Nokkrar hugleiðingar um sögu alnæmis á Íslandi
„Gagnstætt öðrum minnihlutahópum ölumst við upp án nokkurra tengsla eða vitundar um félagsskap og menningu annarra homma og án minnstu þekkingar á sögu okkar sem hlýtur að vera forsendan fyrir betra lífi.“
Þetta ákall um að læra söguna birtist í tímariti Samtakanna ´78 Úr felum árið 1983. Hvort að sagan sé forsenda fyrir betra lífi verður ekki svarað hér, en öll höfum við þó einhverja söguvitund. Þau sem tilheyra minnihlutahópum eiga oft erfitt með að spegla sig í sögunni sem er yfirleitt sögð út frá sjónarhóli valdamestu hópanna og söguleysi ýtir undir þöggun og jaðarsetningu. Það er því skiljanlegt að vilja forvitnast um söguna og miðla henni til annarra. En hvaða sögur segjum við og hvað látum við ósagt?
Þau sem stigu sín fyrstu skref sem hinsegin einstaklingar á fyrstu áratugum 21. aldar voru yfirleitt meðvituð um að réttarbætur og frjálsara samfélag væri afrakstur þrotlausar vinnu og baráttu sem háð var á mörgum vígstöðvum. Í pontu Alþingis, í jólaboðum, á djamminu, skólanum og húsfélögum. Við vissum aftur á móti minna alnæmið. Veirusjúkdómurinn sem lagðist eins og álagamyrkur á samfélag homma virtist í upphafi nýrrar aldar vera eins og vondur, fjarlægur draumur. Alnæmið var vissulega ekki þaggað í hel, en saga þess fékk oft á sig ásýnd neðanmálsgreinar. Sérkafli sem snerti þau sem upplifðu faraldurinn en væri hinum óviðkomandi.
Þagnarhjúpurinn í kringum alnæmið hefur verið að bresta undanfarin ár. Árið 2018 var fjallað um alnæmi í Velvakanda Morgunblaðsins þar sem gert var að því skóna að hnattræn hlýnun væri á pari við alnæmisfaraldurinn, ofmetið vandamál og ógn sem aldrei varð.
Hinsegin samfélagið brást harkalega við slíkum ummælum. Felix Bergsson sagði að ritstjórn Morgunblaðsins ætti tafarlaust að biðjast afsökunar (sem aldrei var gert) og Lana Kolbrún Eddudóttir sagði pistilinn vera kjaftshögg fyrir þau sem að misstu fjölskyldumeðlimi, elskhuga eða vini vegna alnæmis. Ef til vill var kominn tími til að rifja upp alnæmisárin til að gefa meirihlutasamfélaginu ekki tækifæri á að nota alnæmið til að spinna röklausa söguþræði í pólitískum tilgangi.
Ári seinna frumsýndi Hrafnhildur Gunnarsdóttir heimildaþætti sína Svona fólk í Ríkissjónvarpinu en flest sem tóku til máls um þættina voru sammála um að magnþrunginn þátturinn um alnæmið hefði borið af. Ári seinna kom svo út ævisaga Einars Þórs Jónssonar, Berskjaldaður út þar sem að Einar fjallar á einlægan en hispurslausan hátt um líf sitt sem HIV smitaður maður, en sú barátta snerist ekki eingöngu um glímuna við dauðan, sjúkdóminn og pólitík, heldur líka um lífsviljan og svo auðvitað ástina.
Það virðist því vera kominn tími til að tala aftur um sögu alnæmis. Sigrana jafnt sem svartnættið. Og líka hversdagslífið, því þó að alnæmisfaraldurinn feli í sér dramatíska baráttu upp á líf og dauða tekur sú barátta oft á sig ósköp hversdagslegar myndir. Jón Helgi Gíslason (Donni) orðaði þennan samslátt áfalla og hversdags lífs vel í viðtali við Hrafnhildi þar sem hann rifjaði upp að hafa verið að mála eldhúsið þegar fjölskyldufundur var haldinn þar sem tilkynnt var að hann ætti nokkra mánuði eftir ólifaða en Donni var einn af þeim fyrstu sem fengu nýju lyfin og reis upp frá banalegunni.
Endurlitið og fjarlægðin við atburðina gefur okkur líka rými til að skoða faraldurinn í stærra samhengi. Við getum til dæmis getum velt því upp hvort og hvernig alnæmisfaraldurinn hafði áhrif á réttindabaráttuna. Var það ef til vill alnæmisfaradurinn frekar en frjálslyndi og ást á mannréttindum sem fékk stjórnvöld til að leggja eyrun við málflutning homma og lesbía á níunda og tíunda áratugnum?
Við þessu er ekkert einfalt svar, því alnæmisfaraldurinn er margslungið fyrirbæri. Saga hans er þéttofið net af persónum og leikendum hvers hlutverk einkennist af samspili valda, valdaleysis og lífi, dauða, forræði og andspyrnu. Faraldurinn er saga baráttu sem tók á sig margar myndir. Stundum var það barátta við íslenskt mál í dálkum blaðanna eða barátta við heilbrigðisstarfsmenn og valdhafa. Og svo auðvitað mökrin milli okkar og hinna, þess viðtekna og óviðtekna, normsins og jaðarsins og þess sem hreyfir við þeim mörkum. En eitt er ljóst að áhrif alnæmisfaraldursins á réttindabaráttu, samfélag og menningu hinsegin fólks eru síst ofmetin.
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir.
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir er sagnfræðinemi sem vinnur að doktorsritgerð um sögu alnæmis á Íslandi.