Um 280 karlmenn hafa frá upphafi fengið forvarnarlyf gegn HIV á Landspítala og um 150 fá lyfið reglulega. Margt hefur breyst á þeim þremur árum sem PrEP hefur verið í boði hjá spítalanum. Transkarlar eru nú meðal þeirra sem fá PrEP. Þetta segir Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítala.
Bryndís bendir á að samkvæmt reglugerð sé PrEP hugsað fyrir karlmenn sem stundi áhættusamt kynlíf með karlmönnum, MSM.
Notendur PrEPs þurfi að mæta í eftirlit á spítalanum á þriggja mánaða fresti. „Í eftirlitinu tökum við strok fyrir klamydíu og lekanda, og blóðprufur til að skima fyrir HIV og sárasótt. Við höfum greint töluvert af kynsjúkdómum hjá þessum mönnum.“ Sjúkdómarnir séu þá meðhöndlaðir. „Við getum læknað þá ólíkt HIV.“ Mælt sé með að nota smokkinn. „Við mælum með öruggu kynlífi.“
Bryndís segir PrEP-ið hjálpa mörgum andlega. Margir þeirra sem stundi endaþarmsmök, sérstaklega þeir sem upplifðu og muna alnæmi níunda áratugarins, séu meðvitaðir um hættuna. „Þeir hugsa mikið um smithættuna og eru hræddir. Hafa jafnvel ekki stundað það kynlíf sem þeir vildu eða haft miklar áhyggjur fyrir PrEP-ið. Mér finnst þetta forvarnarlyf því viss andleg meðferð líka,“ segir hún.
Bryndís segir lyfið sjálfsagðan hluta af kynheilsu ungra karlmanna. Hún nefni þetta því að fyrir tíu árum síðan hafi verið miklir fordómar gagnvart forvarnarlyfjum við HIV, þegar rannsóknir hófu að birtast. „Þá vantaði víða í heiminum lyf við HIV þannig að læknum fannst fráleitt að rannsaka lyf sem forvörn fyrir þá sem höfðu ekki smitast.“ Veldisvöxtur hafi orðið á aðgengi HIV-lyfja.
„Við erum að ná því á skömmum tíma að meðhöndla margfalt fleiri en fyrir fimm árum. Það hefur gert það að verkum að notkun PrEP þykir sjálfsagðari núna en þá.“
Sérfræðingar sem vinni með HIV í dag prediki mikilvægi PrEPs. „Heilbrigðisstarfsfólk verður að vera meðvitað um að setja fordóma til hliðar og vísa þeim einstaklingum, sem þeir vita að stunda áhættusamt kynlíf, á göngudeildina okkar. Það er leið til að verjast veirunni og koma í veg fyrir smit.“
En hvað með konur? Bryndís segir þær hingað til ekki hafa verið teknar í mat. „En við metum hvert tilfelli og gætum boðið konum PrEP stundi þær kynlíf gegn greiðslu án þess að vera í stöðu til að nota smokka til að verja sig,“ og bendir á að svo virðist sem lyfjaþéttni í endaþarmi sé að jafnaði meiri hjá körlum en konum.
„Karlar þurfa að taka lyfið í 7 daga áður en þéttni í blóði er viðunandi en konur í 3 vikur. Svo virðist sem lyfið sé hugsanlega virkara hjá körlum vegna þéttni í slímhúð endaþarms.“
Lyf undir húð sem virkar til lengri tíma
Stungulyf við HIV er væntanlegt hingað til lands á næstu mánuðum. Búist er við að lyfið verði gefið á fjögurra vikna fresti til að byrja með en væntingar standa til að það verði gefið á átta vikna fresti. Bretar hafa þegar samþykkt það, segir Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir.
Bryndís segir rannsóknir á lyfinu hafa staðið í töluverðan tíma. „Þessi lyf voru loksins samþykkt fyrr á þessu ári bæði í Bandaríkjunum og svo Evrópu og eru vonandi væntanleg á Norðurlöndunum á næstu mánuðum. Þetta þýðir að fólk tekur ekki lengur töflur daglega heldur kemur lyfið í sprautu undir húð á nokkurra vikna fresti.“
Kostir og gallar séu við meðferðina. „Aukaverkanir eru aðallega tengdar sprautunum sjálfum. Verkir og roði á stungustað. Einnig þýðir þetta að einstaklingar sem nú koma einu sinni eða tvisvar á ári koma þess í stað einu sinni í mánuði á heilbrigðisstofnanir. Við þurfum að skoða hvernig við framkvæmum það með tilliti til álags á göngudeildirnar.“ Það verði þó alltaf samtal milli lækna og viðkomandi hvað henti hverjum og einum.
„Rannsóknir sem ég fylgdist mikið með fyrir 2-3 árum, og kom rannsakendum á óvart, sýndu að HIV sýktir einstaklingar tóku vel í stungumeðferðina. Mörgum fannst gott að vera laus við daglega áminningu um „sjúkdóminn“, og öðrum þægilegt að þurfa ekki að muna eftir að taka töflur.“
Bryndís telur að COVID-faraldurinn hafi seinkað tilkomu sprautulyfjanna. „Ég hélt að þetta yrði komið í notkun en við erum eftirá af því að allt hefur staðið í stað á meðan heimsfaraldurinn geisar.“ Hún segir meðferðina vissulega dýra en líklega ekki svo mikið dýrari en töflumeðferð.
Bryndís segir sprautulyfið einnig hafa verið notað sem forvörn fyrir HIV. „Rannsókn sem greint var frá í fyrra sýndi að þetta lyf, gefið undir húð á 8 vikna fresti, væri betra en töfluformið. Eins og staðan er núna er þetta lyf þó allt of dýrt til að nota sem forvörn.“
Telur um tvo áratugi í bólusetningu við HIV
Allt að fjögur þúsund manns greinast daglega með HIV í heiminum. Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir segir að í hinum vestræna heimi sé HIV ennþá sjúkdómur karlmanna sem sofi hjá karlmönnum, MSM. Það eigi ekki alls staðar við. „Við vitum að í Afríku, sunnan Sahara, er þetta sjúkdómur gagnkynhneigðra, sérstaklega kvenna,“ segir hún.
„Allir sérfræðingar sem sinna HIV-smituðum í heiminum eru sammála um að forvörn gegn HIV, ásamt því að meðhöndla alla sem greinast, er leiðin okkar út úr þessum HIV-heimsfaraldri sem hefur geisað í rúm 30 ár,“ segir Bryndís.
„Við vonum að í framtíðinni verði hægt að bólusetja við HIV eða lækna. En ég get ekki séð það á næstu misserum. Hugsanlega eftir rúm 20 ár.“
Í skoðun að göngudeild húð- og kyn sjái um skimanirnar
Stefnt er að því að flytja eftirlit með PrEP notendum á göngudeild húð- og kynsjúkdóma eftir áramót. Þetta segir Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir. „Þar er starfsfólkið alvant rútínuskimunum,“ segir hún. Mörg þekki vel til deildarinnar og hafi farið þangað í skimanir almennt.
Bryndís segir Landspítala hafa gert hagstæðari samninga við lyfsala. PrEP sé því ódýrara en áður. Nú séu lyfin niðurgreidd að fullu en gera megi ráð fyrir að á einhverjum tímapunkti taki notendur þátt í að greiða fyrir lyfið.
Enn sjokk að fá jákvæða greiningu
„Við höfum verið að sjá 20-30 smit á ári. Mörg nýskráð eru innflytjendur. Flest þeirra vita þegar að þau eru með veiruna,“ lýsir Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir. „Um þriðjungur nýskráninga hér á landi voru nýjar greiningar í fyrra. “
Bryndís segir oft erfitt að segja fólki frá því þegar það greinist með veiruna. „Já, fyrir flesta er það mikið áfall,“ segir hún og leggur höfuðáherslu á að byrja á jákvæðu fréttunum. „HIV er vel meðhöndlanleg sýking þar sem fólk veikist ekki. Það stundar kynlíf án þess að smita aðra, er í samböndum og giftir sig. Nú til dags lifir fólk nokkuð eðlilegu lífi þótt það sé smitað,“ segir hún en einnig að fordómar séu enn til staðar.
„En eins og við höfum marg oft bent á eru eigin fordómar þeir verstu. Vegna tungumálaörðugleika og skorts á sálfræðiþjónustu getur verið erfitt að styðja þessa einstaklinga eins mikið og maður myndi vilja.“
Aukaverkanir svo gott sem úr sögunni
„HIV-smitaðir eiga ekki að upplifa aukaverkanir af lyfjum,“ segir Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir. „Lyfin sem notuð eru núna eru miklu betri en eldri lyfin. Þau hafa færri aukaverkanir og lengri helmingunartíma.“ Lyfjameðferðir séu almennt samsettar. Hver og einn taki eina eða tvær töflur á dag.
„Helsti lyfjaflokkurinn sem hefur haft gífurlega mikil áhrif á meðferð eru svokallaðir integrasa-hindrarar. Nýjasta lyfið hér á Íslandi heitir BIKTARVY. Þetta eru öflug lyf með nánast engar aukaverkanir og eru einnig þess eðlis að helmingunartíminn er það langur að það er ekki lengur áhyggjuefni ef einstaklingar gleyma að taka eina og eina töflu.“
Áður hafi fólk tekið lyf þrisvar á dag, 5-6 töflur í einu. „Þá skipti gífurlega miklu máli að gleyma ekki skammti því það gat leitt til ónæmi veirunnar. En þessi vandamál eru nánast úr sögunni.“
„Mig langar líka að benda á að sum þessara lyfja sem við notum eru nú framleidd sem samlyf. Þau hafa sömu verkun en eru töluvert ódýrari í innkaupum fyrir Landspítalann. Við höfum því verið beðin um að endurskoða meðferð skjólstæðinga okkar, sem við munum gera í samvinnu við þá. Hugsanleg breyting á næstunni gæti orðið sú að sumir taki þá tvær töflur einu sinni á dag í stað einnar.“
Myndatexti: Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir á Landspítala hefur fylgst með framþróun gegn HIV-veirunni um langt árabil.
Mynd/gag