„Samstaða á heimsvísu, sameiginleg ábyrgð“ eru m.a einkunarorð alþjóða alnæmisdagsins 1. desember í ár. Orð sem allir geta og ættu að tileinka sér á þessum undarlegu tímum sem við nú lifum.
Það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara að segja ykkur hversu undarlegt ár 2020 hefur verið. Segja má að þeir sem greinst hafi með HIV og það fólk sem þeim stendur næst sé afar vel kunnugt veirum og afleiðingum þeirra. Einnig þekkja þessir aðilar söguna um skömm og útskúfun þeirra er í upphafi HIV faraldursins smituðust. Saga sem má ekki endurtaka sig en er nú samt að því að nokkru leiti nú í Covid-faraldrinum sem yfir heimsbyggðina hefur gengið á þessu ári.
Veirur eru lævísar og fara ekki í manngreinarálit, þær spyrja ekki hvort fórnarlambið sé karl eða kona eða annað sem aðgreinir mannkyn í sundur. Nei, þær koma sér bara fyrir þar sem þeim þóknast og leggja að velli bæði unga og aldna.
Frábært afrek hefur verið unnið, en þegar þessi pistill er skrifaður berast fréttir af að koma séu á markað nokkur bóluefni gegn Covid-19, með 70-95% virkni. Veirur eru þannig að þær eru gjarnar á að breyta sér og því erfiðar hvað varðar alla lyfjaframleiðslu gegn þeim. Samanber að nokkur ár liðu áður en nothæf lyf við HIV komu á markað.
Mikið hefur mætt á öllu heilbrigðiskerfinu þetta árið og var nú kanski ekki á bætandi í fjársveltan rekstur þess. Samt sem áður verður ekki annað sagt en; þökk sé öllu starfsfólki þess, öllu hjúkrunarfólki, læknum og öðrum þeim er að koma.
Hvað varðar félagið okkar og rekstur þess á árinu, þá höfum við ekki farið varhluta af ástandinu í þjóðfélaginu, lokunum og samkomutakmörkunum. Starfsemin hefur að nánast öllu leiti hvílt á herðum framkvæmdastjóra sem af röggsemi hefur haldið uppi margskonar samskiptum innlendum sem erlendum.
Hefðbundið fræðslustarf hefur legið niðri en notast hefur verið við tæknina með fjarfundum og fyrirlestrum, fræðsluefni dreift, svarað brennandi spurningum sem og verið í samskiptum við opinbera aðila. Alþjóða ráðstefnum og fundum hefur verið frestað eða „summað“ um internetið þeim sem ekki voru bara felldar niður. Sem sagt persónuleg samskipti í algeru lágmarki.
„Getting to Zero“ eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) talaði um hér um árið hefur ekki náðst en miklir sigrar unnist samt, en að mörgu er enn að hyggja. Nú vitum við ekki hver samfélagsmyndin verður að loknum Covid-faraldrinum en forvarnir og fræðslu hverskonar verður að efla. Tölur hér annars staðar í blaðinu tala sínu máli. Alltof margra er þar getið en hafa verður líka í huga að ekki er þar eingöngu um að ræða nýsmit innanlands.
Eins og áður sagði fara veirur ekki í manngreinarálit þegar þær stinga sér niður, allir eru jafnir fyrir þeim. Við skulum í baráttunni haga okkur eins, hætta að draga fólk í dilka sem stuðlar að fordómum, heldur standa saman, því við erum jú öll að berjast fyrir sömu markmiðum.
Svavar G. Jónsson,
formaður HIV Ísland