Í dag er alþjóðlegi HIV dagurinn, 1. desember, en þá gerum við upp baráttuna við þennan skæða sjúkdóm, fögnum þeim sigrum sem hafa unnist í baráttunni, minnumst þeirra sem hafa látist og hugsum til þeirra sem lifa með sjúkdómnum frá degi til dags. Á liðnu ári greindust 39 einstaklingar með HIV á Íslandi.
Félagið okkar var stofnað fyrir 35 árum. Margir leita til samtakanna eftir upplýsingum og leiðbeiningum. Staðið er fyrir fræðslu um HIV og aðra kynsjúkdóma í grunnskólum landsins. Rauði borðinn, tímarit samtakanna, var gefið út síðasta vetur. Opið er eftir hádegi 4 daga í viku á skrifstofu félagsins í félagsheimilinu á Hverfisgötu, starfsmaður er í hlutastarfi en sjálfboðavinna félagsmanna er grundvöllur starfsins. Félagið tekur þátt í erlendu samstarfi. Haldið er úti heimsíðu hiv-island.is facebooksíðu félagsins auk fleiri samskiptahópa á netinu.
Margvíslegar uppákomur eiga sér stað árlega á vegum HIV Ísland.
Námsmenn, innflytjendur, ungt fólk, aðstandendur og margir aðrir leita til samtakanna eftir ráðgjöf, stuðning og upplýsingum. Hægt er að fá viðtalstíma við ráðgjafa í húsnæði félagsins eða í síma.
Störf HIV samtakanna á Íslandi eru sérstök, viðkvæm og frábrugðin öðrum félögum að því leyti að stór hópur félagsmanna vill ekki láta aðra í samfélaginu vita af sér og kemur ekki fram nema undir algjörum trúnaði og ekki á opinberum viðburðum sem félagið stendur fyrir.
Stóra eilífðarverkefni félagsmanna er vinnan gegn fordómum og misskilningi um HIV smitað fólk. Viðfangsefnið er mannréttindi, sýnileiki, forvarnir, fræðsla, styrking og samvinna.
Sunnudaginn 21. maí var haldin sátta- og minningarstund í Fríkirkjunni í Reykjavík í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá fyrsta HIV smiti.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kom þar fram og viðurkenndi fyrir þéttskipaðri kirkju þá mismunun sem átti sér stað, þá fordóma sem HIV jákvæðir og alnæmissjúkir mættu af hendi yfirvalda og almennings við upphaf faraldursins.
Saga HIV sjúkdómsins er sársaukafull og ljót en þar er jafnframt að finna sögur af sálgæslu, samstöðu og fegurð.
Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri.