Bergþóra Karlsdóttir hjúkrunarfræðingur fer yfir stöðuna á göngudeild smitsjúkdóma í COVID-heimsfaraldrinum.
Einstaklingar sem áður sóttu þjónustu vegna HIV í heimalandi sínu hafa nú sótt til Landspítala vegna COVID-19 heimsfaraldursins. „Þeir komast ekki heim í eftirlit,“ segir Bergþóra Karlsdóttir, hjúkrunarfræðingur á göngudeild smitsjúkdóma. Hún hefur unnið með HIV jákvæðum allt frá árinu 2004.
„Jákvæðir samkynhneigðir menn sem vinna hér á landi og hafa unnið víða, meðal annars á hótelum og veitingahúsum, hafa sótt aðstoð vegna HIV til heimalands síns. En það geta þeir ekki núna. Þess vegna koma þeir sem nýir inn í þjónustuna,“ segir Bergþóra. Þótt þeir séu með íslenska kennitölu hafi þeir kosið að fara í blóðprufur og sótt lyf heima fyrir.
„Þótt þjónustan sé þeim endurgjaldslaus hefur þessi hópur kosið að viðhalda tengingunni við lækni heimalandsins, við tungumálið sem þeir skilja betur. Mér finnst það eðlilegt en fagna því að þeir sýni okkur það traust að koma nú til okkar,“ segir hún.
Alls hafa 26 nýir bæst við HIV jákvæða hópinn sem þjónustaður er á Landspítala það sem af er ári. „Þar eru 16 þekkt smit en 10 nýgreiningar,“ segir hún. „Af þessum tíu nýgreindu eru sex gagnkynhneigð og fjórir menn sem sofa hjá mönnum.“
Bergþóra segir að fimm konur séu í 26 manna hópnum og tvær þeirra nýgreindar. Haldið sé utanum skilgreininguna til að fylgjast með þróuninni.
PrEP-ið sett á ís í COVID
Bergþóra segir að þjónustan við HIV jákvæða hafi orðið fyrir einhverjum áhrifum af heimsfaraldrinum sem nú geysi en sú þjónustuskerðing hafi verið lágmörkuð.
Hins vegar hafi PrEP-verkefni yfirvalda verið frestað bæði í vor og í haust, en PrEP (e. Pre Exposure Prophylaxis) er verkefnið þar sem einhleypir menn sem stunda kynlíf með öðrum mönnum hafa átt kost á því að fá forvarnarlyfið gegn HIV veirunni.
„En við erum byrjuð að taka inn einstaklinga aftur í verkefnið og vinnum nú biðlistann upp.“ Hún óttast ekki afleiðingar þessarar þjónustuskerðingar. Tíminn hafi verið stuttur. „Margir áttu forvarnarlyfið,“ segir hún. Þjónustuskerðingin hafi verið nauðsynleg til að auka ekki álagið, meðal annars á rannsóknarstofur spítalans.
Bergþóra segir að þegar biðlisti þeirra sem voru á PrEP forvarnarlyfinu hafi verið unninn upp sé tækifæri til að bjóða fleirum þjónustuna. „180 eru skráðir í PrEP-verkefnið. Þriðjungur þeirra eru með erlent ríkisfang og við vitum ekki hvernig þeir skila sér nú eftir kófið. Hvort þeir séu farnir af landi brott. Það kemur í ljós,“ segir hún.
300 skráð í þjónustu
En hefur HIV-þjónusta spítalans breyst í gegnum árin sem hún hefur verið við störf? „Hún hefur breyst vegna viðhorfs einstaklinganna og þar sem lyfin hafa orðið betri og betri. HIV jákvæðir hafa minni þörf fyrir okkur heilbrigðisstarfsfólk. Það er gott. Þeir vita að þeir þurfa að fara í blóðprufu og fara til hjúkrunarfræðings eða læknis á sex til tólf mánaða fresti en þeir eru almennt ekki í andlegu ójafnvægi út af HIV,“ segir hún.
„Þeir sem upplifðu þá tíma þegar veiran leiddi til alnæmis og dauða eru það hins vegar. Það er ör á sálinni hjá mörgum.“
Um 300 séu skráð fyrir þjónustu hjá göngudeild smitsjúkdóma en um fimm hundruð hafi verið skráð frá upphafi. „Það hefur fjölgað hjá okkur jafnt og þétt. Fleiri erlendir ríkisborgarar hafa verið skráðir inn í jöfnu hlutfalli við fjölda þeirra hér á landi,“ segir hún. „Fólk deyr ekki úr alnæmi á Íslandi. Þeir sem deyja úr HIV deyja af öðrum orsökum,“ segir hún að lokum.