Kæru gestir
Sæl Halla Kristín Sveinsdóttir heiti ég og takk fyrir að lofa mér að vera með ykkur hér í dag þrátt fyrir að þessari stund fylgi mikil sorg þá er hún þörf.
Elsku vinur minningin lifir eins og stendur á legsteini Inga bróður, Inga Gests Sveinssonar, og er bara árið á milli okkar hann er fæddur 68 og ég 67. Við vorum bara 2 lengi áður en eldri bróðir kom inn í okkar líf og yngri systkini okkar fæddust og voru við einstaklega náin og samrímd.
Þegar Ingi er 17 ára og nýkominn út úr skápnum eins og það var kallað á þeim tíma veikist hann illa áður en hann fær greiningu og lá lengi á spítala. Aids var það kallað ásamt kynvillingarveiran, samkynhneigða plágan, Alnæmi, Hiv, Eyðni, hommaveiran en aðallega var talað um Aids-hommana.
Ingi var yngstur hér á landi að smitast, og sagði hann mér og bestu vinkonu sinni frá því og lét það fylgja að ef þið segið einhverjum frá því að ég sé með Aids get ég alveg eins farið niður á bryggju og hent mér í sjóinn.
Áfallið var hrikalegt hann var svo ungur, í blóma lífsins, og átti að vera að njóta en í staðinn var hann inn og út af spítala.
Í ágúst 86 fer ég til New York og kem heim í júlí 87. Ingi sendir mér ótal bréf og skrifaði dagbók til mín, ég les hér hans orð.
Bréf til Höllu frá Inga
Elsku Halla núna ligg ég uppi í rúmi og læt mér líða vel, samt leiðist mér að hanga svona aleinn og yfirgefinn. Aumingja ég af hverju kemur þú ekki heim? Ég er sko alltaf borðandi en samt hef ég ekki fitnað um gramm, heldur öfugt. Ég er alveg ofboðslega hvítur – ferlega töff finnst mér, en ég held að engum finnist það líka. Ég er að reykja Winston og mig svíður í hálsinn ég verð meira að segja að drekka gosdrykkina heita. Mér hundleiðist og það er allt í klessu. Hver heldur þú að vilji vera með Aids sjúklingi. Ég er búinn að kynnast svo mikið af fólki að ég er að drukkna, samt leiðist mér. Ég er alltaf veikur, sár í hálsinum, illt í maganum og hausnum og alltaf þreyttur.
Ingi vildi koma til mín í heimsókn til NY og var það sjálfsagt þar til að hjónin sem ég bjó hjá vissu að hann væri með Aids. Þau stungu bréfi undir hurðina, gátu ekki rætt þetta málefni og í því stóð „Ég er viss um að bróðir þinn er frábær manneskja, en við erum bara svo virkilega hrædd við Aids. Það er ekki allt vitað um hvernig þú smitast, og við getum ekki annað en verið hrædd.“
Þess má geta að þau voru bæði lærðir geðlæknar og störfuðu á sjúkrahúsi. Litla bæjarfélagið, litla Ísland eða stórborgin NY, fordómarnir voru alls staðar.
Þegar veikindin fóru að vera meira sýnileg fylgdu fordómarnir á eftir.
Þessi sýnilegu svipbrigði, gón og aðkast. Fólk sveigði fram hjá okkur úti í búð og úti á götu. Ég ætla að vitna í viðtal sem tekið var við Inga í des 89 ,,það hefur komið fyrir að börn hafa hrópað hommi eða Aids-sjúklingur á eftir mér og þá verður manni ósjálfrátt hugsað til foreldranna. Hins vegar finn ég fyrir mikilli athygli, t.d. er oft eins og allt stoppi þegar ég kem inn í verslun eða eitthvað slíkt.“
Við bjuggum í mjög litlu bæjarfélagi þar sem allir þekktu alla. Eitt hrikalegasta dæmi sem ég veit um sem þar átti sér stað var að lögreglan kom heim til okkar út af því að hún hafði frétt að karlmaður væri í heimsókn hjá Inga bróður. Þegar lögreglan kom vildu þeir tala við vin Inga sem var í heimsókn og spurðu hann hvort hann gerði sér grein fyrir því að Ingi væri Aids-hommi. Þeir flúðu upp í bústað þar sem mamma og pabbi voru. En þetta gerðist í tvígang. Það var nágranni sem hringdi í lögregluna.
Mamma leitaði alls staðar að tannlækni fyrir Inga en það reyndist þrautinni þyngri að finna, þar til einn góður maður tók hann að sér og höldum við tryggum viðskiptum þar fjölskyldan.
Móðir okkar, Unnur, var ekki nema 37 ára þegar Ingi greinist og hjúkraði hún honum alla daga alltaf og það á engin móðir að fá þetta hlutskipti. Hún var kletturinn, límið og hlekkurinn í fjölskyldunni og fræddi okkur um sjúkdóminn og það sem bar að varast en við knúsuðumst og grétum saman og fundum aldrei fordóma inni á heimilinu. En út á við þurftum við að vera sterk og bera brynju fyrir hrópum og köllum. Ég ól ekki börnin mín til að sitja aftast í rútunni, þið farið fremst og berjist fyrir ykkar réttindum (Tilvitnun úr Philadelphia)
Fyrstu 10 árin eftir andlát Inga var ég alltaf reið við allt og alla.
Hvernig gat fólk verið svona vont, illt við hann, hann var veikur, hann valdi það ekki, ungur maður sem fékk ekki að lifa.
Mín reiði var vegna þess að ég gat ekki verndað hann fyrir framkomu annarra. Og þá og þegar ég áttaði mig á því að þetta snerist bara um fordóma og fordómar eru og verða alltaf vegna fáfræði. Það er eðlilegt að vera hræddur við það sem við vitum ekki og þekkjum ekki, en á þessum tíma voru við ekki nógu vel upplýst þjóð. Ég bið til þess að við fræðumst og fræðum aðra.
Þetta er vers úr ljóði sem ég samdi:
Hvernig sem færi ég hugsaði margt
það líf sem hann mundi lifa
ég lofaði guð fyrir leyndan kraft
meðan lífsklukkan fékk enn að tifa.
Ingi lést 13. desember 1990 aðeins 22 ára eftir erfið veikindi Alnæmis. Hann fékk stöðugar sýkingar, hálssár, vélindabólgu, húðkrabba, psoriasis, krampaköst, truflun í taugakerfið og erfitt með hreyfingar, blóðtappa í hjarta, heilahimnubólgu, hann var 40 kíló fékk endalausar lungnabólgur og það var lungnabólga sem dró hann til dauða í lokin.
Þegar hann dó var líkið sett í zip-lock poka í kistu og lokað fyrir, fjölskyldan fékk ekki að kveðja við kistulagningu, hann leit svo illa út og það bara mátti ekki. En samt sem áður um viku fyrr þegar hann dó var ég uppi á spítala uppi í rúmi hjá honum og kyssti hann bless.
Sorgin og höfnunin, engin áfallahjálp ekkert. Ég hef syrgt bróður minn í hverri einustu jarðarför sem ég hef farið í frá árinu 1990.
Ég er í jakka frá Inga, hann var algjör tískugúru ég elska hann og fer oft í hann.
Áður en ég fer ætla ég að kveðja ykkur eins og hann kvaddi mig og ég kveð dóttur mína ,,tata I see you in a restaurant“.
Halla Kristín Sveinsdóttir