Sunnudaginn 21. maí var haldin sátta- og minningarstund í Fríkirkjunni í Reykjavík í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá fyrsta HIV smiti.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kom þar fram og viðurkenndi fyrir þéttskipaðri kirkju þá mismunun sem átti sér stað, þá fordóma sem HIV jákvæðir og alnæmissjúkir mættu af hendi yfirvalda og almennings við upphaf faraldursins. Vegferðin hefur verið sársaukafull en vonumst við til að vera forsætisráðherra á minningarstundinni og samkennd hennar varpi ljósi á fortíðina og gefi okkur tækifæri á að horfa og græða örin sem við berum.
Við birtum hér nokkrar af þeim ræðum sem haldnar voru á þessum degi.
Einar Þór Jónsson
Ágæta samkoma, forsætisráðherra.
Fjörutíu ár eru liðin á fyrsta HIV-smitinu hér á landi. Það var frystihússtjórinn á Skagaströnd. Á því ári fór ég til Englands í skóla og hitti fyrsta loverinn minn. Þetta var árið 1983.
Minnast má alnæmisfaraldursins á Vesturlöndum sem plágunnar (kynvillingaplágunnar) sem varpaði kastljósi á fordóma gagnvart ýmsum minnihlutahópum, þá sérstaklega hommum. Hatursins sem þeir máttu þola og framkomunnar í þeirra garð sem var fyrir neðan allar hellur. Það var gríðarlega mikill ótti í samfélaginu. Það var ótti í gay-samfélaginu sem hafði afdrifarík áhrif og setti mark á framtíðina. Mótaði möguleika samkynhneigðra manna til lífs og ásta.
Víða var smitsjúkdómalögunum breytt, það voru settar á ferðahömlur og við strákarnir fengum þann stimpill að við værum lauslátir. Hommar eru, voru og verða lauslátir, það höfum við öll alist upp við, ekki satt.
Við vorum druslur. Við vorum hommatittir sem hugsuðum ekkert, nema um kynlíf með næsta manni. Við vorum ótrúverðugir, kærulausir gæjar. Allt þetta var sagt upphátt. Ritað í blöðin.
Kynvillingar. Margir mannorðslausir, húsnæðislausir, atvinnulausir og án tækifæra. Við vorum menn með siðferðiskenndina á lægra plani en aðrir. Við vorum jafnvel um tíma taldir lífræðilega öðruvísi með annað kerfi. Tilvera okkar ögraði ríkjandi gildismati. Hugmyndin um að koma þessu liði fyrir á eyju í Breiðafirði, eyju í sænska skerjagarðinum eða stofnun sjálfbærs þorps sem gæti hýst þessa menn. Það mætti kannski tattúera mannskapinn til að þekkja hann úr. Þetta og margt fleira heyrðist.
Það var dauðadómur að fá þessa skelfilegu veiru. Útskúfun samfélagsins var fangelsið sem við vorum látnir bíða í fram að lífslokum. Höfnun á öllum sviðum og okkur neitað um ást og réttarins til ástar. Menn í þessum aðstæðum fóru að haga sér eftir áliti samfélagsins. Samfélagið mótar einstaklinginn og það mótaði líka okkur hommana, hvernig við ættum að vera. Hvaða hlutverk við ættum að leika. Það þótti í lagi að segja hvað sem er við okkur. Gera hvað sem var við okkur. Niðurlægingin algjör og við áttum að þiggja myglaða brauðmola með þökkum.
Af hverju erum við hér í dag? Það eru komin lyf við sjúkdómnum, við lifðum af. Til hvers erum við að róta í þessu? Þetta er búið. Gert. Liðið. Svo erfiður tími að baki. Er kannski nóg að segja: Þetta var tíðarandinn? Nei. Við þurfum að horfast í augu við að svona var komið fram við manneskjur. Við sem erum hér í dag og stóðum í eldlínunni eigum það skilið að minningin sé ekki grafin með vinum okkar sem létust úr alnæmi. Það er jafnframt gríðarlega mikilvægt að þessi voðalegi tími gleymist ekki. Við þurfum að læra. Svo mikilvægt þegar við sjáum og upplifum bakslag í málefnum hinsegin fólks og finnum á eigin skinni hvað stutt getur verið í fordóma og hatur.
Sumar fjölskyldur reyndu að styðja sína. Aðrar ekki. Enn aðrir lokuðu sína inni í herbergi. Svo dóu þeir. Óttinn gefur leyfi til ljótra hluta og okkur leið sem í stríðsástandi. Útrýmingarleið. Þannig voru fyrstu alnæmisárin. Við stóðum á hriplekum fleka. Við strákarnir. Og stelpurnar Védís heitin, Hrafnhildur heitin. Og elsku Laufey.
Veiran felldi marga tugi sem voru í blóma lífsins. Við skulum líka hugsa til allra sem flúðu land og áttu misgóða ævi víða um lönd. Einsemd. Ungu fallegu hommarnir féllu líka fyrir eigin hendi. Þeir urðu þunglyndir. Ánetjuðust vímuefnum. Áföll á áföll ofan. Margir hafa átt erfitt með að fóta sig eðlilega í lífinu. Vitaskuld hafði þetta áhrif á allt hommasamfélagið. Hræðilegur og lamandi ótti. Þessi sjúkdómur hamlaði og framkallaði það versta í fólki. Kjaftagangurinn var yfirþyrmandi. Tortryggni. Smitskömm. Skortur á mannúð og manngæsku. Kærur. Hótanir. Lögreglan. Hvernig stofnanir og kerfið brást okkur og við vorum skilin eftir. Ég þekki engan sem komst alheill frá þessu.
Nú minnumst við þeirra sem látist hafa úr alnæmi. Dóu áður en fór að rofa til. Dóu jafnvel áður en fólk áttaði sig og steig inn. Áður en það raunverulega fannst við eiga skilið að fá hjálp.
Forsætisráðherra er með okkur hér í dag. Vera hennar og samkennd varpar ljósi á fortíðina og gefur okkur tækifæri á horfa á örin sem við berum; að græða sárin.
Félagið okkar var stofnað í lok árs 1988. Þá steig ákveðinn hópur heilbrigðisstarfsfólks inn með okkur og eru með okkur enn þann dag í dag og það gerðu þau þrátt fyrir viðhorfin sem ríktu í okkar garð á þeim tíma. Við erum þeim svo þakklát. Við trúum því að sýnileiki hinsegin fólks hafi aukist með þessum ósköpum og vakning orðið í mannréttindamálum. Fólk sýndi í verki að það vildi sýna samstöðu, skilning og stuðning. Fjölskyldur og vinir hlúðu að sínum, þess naut ég og margir aðrir. Þúsund þakkir fyrir það. Alnæmi jók nefnilega sýnileka og hugrekki einstaklinga, það var engu að tapa en allt til að vinna.
Þetta er mikilvæg minningar- og sáttarstund hér í Fríkirkjunni í dag. Nú minnumst við þeirra sem börðust fyrir að fá að elska, fyrir að elskast. Við minnumst þeirra sem dóu í leit sinni að ást.
Einar Þór Jónsson