Karlmenn í gagnkynhneigðum samböndum sem stunda kynlíf endrum og eins með körlum telja sig ekki í hættu á að fá HIV en eru hins vegar í sérstökum áhættuhópi, segja læknar á Landspítalanum
Það sem af er ári eru tveir af þeim fjórum sem hafa smitast af HIV hér á landi í hópi gagnkynhneigðra manna sem sofa endrum og eins hjá öðrum körlum. Einn af fimm í fyrra. Þessir karlar telji sig gagnkynhneigða og séu í sérstökum áhættuhópi á að smitast af HIV veirunni. Þetta segja þau Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir og Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma á Landspítala.
Þau segja að frá því að einhleypum samkynhneigðum mönnum bauðst að fá forvarnarlyf gegn HIV veirunni megi ætla að tekist hafi að forða tíu þeirra frá því að smitast.
„Menn sem sofa hjá mönnum eru mjög meðvitaðir um PrEP ólíkt þeim sem eru almennt með konum en annað slagið karlmönnum. Þá getur svona gerst,“ segir Bryndís. Már segir ógnina sem að þeim stafi dulin.
„Bæði hafa þessir menn ekki horfst í augu við hvað þeir eru og svo getum við í heilbrigðiskerfinu ekki auðkennt þá. Þessir menn falla ekki í hóp samkynhneigðra eða gagnkynhneigðra og eru ekki fíkniefnaneytendur. Við eigum því erfitt með að ná til þeirra,“ segir Már.
„Það er ein af áskorunum okkar sem samfélags að nálgast þessa einstaklinga með einhverjum hætti og fræða þá,“ segir hann. Már bendir þó á að þótt þetta sé staðan hér á landi sé HIV almennt ekki sjúkdómur samkynhneigðra karlmanna. Í Afríku séu kynjahlutföllin jöfn, en horfa verði til þess að útbreiðslan á Vesturlöndum hafi verið mest milli homma.
Þau segja stöðu HIV breytast hratt og bendir Bryndís á að hér áður hafi mátt búast við að um fjórar milljónir á ári smituðust af HIV. Nú sé sú tala komin niður í 1,8 milljón á ári. „Smitum fækkar í heiminum sem er frábært. Með réttri meðhöndlun hefur tekist að minnka líkurnar á að fólk smiti aðra,“ segir Bryndís. „PrEP hefur fengið það jákvæðar móttökur,“ segir hún. „Það er orðin sprenging í almennri kunnáttu og vitund um þessa forvörn.“
Þeir sem smitast hafa í ár og í fyrra eru í hópi þeirra 21 sem hefur verið skráður nýr með HIV hér á landi í ár en þeir voru 38 í fyrra. Meginþorrinn kemur með þekkt smit að utan en eru í fyrsta sinn skráðir hér á landi.
Stutt í sprautur sem virka í margar vikur
Töflur sem gefnar eru einu sinni í viku og langvinn lyfjameðferð sem gefin er undir húð eða í vöðva eru meðal lyfja sem eru í þróun sem meðferð fyrir þá sem eru smitaðir af HIV-veirunni. Þau síðarnefndu virki í fjórar til átta vikur í senn.
„Þessi lyf eru í klínískum rannsóknum,“ segir Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir. Þær hafi gefist vel. Fólk komi á tveggja mánaða fresti á göngudeild.
„Þeir sem hafa tekið þátt í þessum rannsóknum segja að þær breyti öllu.“ Þeir þurfi ekki að taka lyf daglega og finnst sem þeir séu ekki minntir á það daglega að vera smitaðir af HIV.
„Ég vænti þess að á næstu tveimur árum verði þessi lyf komin í notkun í Evrópu,“ segir Bryndís. Svo verði þegar þau fáist samþykkt í Evrópu.
PrEP „On Demand“ viðurkennd leið
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur veitt blessun sína fyrir því að nýta forvarnarlyf við HIV eftir þörfum, eða PrEP On Demand. „Það hefur breytt notkun lyfsins hér á landi sem annars staðar,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítala.
„On Demand 2-1-1 er bæði mælt með og samþykkt af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO og bandarísku heilbrigðisstofnuninni CDC. Komnar eru nýjar leiðbein ingar,“ segir Bryndís. Einstaklingar séu því að taka færri töflur en áður.
„2-1-1 þýðir að einstaklingurinn tekur 2 töflur 2-24 klukkustundum fyrir kynlíf, svo tekur hann eina töflu daginn eftir og aðra þann næsta,“ segir Bryndís og bendir á að einstaklingarnir þurfi því annað hvort að skipuleggja hvenær þeir ætli að stunda kynlíf eða bíða í tvo tíma eftir virkninni. Sé kynlíf stundað um nokkurra daga skeið þurfi að taka töfluna daglega og í 48 klukkustundir eftir að því ljúki.
Már Kristjánsson, yfirmaður smitsjúkdómalækninga hjá Landspítala, segir að alls hafi 176 hafið PrEP meðferð hér á landi frá því að hún hófst fyrir rúmu ári síðan. Einungis 5% þeirra hafa hætt á PrEP.
„Það er afar lítið,“ segir Bryndís. Þróunin í lyfjum bæði við HIV og í forvarnarskyni sé afar hröð.
Þau nefna að þrjár leiðir séu helst færar til að taka lyf í forvarnarskyni við HIV. Hægt sé að taka lyf daglega, nýta On Demand meðferðina eða svokallað Holiday PrEP.“ Þá tekur einstaklingurinn pillu daglega í viku fyrir frí, svo daglega á meðan á því stendur og svo 48 tíma eftir að fríinu lýkur.“
Á þriggja mánaða fresti sé skimað fyrir klamydíu, lekanda og sárasótt hjá þeim sem nýti PrEP. „Við höfum verið að greina kynsjúkdóma og meðhöndla þá.“ En hefur PrEP fjölgað tilfellum kynsjúkdóma? „Við vitum það ekki nákvæmlega,“ segir Már.
Ákveðið hafi verið að rannsaka það sérstaklega. Anna Tómasdóttir hjúkrunarfræðingur muni standa að rannsókninni. „En tilfinningin er sú að ákveðinn hluti hópsins, minnihluti, hafi greinst endurtekið með kynsjúkdóma,“ segir Már. Meginþorri hópsins sé án þeirra.
Bryndís segir marga þá sem noti PrEP lýsa því að þeir upplifi frelsi með því að nota forvarnarlyf við HIV. „Þetta er fólk sem hefur verið bælt niður af áhyggjum af því að smitast af HIV í þrjá áratugi,“ segir hún. „Þessir menn segja að þetta sé sitt frelsi. Þeir finni frelsi. Þetta er sama frelsið og konur fengu á sjöunda áratugnum þegar pillan kom loksins á markað,“ segir hún.
☛ Hversu margir eru smitaðir af HIV í heiminum?
Bryndís segir um 38-40 milljónir manna séu smitaðir af HIV. Yfir 20 milljónir séu meðhöndlaðar. „Árið 2003 var markmiðið 3 af 5. Það er að þrjár milljónir væru meðhöndlaðar af fimm,“ segi hún. Nú sé markmiðið 90-90-90. „Það þýðir að af þeim smituðu ættu 90% að vita það, 90% þeirra að vera á lyfjum og 90% þeirra að svara lyfjunum það vel að þeir séu með ómælanlegt veirumagn,“ segir hún.
☛ Hversu margir hér á landi
Hér á landi sé talið að 95% viti að þeir séu smitaðir, langflestir þeirra mælist ekki með veiru. „Lyfin eru orðin það góð að 95% þeirra sem taka þau eru með núll í veirumagni og þar með ekki smitandi.“
☛ Mun Prep útrýma HIV?
Bryndís segir að talið sé að ein til tvær milljónir manna um allan heim séu á forvarnarlyfi við HIV. Um tíu milljónir þurfi að vera á lyfinu. „Við erum að horfa á að unga fólkið í dag gæti upplifað HIV lausa kynslóð. Það er raunhæft að einhverju leyti,“ segir hún.
☛ Geta pör stundað óvarið kynlíf ef annar aðilinn er smitaður?
„Við þekkjum dæmi um sambönd þar sem annar aðilinn er jákvæður. Þau stunda óvarið kynlíf án þess að smitast,“ segir Már. Ekkert mæli gegn því. Fólk sem sé á lyfjum og sé með 0 í veirumagni þurfi ekki að nota smokka við kynlíf. Það sé ekki smitandi. U=U: Undetectable = Untransmittable
☛ Er slæmt að fá HIV í dag?
„Nei,“ segir Már. „Það skiptir ekki máli líkamlega.“ Bryndís bendir þó á að andlegt áfall geti verið mikið við að greinast. „Smit hefur áhrif á andlega heilsu frekar en líkamlega.“ HIV-smit geti haft áhrif á félagslega stöðu. „HIV er ólæknandi sjúkdómur og verður næstu 20-30 árin. Við meðhöndlum þennan lífstíðarsjúkdóm eins og aðra slíka, sykursýki og háþrýsting,“ segir hún. Enn sé það svo að fólk fái ekki sömu samúð í þjófélaginu og aðrir með aðra sjúkdóma. „Það hefur áhrif á marga.” Ástæðan sé að HIV sé kynsjúkdómur. „Þessu viðhorfi þarf að breyta.“
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
Birtist fyrst í Rauða borðanum 1. des. 2019