Baráttan við HIV endurspeglast í ævisögu Einars Þórs Jónssonar
„Ég vonaðist eftir góðum viðbrögðum, en hefði ekki trúað því hversu margir hafa staldrað við og gefið sér tíma til að kafa frásagnir okkar strákanna af árunum þegar við börðumst við alnæmi. Þetta er sagan okkar,“ segir Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Íslands, sem gerir upp fyrstu sextíu ár ævi sinnar í bókinni Berskjaldaður – Barátta Einars Þórs fyrir lífi og ást. „Já, lífið snýst um ástina,“ segir Einar og hlær. Ástin í lífi Einars hefur þó verið þyrnum stráð eins og hjá svo mörgum sem smituðust af HIV veirunni áður en lyf við henni komu á markað og þróuðust í þau sem nú fást.
Þótt ævi Einars sé í forgrunni segir frá ævi svo margra sem börðust upp á líf og dauða vegna veirunnar. Eins og segir í bókinni: „Ungir menn alls staðar af landinu deyja, Ísafirði, Hólmavík, Blönduósi, Skagaströnd, Höfn, Vestmannaeyjum, Grindavík.
Fremst: Laufey, í miðjunni Gunni látinn, Einar og Bjöggi, aftast Donni og Gústi, látinn.
Hér eru þau á ráðstefnu í Finnlandi árið 1992.
Þeir deyja hér heima. Þeir deyja í helstu stórborgum heimsins. Ef alnæmið fellir þá ekki sjá þeir margir um það sjálfir.“
Eins og nefnt er í bókinni deyja í kringum 40 samkynhneigðir íslenskir karlmenn úr alnæmi á stuttum tíma. „Nær allir fæddir á fimmta og sjötta áratugnum. Allir grindhoraðir, veikir, dauðvona með fordæmdan sjúkdóm. Heilt samfélag homma í Kaupmannahöfn deyr út. Íslenskir strákar, kynferðislegir flóttamenn, létu lífið í öllu helstu borgum í Evrópu. Oft einir.“
Í bókinni er sögð saga glímunnar við HIV á níunda og tíunda áratugnum. Dreypt á ævi Trixie, Donna, Árna Friðriks, Védísar, Laufeyjar, Sævars, Reynis og nafna hans Reynis Más, Gulla, Mumma og Bubba. Sögð saga ungra manna sem lifðu eða féllu fyrir veirunni. Sagt er frá því hvernig samkennd, einelti, talsmátinn og óttinn lék hann.
„Dauðahræðsla leikur um hópinn. Hann stendur í styrjöld. Er í miðjum bardaga. Óttinn er mikill. Margir munu deyja. Margir koma laskaðir úr stríðinu. Margir sem há þetta erfiða stríð ná sér ekki þótt lyfin komi, þótt þeir lifi af. Þeir hafa ekki aðeins háð stríð við sjúkdóminn, við dauðann, heldur einnig innri baráttu. Stríð við samfélagið og einvígi við hvern annan, hvert annað,“ segir í kafla sem fjallar um það þegar unnið var að hópefli innan HIV hópsins.
Spörri í samkvæmi hjá HIV samtökunum á miðjum tíunda áratgunum. Hann bjó í New York. Fræg fyrirsæta og þekktur sem Marlboromaðurinn. Kom heim til að deyja.
„Þetta stríð er ólíkt öðru stríði. Í eiginlegu stríði hefur þú alla þína með þér, ert hluti af liðsheild. Hermenn hafa fjölskyldurnar með sér, en við háum okkar stríð ein.“ Sagt er frá því hvernig hópurinn ásaka sig fyrir að vera í þessari stöðu.
„Hafa samviskubit yfir því að líða hugsanlega betur en þeim sem situr við hliðina á þeim. Hafa samviskubit yfir að hafa smitast. Sjálfseyðing fylgir þeim, eru þunglynd og döpur og finna litla sem enga samkennd í samfélaginu með sjúkdómnum. Eru sek.“ Alnæmi, drepnir, sjálfsmorð. Uppistaðan smitaðir strákar.
Fjölmargar myndir úr lífi HIV jákvæðra á þessum fyrstu árum veirunnar prýða bókina. Myndir af mönnum sem hafa yfirgefið þessa jarðvist. „Flottir sætir strákar veikjast í bunum. Veikindin geta varað í eitt til tvö ár. Svo deyja þeir. Hver smitaði hvern og hverjir voru saman? Margir töldu sig vita hver hefði smitað sig og gátu bent á viðkomandi. Oft spyr fólk, hvernig smitaðist þú? Hver smitaði þig? Það er erfitt ofan í þá staðreynd að þeir bera ólæknandi sjúkdóm. Svo fer það að fréttast og síast inn í vitund hópsins hverja eigi að varast, hverjir séu veikir,“ segir í bókinni.
„Allir eiga þeir strákarnir jarðarfararföt. Hver og einn þeirra á svartar buxur og dökkan jakka, viðeigandi föt fyrir andlát vina sinna. Svo breiða þeir yfir sorgina með gleðilátum á milli minningarathafna. Þeir djamma og gantast á milli þess sem þeir óttast um líf sitt. Gráta. Þeir verða að hafa grímuna uppi. Hver og einn þeirra hefur hlutverk í Pollýönnuleiknum. Hver og einn þeirra á Óskarinn skilið fyrir tilþrifin.“
Reynir Már, Einar, Árni Fririk, Dilli og hin norska Elisabet á norræna þinginu árið 1991.
Öll látin nema Einar og Árni.
Mummi læknir í New York, Albert leikari og Reynir Már.
Allir látnir úr alnæmi.
- nóvember kl. 18:18
Það er ekki oft sem ég sit fastur við lestur ævisagna, það hefur held ég aldrei gerst. Vanalega finnast mér ævisögur ágætis lestur í sjálfu sér, en þó ekki til þess fallnar að lesa í einum, tveimur rykkjum. Það var þangað til ég opnaði bókina „Berskjaldaður“ – ævisaga Einars Þórs. Bókin er stórfengleg, skemmtileg og falleg. Á sama tíma og hún er sorgleg, átakanleg og erfið. Ég gat ekki lagt hana frá mér og las langt fram eftir nóttu. Lífshlaup Einars er mjög merkilegt fyrir fjöldamargar sakir, þvílíkar sögur! Ég felldi tár við lesturinn og hló upphátt, hvoru tveggja nokkrum sinnum. Bókin gefur einnig einstaka innsýn inn í líf hommana sem þurftu að berjast fyrir öllu sínu, með öllum tiltækum ráðum. Það er líka aðdáunarvert hve fallega Einar talar um einstaklinga og til þeirra, af virðingu og manngæsku. Ég vil eiginlega ekki segja meira um bókina því ég vil að sem allra flest grípi eintak og lesi. Til hamingju elsku Einar.
Daníel E. Arnarsson
„Lauk í fyrrakvöld við bókina Berskjaldaður: Barátta Einars Þórs fyrir lífi og ást eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur. Vel við hæfi á Alþjóðlega alnæmisdeginum 1. desember. Fyrir mér er þessi saga ofin úr þremur þykkum þráðum: Fyrsti þráðurinn er persónuleg saga Einars. Vegur hans í gegnum lífsins hæðir og lægðir, sorgir og sigra. Frásögn af því hvernig einstaklingurinn Einar hefur þroskast og mótast í gegnum mótbyr og meðbyr, í samspili við sjálfan sig, ástvini og samferðafólk. Lífsförunautinn. Sagan af því hvernig hann hefur snert við öðrum og hvernig aðrir hafa snert við honum.
Annar þráðurinn er saga af samfélagi. Bolungarvík. Þessa Vestfjarðataug tengi ég afar sterkt við, verandi hommi að vestan eins og Einar. Ég sé hreinlega sjálfan mig í mörgu því sem hann lýsir. Þetta er taugin sem felur í sér uppvöxtinn í Bolungarvík. Stórfjölskylduna. Þetta er sagan af hinni oft á tíðum mótsagnakenndu togstreitu milli þess annars vegar að alast upp í öryggi, eftirliti og normum litla bæjarins, þar sem allir þekkja alla, og hins vegar því að þrá að komast burt. Missa mögulega ákveðið öryggi en njóta þess í stað frelsis til að vera sinn eigin maður. Byggja sína eigin tilveru, á eigin forsendum, fjarri vökulum augum, boðum og bönnum. Fjarri hinum stórbrotna fjallahring sem getur þrengt að manni og þyrmt yfir.
Þriðji þráðurinn, sem ég tengi líka sterkt við, eru tvær sögur af samfélögum. Sagan af hommasamfélaginu og sagan af samfélagi HIV smitaðra. Þetta eru í raun tveir þræðir en svo samofnir að oft er erfitt að greina á milli. Einn áhrifaríkasti og eftirminnilegasti þráður bókarinnar. Mikilvægur og ómissandi hluti íslenskrar hinsegin sögu.
Inn í þessa þrjá megin þræði flétta Einar og Gunnhildur svo ótal aðra þræði, stutta og langa.
Berskjaldaður er saga um þann sem passar ekki inn. Þann sem fellir grímuna, rís upp gegn ríkjandi gildum og skapar sér rými til að lifa í sátt við eigin tilfinningar og sannfæringu. Þetta er saga um átök, uppgjör og missi. Breyskleika. Saga um sjúkdóma, sársauka og sorg. Vonbrigði, vonleysi og ótta. Óttann við að deyja. En þetta er líka saga um hugrekki, vöxt og þroska. Virðingu, vináttu og gæsku. Saga um botnlausa ást. Ást til lífsins.
Hér er á ferðinni blátt áfram, hlý og hrífandi lífssaga þar sem ekkert er dregið undan. Berskjaldaður er stórmerkileg og mikilvæg bók sem á erindi við okkur öll.“
Hilmar Hildar Magnúsar
„Þessi einlæga og hispurslausa saga minnir okkur á mikilvægi þess að standa með eigin tilfinningum og innstu sannfæringu þótt oft sé grýtt undir og á brattann að sækja. Sannarlega er mikill fengur af áhrifamiklum minningum Einars Þórs.“
Þorvaldur Kristinsson