HIV Ísland fagnar í ár þeim áfanga að hafa starfað í 35 ár. Félagið var stofnað 1. desember 1988. Fagnað segi ég, en það var auðvitað ekkert fagnaðarefni að til félagsins var stofnað í upphafi. Félagið var stofnað af illri nauðsyn, nauðsyn sem reyndar er enn til staðar þó margt hafi áunnist og breyst á þessum árum.
Fyrsta skráða smitið
Í ár eru líka 40 ár frá fyrsta skráða HIV smitinu hér á landi. Enginn vissi hvað var að gerast og öllum sem að þessum sjúklingi komu var uppálagt að vera mjög á varðvergi ef þeir eða þeirra nánustu finndu fyrir einhverskonar sjúkdómseinkennum. Fljótlega beindust böndin að því að þessi sjúklingur væri með „homma-sjúkdóminn“ sem var að leggja samkynhneigða karlmenn að velli í stórborgum erlendis. Svo reyndist líka vera og var þetta fyrsta tilfelli þar sem HIV greindist hér á landi.
Tölur og ekki síður ártöl
Undarlegt er þegar við skoðum tölur, þar með talið ártöl! Árið 2003 sem er 20 árum eftir fyrsta greinda smitið og 15 árum eftir stofnun félagsins, veikist ég alvarlega, náði heilsu aftur á nokkrun mánuðum og í framhaldi af því ákvað ég að leggja félaginu lið og gef kost á mér til stjórnarsetu. Hef svo setið í tveimur lotum í stjórn félagsins og sem formaður fyrst á 25 ára afmælinu og aftur nú þegar við fögnum 35 ára tímamótunum.
Staðan og hvað er framundan
Alveg kaldur segi ég „fögnum 35 árunum“, því það er svo sannarlega fagnaðarefni að í dag er það ekki dauðadómur að greinast með HIV eins og það var fyrir 40 árum! Sértu greindur jákvæður, sinnir heilsu þinni og takir lyfin reglulega ertu bara alls ekki smitandi. Þú getur því lifað þínu lífi eins og hver annar.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar, já og af hvörmum milljóna manna vegna þessa sjúkdóms í gegnum áratugina. Baráttunni er hvergi lokið þótt systir HIV veirunnar, Covid, hafi komist í sviðsljósið og tekið mesta athygli síðustu ár. Beina þarf athygli í auknum mæli að þróunarlöndunum og koma til móts við þau með auknu lyfjamagni í umferð. Einnig má segja að Austur-Evrópa þurfi meiri athygli.
Hér heima
Hér heima beinum við nú sjónum að því sem kallað er „hraðpróf“ og skyndiprófunarstöðvar. Þekkt erlendis til margra ára og lítum við séstaklega til frænda okkar í Danmörku um slíkt skipulag. Höfum á undanförnum árum verið að berjast fyrir að fá slík próf í notkun hér á landi. Vonumst við til að koma þess konar stöðvum á laggirnar innan fárra mánaða.
Þegar þú kæri lesandi lítur yfir tölur er varða fjölda greindra HIV jákvæðra á Íslandi tekur þú eftir að mikil fjölgun er í hópnum. Já, 39 greindir árið 2022. Auðvitað er það allt of margir, en samt gott að þeir greindust og þar með komast í viðeigandi lyfjameðferð. En við þurfum að rýna í þessar tölur með sterkum gleraugum til að sjá raunveruleikann. Fjölgunin skýrist nefnilega af því að fólk flytur hingað frá öðrum löndum. En við tökum þessum systkinum okkar fagnandi og gerum það sem þarf til að gera þeim lífið léttara.
Félagið
Rekstur félagsins okkar er nokkuð áhyggjuefni. Eins og staðan er í dag þurfum við fleiri greiðandi félaga til að geta haldið úti svipaðri starfsemi og undanfarin ár.
Kæru félagar stöndum saman, berjumst áfram að okkar hugðarefni sem er auðvitað að HIV jákvæðir njóti sömu meðferðar og aðrir þegnar okkar góða samfélags!
Svavar G. Jónsson
Formaður HIV Ísland