsföður mínum sem er Indverji og heila- og taugaskurðlæknir en ég sé ekki eftir því að hafa flutt aftur heim.
Vignir: Nú eru samtökin HIV Ísland að halda upp á 30 ára afmæli sitt. Mig langar til þess að spyrja þig hvað hefur breyst varðandi HIV á Íslandi þessi 30 ár?
Hugrún: Það breyttist töluvert með tilkomu lyfjanna. Í upphafi sáum við á eftir mörgum sem létust úr alnæmi. En svo komu lyfin sem breyttu í raun og veru lífi þeirra sem voru smitaðir. Nú er þetta langvarandi sjúkdómur sem við getum haldið niðri og það er búið að koma í veg fyrir að fólk smiti. Ef þú ert á lyfjum og þú ert vírusfrír þá smitar þú ekki annan einstakling. Þannig að þetta er mjög stórt skref. Í upphafi var maður t.d. alltaf að mæla hjálparfrumur og ef þær voru undir ákveðnu viðmiði þá þurfti sjúklingurinn að fara í ákveðna fyrirbyggjandi meðferð gegn lungnabólgu. Hann þurfti að mæta upp á spítala og fá innöndunarlyf til að halda slíku í skefjum eða til að koma í veg fyrir það. Það var svo miklu meira mál hér í upphafi að vera með HIV. Sumir skömmuðust sín mikið fyrir að hafa greinst með HIV og vildu ekki að nokkur vissi af því. En fólk þarf að geta horft framan í örlög sín og sjúkdóm.
Vignir: Ég man eftir þessum feluleik. Eins og t.d. þegar ég fór í blóðprufur þá voru pappírarnir ekki merktir með mínu nafni heldur IÓ eða öðrum bókstaf í fornafninu og öðrum bókstafnum í eftirnafninu mínu og fyrir vikið vakti maður enn meiri athygli þegar kallað var á mann á biðstofunni í blóðprufu.
Hugrún: Ég held að það hafi ekki verið rétt að þessu staðið. Það hefði strax í upphafi átt að hætta öllum feluleik.
Vignir: Fordómar er eitthvað sem loðir ennþá við HIV.
Hugrún: Fordómar eru ennþá til staðar. Ég hef aldrei skilið það í rauninni vegna þess að þú getur fengið kvef hvenær sem er og þú skammast þín ekkert fyrir það og heldur ekki frá hverjum þú fékkst það. Þeir sem smitast af HIV eru ekki að gera neitt annað en það sem er ósköp eðlilegur hlutur og þú smitast. Þannig að mér fannst þessi feluleikur ósköp asnalegur.
Sumir skömmuðust sín mikið fyrir að hafa greinst með HIV og vildu ekki að nokkur vissi af því. En fólk þarf að geta horft framan í örlög sín og sjúkdóm.
Vignir: Hvernig tæklum við fordómana og hvernig losum við okkur við þá?
Hugrún: Fáfræðin um HIV var óskaplega mikil. Margir héldu að ég myndi smitast ef ég tók í hendina á HIV jákvæðu fólki eða tók utan um það. Við eigum að fræða fólk eins og við mögulega getum um það hvernig þú getur smitast. Fólk þarf að líta á manneskju sem manneskju en ekki sem einhvern hættulegan einstakling. Ef allir væru góðir við hvorn annan og við sýndum kurteisi, umhyggju og létum okkur annt um fólk þá væri lífið svo miklu miklu betra. En það er svo margt sem afvegaleiðir fólk og ég held að fáfræðin sé verst.
Vignir: Hvað var það sem þér þótti mest krefjandi við starfið sem smitsjúkdómalæknir og í baráttunni við HIV?
Hugrún: Þetta var erfiðast í upphafi þegar maður hafði engin lyf og ekkert hægt að gera nema bjóða fram nærveru sína og sýna umhyggju. Það var ekki meira sem þú gast gert og það var erfitt.
Vignir: Svo komu lyfin 1997.
Hugrún: Sjúklingar fóru að taka lyf og lífið fór að blómstra. Það var stórkostlegt. Það var ótrúlegt að fylgjast með hve hratt ónæmiskerfið tók við sér.
Vignir: Hvað heldurðu að framtíðin beri í skauti sér þegar kemur að HIV málum?
Hugrún: Það eru margir sem binda vonir við bólusetningar. En ég held ekki að það verði. Ég spyr sjálfa mig hvern eigum við að bólusetja? Eigum við að bólusetja alla? Eigum við að bólusetja þá sem vita að þeir eru útsettir? Ef við prófum alla og ef fólk fæst til að fara í prufur þá eigum við að geta stöðvað útbreiðslu HIV. Í Afríku er t.d. ekkert heilbrigðiskerfi nema fyrir þá sem eru efnaðir. Það er svo gífurlegur fjöldi sem býr í Afríku og Asíu sem við ekki náum til. Ég held að það verði mjög erfitt að útrýma þessum sjúkdómi ef það verður nokkurn tímann hægt. Ég tel mig vera raunsæja.
Vignir: Hvað með PrEPP sem nú er búið að samþykkja hér á Íslandi?
Hugrún: Prepp er náttúrulega gott. Ef þú ert að taka HIV lyfin og ert vírusfrír þá smitarðu ekki. Þannig að hver er það sem á að fá PrEPP? Er það einhver sem ætlar að sofa hjá HIV smituðum einstaklingi sem við vitum af og er ekki á meðferð? Ég held að fræðsla og aftur fræðsla sé eitthvað sem við verðum að halda áfram að leggja áherslu á.
Vignir: Að lokum, nú hefur þú tengst fólki, sjúklingum sem þú hefur fylgt lengi og hitt reglulega.
Hugrún: Ég sé svolítið eftir sjúklingunum mínum. Menn og konur sem ég mun alltaf tengjast. Ég passa mig samt alltaf á því að þegar ég hitti sjúklinga þá heilsa ég ekki að fyrra bragði vegna þess að þetta er oft viðkvæmt mál fyrir einstaklingana. Ég man sérstaklega eftir einum sjúklingi, sem kom upp á göngudeild, sem tók niður gleraugun vegna þess að ef einhver vissi að hann væri að koma til að hitta mig þá myndi fólk leggja saman tvo og tvo og fá út fjóra. Það tók langan tíma að fá hann á mitt band og sannfæra hann um að ég væri að fá alls konar sjúklinga ekki bara HIV jákvæða. Hann hafði í raun meiri fordóma heldur en aðrir í kringum hann. Að lokum vil ég bara segja að það hefur verið mjög gefandi að hugsa um og vinna með HIV smitaða einstaklinga. Og ég vona að þeir einstaklingar skynji að ég hef ekki fordóma og að ég reyni hvað ég get til að uppræta þá þar sem ég kem.
Vignir Ljósálfur
Myndir: Robert Gaska
Birtist fyrst í Rauða Borðanum 1. des. 2018