Kæru gestir
Sagan er til þess að læra af henni. Ef við ákveðum að gera það ekki, lýsum við því í raun yfir að mistök fortíðarinnar hafi verið til einskis.
Þegar kemur að sögu alnæmisfaraldursins er margt að læra. Við getum lært að bregðast hratt og faglega við óþekktum ógnum. Við getum lært að hafa mannúðarsjónarmið að leiðarljósi í öllum slíkum viðbrögðum. Við getum lært að áföll sem dynja einungis yfir lítinn hóp fólks er samt samfélagslegt áfall sem kemur okkur öllum við. Og við getum lært að samstaða er lykilviðbragð við samfélagslegum áföllum.
Ef við horfum yfir nýliðna atburði hérlendis held ég að þar megi greina nokkurn lærdóm. Hér á ég sérstaklega við Covid faraldurinn og apabólu. Viðbrögð stjórnvalda voru unnin eftir bestu mögulegu þekkingu hvers tíma og unnin faglega eftir fremsta megni. Þótt gjarnan hafi verið unnið hratt viðurkenndum við að við vorum að vinna með mannfólk og að til þess þyrfti
að taka tillit. Smitskömm kom vissulega upp á tímabili í Kóvid faraldrinum en einhvern veginn tókst okkur að átta okkur og snúa aftur inn í samstöðuna og vinna þetta verkefni saman.
Jú, það var margt betur gert á undanförnum árum en í fjörutíu ára sögu HIV á Íslandi. Og það vekur óhjákvæmilega upp þá spurningu hvort við hefðum ekki getað gert betur þá líka. Og fyrir mér er svarið jú, við hefðum getað gert betur.
Til að læra af sögunni er nauðsynlegt að viðurkenna að þar sé eitthvað að læra af. Einhver feilspor eða mistök. Eitthvað sem betur hefði mátt fara. Ég held að dagurinn í dag sé góður dagur til að viðurkenna að við gerðum ekki nógu vel. Stjórnvöld, kirkjan, samfélagið og í mörgum tilfellum samfélag homma og lesbía hefðu getað haldið utan um fólkið okkar svo miklu betur. Utan um strákana okkar.
Það er góð byrjun en til að læra af sögunni þurfum við líka að þekkja hana og til þess að þekkja söguna þarf að skrá hana. Og þegar við höfum skráð söguna og förum yfir hana, þurfum við að muna að sögupersónurnar voru líka manneskjur. Hvað sem okkur finnst um einstaka atburði sögunnar er hollt að dæma ekki of harkalega og muna að við erum oftast að gera okkar allra besta.
Það má líta á fjörutíu ára sögu frá ýmsum áttum. Við getum sannfært okkur um að þetta sé langur tími, rætt um tæp tvö kynslóðabil, en við getum líka hugsað þetta sem skamman tíma, um það bil jafnlangt og aldur internetsins, nýjasta tækni og vísindi. Á meðan árin líða, líða þau gjarnan hægt, dag fyrir dag, en í baksýnisspeglinum eru þau allt í einu orðin svo mörg, eins og þau hafi þotið hjá eða við höfum dottað undir stýri.
Hvernig sem við upplifum þetta fjörutíu ára tímabil langar mig að leggja til að við brjótum það aðeins upp og horfum á það sem gríðarlegt samansafn minninga. Þetta er jú minningarstund.
Lítum sérstaklega yfir minningarnar okkar af fólki og hvernig þær hafa mótað okkur sem einstaklinga. Ótal minningar af samkomum eða samtölum en oft bara andlit, göngulag og tilfinning. Margar minningar frá góðum stundum og þó nokkrar frá verri atvikum. En ljúfsárastar eru dýrmætu minningarnar af fólkinu sem var hrifsað frá okkur og fékk ekki tækifæri til halda áfram að skapa sínar minningar.
Minningar eru nefnilega merkileg fyrirbæri. Tvær manneskjur sem upplifa sama atburðinn eignast tvær ólíkar minningar. Samt eru báðar minningarnar raunverulegar og þær byggja upp einstakan raunveruleika fólks. Þess vegna er mikilvægt að horfa á söguna, raunveruleikann, minningarnar frá ýmsum sjónarhornum.
Og það er kannski þarna sem við komum aftur að þeim sem hafa látist í alnæmisfaraldrinum. Minning þeirra lifir, en þau tóku sínar minningar með sér. Heilan einstakan raunveruleika sem þau fá ekki tækifæri til að segja frá.
Hvernig er þín saga?
Álfur Birkir Bjarnason