Guðni Baldursson f. 04.03.1950. – d. 07.07.2017, fyrsti formaður Samtakanna 78 og einn af stofnfélögum HIV Ísland.
Guðni Baldursson lést í byrjun júlí, 67 ára að aldri. Margir hafa minnst þessa einstaka brautryðjanda og baráttumanns fyrir mannréttindum og réttlátara samfélagi.
HIV Ísland (áður alnæmisamtökin) voru stofnuð 1988. Guðni var einn af stofnfélögunum og var hann beðinn um að taka sæti í fyrstu stjórninni og hafði hann setið svo til óslitið í stjórn, eða í tæplega 30 ár, félaginu til mikilla hagsbóta. Guðni var gjaldkeri öll árin og sá auk þess alltaf um félagaskrána. Hann vann alla tíð hjá Þjóðskrá sem kom sér vel. Einnig sat hann alltaf í ritnefnd Rauða borðans.
Það var ómetanlegt að fá greindan og lífsreyndan baráttumann í félagsstarfið, Guðni þekkti hlutina eftir að hafa rutt brautina í byrjun fyrir mannréttindum homma og lesbía árin á undan. Það fólst styrkur í nærveru þessa hógværa og æðrulausa manns á þeim þungbæru tímum þegar alnæmisfaraldurinn var að breiðast út. Ástandið var ólýsanlega erfitt á þessum árum þegar ungt fólk þurfti að mæta dauða sínum í skugga fordóma, útskúfunar og ótta. Auður Matthíasdóttir var fyrsti formaður félagsins, en hún lést á síðasta ári, þau Guðni urðu ekki gömul, blessuð sé minning þeirra beggja.
Við erum fjölmörg sem eigum Guðna mikið að þakka. Hann var fyrsti formaður Samtakanna ’78, og hans þáttur í réttindabaráttu og sýnileika samkynhneigðra á Íslandi er stór og má ekki gleymast. Úthald, kjarkur, eldmóður og þrautseigja þeirra sem stóðu í stafni á þessum árum var svo öflug að þess verður lengi minnst. Baráttumenn eins og Guðni sem hér er kvaddur, Hörður Torfason og Þorvaldur Kristinsson og fleiri, hafa sem betur fer, verið heiðurs aðnjótandi fyrir störf sín. Líklega tók þetta allt meiri toll en menn gerðu sér grein fyrir, heilsa Guðna fór versnandi síðustu árin, hann var einmana, átti í erfiðleikum með áfengisneyslu sína og dró sig í hlé. Hann saknaði mikið eiginmannsins, Helga heitins Magnússonar sem lést 2003. Þrátt fyrir erfiðleika hafði Guðni gaman af ferðalögum og hann átti ferðafélaga úti í Evrópu og fóru þeir víða.
Við Guðni þekktumst í marga áratugi og vorum meira að segja tengdir fjölskylduböndum. Við náðum stundum að spjalla og þegar vel lá á Guðna gat hann sagt virkilega góða brandara og þá var hlegið dátt. Ég veit að ég tala fyrir hönd margra þegar ég segi að Guðna, þessa velviljaða drengs, er minnst af virðingu og hlýhug og honum þökkuð samferðin.
Guðni og eiginmaður hans Helgi Viðar Magnússon ´55 – ´03. Mynd: Gunnar V. Andrésson. Tekið 1982.
Guðni Baldursson, fyrsti formaður Samtakanna ’78. Hans þáttur í mannréttindabaráttu hinsegins fólks var stór og má ekki gleymast.
Guðni var í framboði til Alþingis fyrir Bandalag jafnaðarmanna árið 1983. Á framboðslistanum var Guðni skráður sem formaður samtakanna ´78 fremur en viðskiptafræðingur. Hann lagði ríka áherslu á það enda var framboð hans ekki sprottið af persónulegum pólitískum metnaði heldur leit hann á það sem hluta baráttunnar fyrir sýnileika og jafnrétti.
Munum að á þessum árum mátti ekki einu sinni nota orðin lesbía og hommi í Ríkisútvarpinu.
Birtist fyrst í Rauða borðanum 1. desember 2017.